22.11.1983
Sameinað þing: 24. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég mun ekki í þessu máli mínu nú elta ólar við langloku hv. 5. þm. Austurl. frá því s.l. fimmtudag þegar fyrri hluti umr. um mál þetta fór fram.

Ég sé ástæðu til að þakka málflutning nokkurra hv. þm., eins og hv. 4. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Reykn. svo og ýmsar aths. skarplegar sem hv. 4. landsk. þm. flutti hér. Ég dreg reyndar þá ályktun af ræðu hv. 4. þm. Suðurl. að hv. 5. þm. Austurl. fari ekki með algert umboð fyrir Alþb. í þessu máli. Ýmislegt mátti merkja af hans máli sem gefur manni tilefni til að álykta að svo sé ekki. En þráhyggjan rekur hann áfram og í þessu máli er hann haldinn áráttu sem hann lítt ræður við ef dæma má eftir málflutningi hans.

Hann rifjaði það upp hvernig skilið var við þetta mál á vordögum, í marsmánuði s.l., þar sem hann skildi við þetta einhvern tíma um miðja nótt eftir maraþonumræður, og rifjaði upp að ýmislegt hefði setið á hakanum af þeim nauðsynlegu málum, sem þá hefðu þurft að ganga fram, vegna tillögugerðar sem beinlínis var auðvitað vantraust á hv. 5. þm. Austurl., þáv. hæstv. iðnrh. Það er rétt. Það var fleira en kísilmálmur á Reyðarfirði sem sat á hakanum. Það var engin vegáætlun afgreidd, það var engin lánsfjáráætlun afgreidd þótt komið væri langt fram undir vordaga. Auðvitað sat allt á hakanum hjá mestu vandræðastjórn sem setið hefur að völdum á Íslandi fyrr og síðar.

Ég mun nú víkja að einstaka spurningum sem hv. þm. beindi til mín. Hann virtist hafa miklar áhyggjur af því að skattamálið deilan við Alusuisse hefði verið tekin út úr gerðardóminum í New York og talaði um að það hefði verið farið að kröfu Alusuisse, Sviss Aluminium í því efni. Hann skal þó upplýstur um það að ég lagði það eindregið til að reynt yrði að ná samningum um aðra málsmeðferð en rekstur málsins fyrir þessum alþjóðagerðardómi í New York. Og ég skal upplýsa hv. þm. og hið háa Alþingi um það, að ég naut í því sambandi ráðlegginga fyrirtækis, sem hv. fyrrv. iðnrh. réði til hlutanna, Coopers & Lybrand. Þeir lögðu eindregið til að reynd yrði önnur mátsmeðferð en þessi. Og hvers vegna? Vegna þess að við hefðum verið tjóðraðir við þennan hæl a.m.k. tvö ár án þess að komast lönd eða strönd í málinu. Það er kannske það sem hv. þm. vill og hefur alltaf viljað, að við kæmumst ekkert áfram, að okkur ræki ekki að samningum, fyrir utan óhemjulegan kostnað sem þessu hefði verið samfara. Það var eindregin málaleitan íslensku aðilanna að reynt yrði að fara annan veg til lausnar á þessum vandamálum, ódýrari og skjótvirkari. Og eins og ég segi, ráðgjafarfyrirtækið mælti eindregið með því. Þetta er frá því að segja. Enda vorum það ekki við sem vísuðum þessari deilu til gerðardómsins í New York. Við vorum dregnir, okkur var stefnt fyrir þennan gerðardóm af gagnaðila okkar, auðhringnum í Sviss, svo er það orðið keppikefli að sækja málið og verja fyrir þeim dómi.

