22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

102. mál, Íslandssögukennsla í skólum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 5. þm. Vestf. fyrir að flytja þetta mál hér inn í þingsalina. Því miður þá er það svo að umræðuefni af þessum toga eru allt of sjaldgæf hér í þingsölum. Ég segi allt of sjaldgæf vegna þess að þau snerta grundvallarþátt í uppeldi og öllum viðhorfum þjóðarinnar. Og ég er þeirrar skoðunar að við mættum gefa þessum málum miklu meiri gaum og ræða miklu ítarlegar hér í okkar hópi alþm. Hvernig háttað er kennslu og fræðslu um grundvallaratriði í sjálfri tilveru þessarar þjóðar.

Ég er sammála hv. 2. þm. Austurl. Helga Seljan um að hinar þurru staðreyndaupptalningar, sem voru notaðar um árabil, hafa mjög gengið sér til húðar. Spurningar eins og þessi sáust stundum á prófi hér forðum: Hver er myndarlegasti landshöfðinginn? — þar sem rétt svar var Magnús Stephensen, en rangt Hilmar Finsen. Slíkar spurningar og slík efnistök þjóna því auðvitað ekki að glæða áhuga fólks á þessum grundvallarþætti okkar þjóðar.

Ég held líka að það sé rétt sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan að hafa eigi þekkingarmarkmið í fyrirrúmi í allri kennslu. En ég er engu að síður þeirrar skoðunar að það beri að halda þannig á þessum málum að í skólum landsins og í Íslandssögu sé allt gert vísvitandi og markvisst til þess að stuðla að virðingu nemenda fyrir Íslandssögunni, fyrir tungu þjóðarinnar og menningararfi. Og ef hlutleysismarkmiðin eru orðin svo ríkjandi að þetta sé óheimilt, að leggja áherslu á að efla þessa virðingu fyrir þjóðarsögunni, þá hafa þau gengið of langt að mínu mati. Ég er þeirrar skoðunar að tekist hafi á liðnum árum að ná furðu langt í því að draga í rauninni úr áhuga fólks á þessum meginforsendum okkar þjóðfélags. Og það var ánægjuefni að sjá á s.l. sumri þegar minnst var 200 ára afmælis Skaftárelda hvernig hafði tekist til við að glæða áhuga og skilning nemenda í Kirkjubæjarklausturskóla á því sem hafði gerst fyrir 200 árum. Þá sást mjög vel að það er mögulegt að skapa áhuga og næman skilning nemenda, yngsta fólksins í dag, á tiltölulega mjög fjarlægum viðburðum í Íslandssögunni.

Ég held að þessi sýning sé til marks um að unnt sé að gæða söguna lífi sem dugir til þess að unga kynslóðin skynji nauðsyn þess að við höldum fast í þennan meginþátt í sögu, athöfnum og starfi íslensku þjóðarinnar.