22.11.1983
Sameinað þing: 23. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

102. mál, Íslandssögukennsla í skólum

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil taka undir það að mjög æskilegt er að mál sem þessi séu rædd hér á Alþingi. Þetta eru mál sem varða ekki einungis nemendurna og kennarana heldur hvern einasta mann í landinu. Þetta er líka mál sem hver maður hefur rétt til að hafa skoðun á.

Nú er það svo að námsskráin, sem er ramminn utan um námsefnið, er til endurskoðunar og ákvörðunar á nokkurra ára fresti. Drög að aðalnámsskrá grunnskóla eru til meðferðar nú í menntmrn. og ég vil skýra frá því að ég ætla að útbýta þessum drögum meðal þm. nú næstu daga því að mér þykir ástæða til þess að þeir sjái hvað til stendur að kenna í grunnskólanum, hver er ætlunin að framkvæmdin verði á grunnskólalögunum sem þeir sjálfir settu. Ég yrði vitanlega þakklát fyrir að hv. þm. kæmu aths. sínum til mín fljótlega eftir að þeir hefðu haft þetta efni til skoðunar.

Það er meira en tímabært að umr. um þekkingarmiðlunina í skólunum fari fram hér á landi. Mikil umr. hefur verið um þessi efni í nágrannalöndum okkar og við erum ekki ein um að óttast að meðal þess marga, sem þarf að kenna í grunnskólanum, verði eitthvað sem ekki kemst að eða jafnvel fer forgörðum. Staðreynd er að nágrannaþjóðir okkar hafa af því þungar áhyggjur að margir skólanemendur séu ekki nægilega vel að sér um einföldustu staðreyndir sinnar eigin þjóðarsögu eða þá í landafræði, sinnar eigin eða nágranna sinna, en þeir hafi aftur á móti þekkingu af því tagi sem stundum er kallað að vita meira og meira um minna og minna. Það er sú hætta sem of mikil áhersla á svonefndri „temakennsluaðferð“ hefur í för með sér. Hún getur gert námið mjög skemmtilegt en óneitanlega þarf að hafa í huga hver tími verður afgangs fyrir önnur atriði almenns eðlis. Þetta er sá vandi sem við stöndum andspænis. Það er mjög margt skemmtilegt í gerð námsefnis undanfarinna ára, sem vissulega er til þess fallið að vekja áhuga og spurningar nemenda. T.d. eru samfélagsfræðibækur fyrir yngstu nemendurna mjög skemmtilegt efni. Fyrst farið er að geta um einstök rit hér úr ræðustóli Alþingis langar mig sérstaklega að minnast á ritið um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttuna sem ég tel mjög skemmtilega og fróðlega úr garði gert. Hins vegar gildir um það eins og mörg önnur atriði að vitanlega verður þetta að falla allt inn í eðlilegan tímaramma. Mjög gott er fyrir nemendur að eiga kost á slíku efni, hafa það undir höndum og vinna úr því eins og þeir geta.

Ég þakka fyrir orðið, herra forseti.