Þá vík ég að því atriði í málflutningi hans þar sem hann talaði um vanhæfni samninganefndarmanna og fleiri manna reyndar, sem að samningsgerð hafa unnið, og nefndi þar til Hjört Torfason hrl. Ég vísa því með öllu á bug að formaður Landsvirkjunar, aðalaðilans að orkusölusamningnum, sé vanhæfur til slíkra verka. Það er þvert á móti fullkomlega eðlilegt að hann sé í fyrirsvari fyrir slíkum samningum. Hvað varðar Hjört Torfason hrl. vil ég upplýsa það, sem mér var að vísu ekki kunnugt um fyrr en fyrir nokkrum vikum síðan, að þessi ágæti lögmaður hefur verið aðalráðunautur um slíka og þvílíka samningagerð og hann var það öll ár hv. þm. í ráðherraembætti. Eftir sem áður skipaði hv. þm., fyrrv. hæstv. iðnrh., viðkomandi mann í formennsku í Járnblendifélaginu, sem hann nú telur vafasama stöðu fyrir þennan ráðgjafa í lögfræðiatriðum. Ég hef hins vegar breytt til í þessu efni. Fyrir um mánuði síðan ræddi ég þetta mál við þennan ágæta lögmann, Hjört Torfason, og það er samkomulag okkar í milli að hann verði áfram lögfræðilegur ráðunautur en láti af formennsku í stjórn Járnblendifélagsins í Hvalfirði, enda er það af grundvallarástæðum af minni hálfu, að það eigi ekki við að ráðgjafi um orkusölusamninga sé þann veg tvöfaldur í roðinu, að hann gegni stjórnarformennsku, — formannsembætti í fyrirtæki sem við erum að semja um orkusölu til. (Gripið fram í.) Þetta mál hafði ég tekið til meðferðar fyrir allnokkru síðan þegar mér var þetta ljóst. En nú gagnrýnir þessi hv. þm. þessa málsmeðferð varðandi þennan hv. lögfræðing og talar um vanhæfni hans, enda þótt þannig hafi verið ástatt um hann alla hans tíð sem iðnrh.

Þá gagnrýndi hv. þm. að samningaviðræður hefðu farið fram á erlendri grund. Það gerðu þær líka svo til jafns við það nokkurn veginn sem hér var, nema þegar menn hittust á miðri leið. Svo mun þetta verða áfram. Og satt best að segja sé ég ekki neitt gagnrýnivert við þá aðferð að menn mætist á miðri leið, þegar svo ber undir um val á samningsstöðum, þannig að þessi aðfinnsla er auðvitað út í hött.

Hv. þm. varpaði fram þeirri spurningu hvort gilti, samningurinn á ensku eða þýðingin íslenska. Við skulum halda okkur við samninginn sem var undirskrifaður. Við skulum halda okkur við enska samninginn. (HG: Var hinn ekki undirritaður?) Hinn var ekki undirritaður, nei. Enski textinn var undirritaður. Það var hv. þm. kunnugt um á fimmtudaginn þegar hann flutti ræðu sína. Hann fullyrti það hér í stólnum, það er hægt að fletta því upp, að það hefði vakið athygli að aðeins enski textinn hefði verið undirritaður. Hann hefur þá sagt meira en hann vissi ef svo hefur ekki verið. (Gripið fram í: Var einhver einkafundur á sunnudaginn?) Í fyrradag eða var þetta á fimmtudaginn var? Það var á fimmtudaginn var sem þessi umr. hófst. Maður reynir að gleyma svona þvargi sem fyrst og hvenær það dynur yfir mann. En það var enski textinn sem var undirritaður. Mönnum getur e.t.v. sýnst sitt hverjum um þýðingu einstakra orða. Ég ætla samt að vona að það komi ekki að sök og af sjálfu leiðir að því er á þann veg háttað að okkar samninganefndarmenn eru allmiklu betur að sér í enskri tungu heldur en dr. Müller og hans lið í íslenskri. Og það er í fyrsta skipti sem ég heyri að það sé gagnrýni vert þótt menn noti annarra tungur til að setja saman samninga á. Veit hv. þm. — a.m.k. veit hið háa Alþingi það, sem á mín orð heyrir, að það var jafnan siður að hafa alla alþjóðasamninga á sinni tíð á franskri tungu af því sem franska var talin mál þann veg úr garði gert að hana væri síst hægt að misskilja. Ég vil a.m.k. fá ábendingu um það ef eitthvað er í þessum enska samningstexta, sem menn álíta að misskilja megi, eða með einhverjum hætti að túlka á annan veg en gert hefur verið með þeirri þýðingu sem með samningum hefur birst.

Svo spurði hv. þm.: Hefur verið samið um fleira en fram kemur í samningnum? Þessi spurning er ekki svaraverð að sjálfsögðu. Hv. þm. talaði um á dögunum, þegar hann flutti mál sitt fyrir vitlausu tillögunni um að ákvarða orkuverð til stóriðju sem ákveðið hlutfall af orkuverði Landsvirkjunar til almenningsveitna, gífuryrði mín. Síðan fór hann með runu af landráðabrigslum eins og þeim að ég væri að opna einhverjar kistur fyrir Alusuisse, að ég væri ekki að safna rökum fyrir íslenskan málstað heldur lægju þessir menn inni í hlust á mér. Þetta eru víst ekki gífuryrði sem þarna koma fram? Hann spyr hér hvort það hafi verið samið um fleira en birtist í þessum samningum. Ó nei, það var ekki gert: Og það veit ég að allir aðrir skilja, að aldrei kæmi mér til lifandi hugar að fara að semja á bak við við auðhringinn Sviss Aluminium. Og það ætla ég að vona að hendi aldrei nokkurn mann sem á mínum snærum verður. Úr þessum stól mun það verða svo um alla framtíð, meðan ég gegni þessu embætti, að ég mun geta sagt frá hverju einasta smáatriði sem fer fram í þeim samskiptum fyrr og síðar.

