22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

400. mál, bankaútibú

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það er ljóst af þessum umr.hv. alþm. gera sér ljósa grein fyrir því að íslenska bankakerfið er í úlfakreppu. Það hafa menn raunar margir vitað um allmargra ára skeið og ættu kannske allir að hafa gert sér grein fyrir.

Ég ætla ekki að fara út í langar efnislegar umr., enda tíminn skammur, en mér finnst ekki að þessari umr. geti lokið þannig að menn geri sér ekki grein fyrir því að eðli bankakerfisins sjálfs, þ.e. hin opinbera eign á öllu peningakerfi landsins svo að segja, bæði í bönkunum, viðskiptabönkunum, ég tala nú ekki um Seðlabankann, öllu sjóðakerfinu o.s.frv., á sér hvergi hliðstæðu svo að ég viti annars staðar í lýðfrjálsu ríki, og er raunar ósamræmanlegt heilbrigðum lýðræðisþáttum að ríkisvald og stjórnmálaöfl ráði yfir öllu fjármagni þjóðfélagsins.

En svo ánægjulega vill til að tveir stjórnmálaflokkar a.m.k. hafa lýst því yfir að þeir stefni að því að gera alla viðskiptabankana íslensku að almenningshlutafélögum. Það er auðvitað þetta sem ber að gera. Þetta var samþykkt á landsfundi Sjálfstfl. nýverið einróma. Eitt af fyrstu málum þessa þings, ég hygg 3. mál, var einmitt tillaga BJ um hið sama. Lausnin í þessu máli er aðeins ein. Hún er sú að gefa fólkinu ávísanir á þetta vald og þann auð sem þarna er fyrir hendi, hinn gífurlega mikla ríkisauð sem hefur verið hrifsaður frá fólkinu.

Nú er baráttan um það eitt að safna sparifénu inn fyrir bankaveggina, að ná í sem mest sparifé. Baráttan um það kostar óhemjufjármagn. Hins vegar er minna um það hugsað hvernig þessum peningum er varið þegar viðkomandi banki hefur náð á þeim tangarhaldi. Þetta yrði auðvitað með allt öðrum hætti ef einstaklingar, borgararnir sjálfir, beint, án milligöngu stjórnmálamanna, stjórnuðu viðskiptabönkum, eins og er í öllum lýðfrjálsum löndum.

Mér er ekki kunnugt um að það þekkist að ríkisvaldið eigi svo mikið sem einn banka, viðskiptabanka, í vestrænum löndum. Það mun vera einhver hlutdeild í einum banka í Finnlandi. Mitterand í Frakklandi ætlaði að láta ríkið hefja einhver afskipti af bankastarfsemi þar í landi, en mun hafa horfið frá því. Alls staðar annars staðar eru viðskiptabankarnir í eigu fólksins en ekki ríkisvaldsins og þess vegna er þeim stjórnað af viti en ekki óráðsíu. (Gripið fram í.) Ég endurtek að ólánið er að íslenska ríkið fer með allt fjármálavald í þessu þjóðfélagi.

Það er ósamrýmanlegt eðlilegum, heilbrigðum lýðræðislegum háttum.