Menn hafa velt fyrir sér stækkun álversins og því sem fram kemur í þessu bráðabirgðasamkomulagi þar sem gefinn er ádráttur um umræður og viðræður um stækkun álversins. Og víst er það rétt. Það er nokkuð mikið í ráðist að tvöfalda álverið. Þó eru menn sammála um að það sé besti stóriðjukostur okkar nú. Menn eru að velta fyrir sér að þetta muni verða of stór biti fyrir okkur að ráða við og kyngja vegna orkuframkvæmda okkar.

Nú er frá því að segja að þetta eiga menn eftir að ræða. Og við getum ekki samið um tvöföldun á álverinu í straumsvík nema fá það verð er henti fyrir framkvæmdir okkar í orkumálum og að framkvæmdirnar verði með þeim hætti að þær verði að öðru leyti viðráðanlegar fyrir okkur. Það er enginn vafi að stækkun álversins í Straumsvík er góður stóriðjukostur. Og það er enginn vafi að með því móti eigum við miklu meiri möguleika á hærra orkuverði en ella. Verksmiðjan sem nú er er auðvitað gömul og tæknilega að mörgu leyti úrelt. Ýmsar fjárfestingar þar mundu nýtast nýrri viðbót og þannig mætti lengi telja, þannig að ekki er minnsti vafi á því að þar ættum við miklu meiri möguleika á hærra orkuverði en ella, sem er meginatriði. Allt eru þetta útreikningar sem koma til þegar og ef mönnum líst að hægt verði að ganga til samninga um stækkun álversins í Straumsvík.

Ég legg áherslu á það að við höfum gert bráðabirgðasamning sem, eins og hv. 2. þm. Reykn. gat um, er kannske mikilvægastur að því leyti að fá samkomulag um endurskoðunarákvæði aðalsamnings, sem ekki var til. Þarna er drepið á ýmsa þætti, sem aðilar eru sammála um að ræða, en engar skuldbindingar enn farið fram um.

Það er rétt, sem kom fram í ræðu hv. 4. landsk. þm., að auðvitað er stóriðjan ekki atvinnugreinin sem mun fá nýjum vinnandi höndum atvinnu í hendur í framtíðinni. Vissulega allmörgum, en ekki nema litlum hluta af þeim nýju vinnandi höndum sem koma á vinnumarkaðinn fram til aldamóta til að mynda, enda þótt við legðum undir tvöföldun áliðjuversins í Straumsvík, kísilmálm á Reyðarfirði og áliðjuver af minni gerð í Eyjafirði, en þetta eru áformin sem uppi eru og enginn hefur dregið neina dul á. Það er smáiðnaðurinn auðvitað sem við þurfum að byggja upp og sem mun þurfa að taka við þessum vinnandi höndum. Og hvernig skjótum við svo fótum undir smáiðnaðinn nema með því ef við getum virkjað hagkvæmt og stórt, selt verulegan hluta orkunnar á frambærilegu verði til stóriðju og átt afgangsorkuna til uppbyggingar smáiðnaðar? Og svo að ég skjóti því einnegin fram, þótt það sé annars eðlis, til húshitunar, sem er að sliga heimilin í landinu, a.m.k. 1/5 heimilanna í landinu sem búa við afarkosti í þeim efnum.

Hv. þm., talsmaður Alþb. sem verður víst að telja hann á þessu sviði, þótt brestir séu nú í þeim viðum líka, talaði um að það hefðu verið pólitískir brestir innanlands sem hefðu á undanförnum árum bjargað Alusuisse í þessu máli. Það getur vel verið að það hafi hjálpað þeim töluvert. Það voru óskaplegir brestir í stjórn íslenskra mála um árabil, það er alveg hárrétt. Ekki ætla ég að deila við hann um það. En hv. þm. harmar kannske glötuð tækifæri í þessu máli. Þess vegna talar hann nú að nokkru leyti að því er manni finnst stundum með sollnum sefa um þetta allt saman. Og hann minnir á þá möguleika sem við kunnum að eiga nú með stórhækkandi álverði. Má ég aðeins minna á það að álverðið í heiminum er ekki neitt nálægt því orðið jafnhátt og það var þegar þessi hv. þm. settist í þann stól sem ég nú sit í, ekki neitt nálægt því. Ekki neitt nálægt því, það vantar mikið á enn. Þannig að ef hátt álverð nú færir okkur samningsstöðu upp í hendurnar þá hefði það átt að sínu leyti að vera betra fyrir hann þá.

Við höfum auðvitað náð allt of skammt í orkuverðinu enn. Við lentum á þeim þröskuldi sem hefur verið nefndur hér, viðmiðun við t.a.m. Noreg sem var okkur áreiðanlega þyngst í skauti. Menn eru ekki að vitna til hins lága orkuverðs til áliðja í veröldinni til þess að halda því fram að við eigum að feta í þau fótspor, það er misskilningur hjá hv. 4. þm. Suðurl. Menn eru aðeins að nefna þetta af því sem að öðru er haldið fram, eins og af fulltrúum Alþb. þar sem því er haldið fram að algengt orkuverð til álframleiðslu í heiminum liggi einhvers staðar á milli 20 og 30 mill. Menn mega ekki misskilja þetta eða snúa út úr þessu á þessa vísu.

Spurt var vegna dómnefndanna um skipan manna í þær. Þá er frá því að segja að í aðalnefndina, nefndina sem við getum kallað nr. 1 eftir 1. kafla samningsins, sem hefur með úrskurði í aðalþrætumálunum að gera, skipan manna í þá nefnd er lokið og hún hefur hafið störf. Surrey heitir okkar lögfræðingur, skipaður og tilnefndur af okkur, Silverman af Alusuisse og þeir hafa komið sér saman um mjög þekktan mann, Weinberger, einn færasta skattamálasérfræðing Kanada, sem oddamann. Með því að setja á tölur um að við hefðum átt að halda áfram þrætu okkar við Alusuisse við gerðardóm í New York er greinilega fyrir fram verið að reyna að læða inn þeim hugmyndum að ekki verði að fullu hægt að treysta á niðurstöður sem t.a.m. þessi dómnefnd kemst að. Ég er ekki í nokkrum vafa um að til þess eru þeir refir skornir. En ég held líka að eins og í fleiru verði talað fyrir daufum eyrum þjóðarinnar ef menn ætla að halda því fram þegar á þessar tilnefningar verður litið í réttu ljósi. Mér dettur ekki í lifandi hug, eftir þeim meðmælum sem þessir aðilar allir saman hafa, að það verði dregið í efa að þar verði réttlátlega að málum unnið og úrskurðir felldir samkvæmt því. (Gripið fram í: Það þekkja allir hann Surrey okkar.) Jæja, það er gott að heyra, það verður þá kannske einhver lýsing flutt á honum hér? En menn sem ekki er frosið fyrir skilningarvitin á, þeir lýsa honum sem afbragðsmanni í sínu fagi. Við höfum þegar skipað okkar skattanefnd, og svo síðar kemur að skipan þriðju nefndarinnar þegar þar að kemur. Ég verð að segja það, að það er einkennilegur smekkur að gagnrýna skipan þessara dómnefnda þar sem að verulegum hluta, að verulegu leyti í ýmsum atriðum færast þó þessi viðfangsefni í íslenskar hendur.

Enn á ný er knúið á um það að ég gefi yfirlýsingar um hvaða orkuverð það er sem við munum setja fram í samningunum við Alusuisse. Hv. 4. þm. Suðurl. taldi réttilega að menn þyrftu að hafa svona, eins og hann nefndi það, „eitthvað uppi í erminni“ þegar við settumst að slíku samningaborði. Það orðalag vekur að vísu aðrar grunsemdir. En það er auðvitað ekki ráð, þegar menn eru að hefja svo viðamikla og erfiða samninga eins og við auðhringinn, að leggja öll kort sín á borðið. Ég hef svarað áður þessum fsp. m.a. frá þessum hv. þm., 5. þm. Austurl., að ekki kæmi til mála á þessu stigi máls að nefna tölur í þessu sambandi. Við munum reyna til þrautar að fá það hæsta verð sem kostur er á, það er allt og sumt sem út úr mér verið dregið, þótt töngum verði beitt á þessu stigi máls. Og það er hátt verð sem við þurfum að fá.

Já, það voru af hálfu hv. þm. nefnd ógnarleg áform sem við hefðum á prjónunum um stækkun ÍSALs. Ég held að í þessu sem öðru — byggist veruleg framvinda efnahags- og atvinnumála okkar á að halda vel og af fyrirhyggju á þessum málum. Menn vara við að þjóðinni sé steypt í skuldir. Auðvitað er það reikningsdæmi. Auðvitað förum við ekkert út í þessar framkvæmdir og fjárfestingar nema við sjáum með öryggi að þær borga sig. Okkur er óhætt að taka erlendar skuldir til framkvæmda ef þær eru arðgefandi. Það á við í öllum atriðum. Það eru ekki neyslu- og eyðsluskuldir eins og hæstv. síðasta ríkisstj. efndi til einvörðungu að kalla má og lét þessi mál sem önnur sitja á hakanum.

Það var spurt um röð virkjana. Röð virkjana er ákveðin í lögum. Og ég bið hv. alþm. að minnast þess, margir þeirra eiga enn setu hér sem vita það, ég átti beina aðild að að það náðist fram lagasetning í því efni. Er enginn vandi að fletta upp í þskj. máli mínu til sönnunar. Fyrst er virkjun Blöndu og síðan Fljótsdalsvirkjun. Það er ekki nokkur minnsti vafi á að stækkun álversins í Straumsvík mun verða til þess að ýta hraðar á eftir Fljótsdalsvirkjun en nokkuð annað sem við nú höfum í takinu. Það er sannfæring mín. Ef við seljum enga frekari orku til stóriðju mega Austfirðingar lengi bíða eftir Fljótsdalsvirkjun sinni. Það þarf engan spámann til þess að segja fyrir um það.

Það fer nú að fækka þeim fyrirspurnabeiðnum sem hv. 5. þm. Austurl. beindi til mín í fyrri hluta þessarar umr. Hann hneykslaðist mjög á því að við ætluðum að sækja eftir heimild Alþingis. Það mun verða gert með flutningi lagafrv. alveg á næstu dögum — heimild til Alþingis um að Alusuisse fengi rétt til að selja af hlutafé sínu og ennfremur að færa einhverjar eignir yfir á dótturfyrirtæki sín. Á því hneykslaðist hann að þetta yrði gert fyrir fram. Hvað segir — fyrir læsa menn neðst á bls. 7 um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Í þriðja lagi er í kaflanum um bráðabirgðaaðgerðir að finna ítrekun á yfirlýsingu í 2. kafla samningsins um rétt Alusuisse til að selja allt að helming hlutafjár í ÍSAL, háð samþykki ríkisstj. Einnig er þar að finna fyrirheit um að Alusuisse verið heimilað að flytja hlutabréf sín í ÍSAL að einhverju leyti eða öllu til eins eða fleiri dótturfyrirtækja, sem séu beint eða óbeint að öllu leyti í eigu Alusuisse. Ríkisstj. heitir því að flytja á næsta Alþingi frv. til l. um nauðsynlegar breytingu á aðalsamningi aðila til að þetta sé kleift.“

Það er þetta sem hv. 5. þm. Austurl. deilir á. „Jafnframt er að finna í 4. kafla samningsins ákvæði um“ — og taki menn nú eftir — „að slík lagabreyting taki ekki gildi fyrr en heildarsamningar samkv. 2. kafla bráðabirgðasamningsins hafa tekist. Gengur þessi heimild því að öllu leyti til baka ef heildarsamkomulag næst ekki.“

Er þetta nógu skýrt? Er það nógu skýrt að þessi heimild, sem Alþingi væntanlega veitir, muni ganga að öllu leyti til baka ef niðurstaða samninganna næst ekki?

Um uppsagnarákvæði get ég vísað til ummæla hv. þm. Garðars Sigurðssonar, 4. þm. Suðurl. Hann benti réttilega á að ekki hefði komið til greina að gera þetta bráðabirgðasamkomulag nema með uppsagnarákvæðum. Og ég veit að ef mönnum tekst að hugsa rökrétt sjá þeir auðvitað í hendi sinni að það kom ekki til mála annað en að við hefðum uppsagnarrétt á bráðabirgðasamkomulaginu. Auðvitað geta menn gert sér í hugarlund hvort slíku er hægt að ná einhliða. Auðvitað hlutu þau uppsagnarákvæði að vera tvíhliða. (HG: Rök fyrir þessu.) Rök fyrir því að við gátum ekki gert bindandi bráðabirgðasamkomulag? Það þarf ekki rök fyrir þá sem geta hugsað rökrétt í því efni. Ef við ekki náum fram því sem við erum að berjast fyrir í endurskoðun aðalsamnings getum við sagt þessu upp og lausu. Við erum ekki bundnir af neinum þessum ákvæðum ef til þess dregur að við náum ekki niðurstöðu sem við getum unað við. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu kemur ekki til mála annað en að við höfum uppsagnarákvæði. Hv. þm. getur farið í læri til félaga síns hv. þm. Garðars Sigurðssonar í þessu efni. Hann hafði skilning á þessu, enda ekki alveg frosið enn fyrir öll skilningarvit hans í þessu máli.

Ég bind vonir við að það orkuverð sem um var samið muni ekki lækka, a.m.k. ekki á meðan við hefðum gott ráðrúm og góðan tíma til að reyna til fullnustu á hvort við náum viðunandi samningum við auðhringinn. En þeir hafa rétt til þess að segja honum upp eftir níu mánuði og þá með þriggja mánaða fyrirvara.

Ég vil aðeins skjóta því hér inn í, herra forseti, að hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson flutti ágætt mál og af skilningi við fyrri hluta umr. Ég vil taka það fram að ég mun beita mér fyrir, og hef raunar umboð ríkisstj. til þess, að leysa þau þrætumál sem uppi hafa verið við Hafnarfjarðarbæ vegna skattgjalds til bæjarins að öðru leyti en því sem væntanlegt er á næstu dögum, að kveðinn verður upp úrskurður í dómsmáli þar sem Hafnarfjarðarbær stefndi ríkinu fyrir vangoldna skatta. Ég vil þess vegna svara því málskoti hv. 3. þm. Reykn. hér og nú.

Ég legg áherslu á að hér er um bráðabirgðasamkomulag að tefla, sem við höfum náð. Það inniheldur þrjú veigamikil atriði: Í fyrsta lagi eru þræturnar teknar til skjótvirkari meðferðar og eru meðhöndlaðar meira af íslenskum höndum en áður og með minni kostnaði, í öðru lagi eru endurskoðunarákvæði aðalsamnings, sem fengust fram, og í þriðja lagi er hækkun orkuverðsins til bráðabirgða.

Það hefur verið stigið mjög verðmætt skref í þá átt að komast út úr þeirri sjálfheldu sem hv. 2. þm. Reykn. nefndi réttilega hér. Það kann að vera langur vegur þar til við komumst á leiðarenda í þessu máli. Og það kann að vera að bregði til beggja vona. Það kann að vera að við verðum á nýjan leik að leita til gerðardómsins í New York, ef ekki fást niðurstöður í dómnefndunum, sem við höfum svo nefnt. En bráðabirgðasamkomulagið er vegvísir í rétta átt, á því er ekki nokkur minnsti vafi, og þeim mönnum sem leggjast gegn því og gagnrýna gengur eitthvað allt annað til.

Hv. 5. þm. Austurl. hefur reynsluna af liðnum árum. Ég er alveg sannfærður um að hann finnur til þess að þar má hann á bak sjá ýmsum glötuðum tækifærum. Þjóðin hefur reynslu af hans forustu í þessum málum. Það er kannske það sem hann er hræddastur við. Sú reynsla er alveg ólygin. Hún er reynsla af því, að hvorki gekk né rak. Má reyndar segja að sá grunur læðist að mönnum að menn hafi viljandi gildrað til þess að stefna þessu í sjálfheldu, minnugir til að mynda orða hv. þm. þegar hann sagði að besti orkukostur okkar væri að loka álverinu í Straumsvík í áföngum og minnugir þess sem hér var rifjað upp af fyrri ræðumanni, hv. 2. þm. Reykn., um ákvæði í stjórnmálaályktun Alþb.

Ég ætla ekki að rekja þau efni frekar. Það reynir á á næstu mánuðum hvernig til tekst. En eitt er víst, að af minni hálfu og þeirra sem með mér vinna að lausn þessa máls munu menn leggja sig í alla framkróka um, eftir því sem nokkur kostur er, að halda á málstað Íslands þannig að það færi okkur upp í hendur betri samning — samning sem við getum byggt á til frambúðar, samning sem við getum haft sem fyrirmynd af frekari orkusölu til stóriðju, sem eiga að vera þær aukastoðir sem við ætlum okkur að skjóta undir íslenskan efnahag.