23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

43. mál, lagmetisiðnaður

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessa umr. en það er ákaflega erfitt að stilla sig þegar hún fer svona almennt úr böndunum — og fjarlægist hið eiginlega funda- eða umræðuefni sem verið er að fjalla um — og farið er að tala um sölumálin. Sölustofnun lagmetis hefur verið vandræðabarn í mörg ár og það vita þeir sem hafa þurft að hlaupa undir bagga með þeirri stofnun þegar fjármagn hefur skort og illa hefur árað innan veggja þeirrar stofnunar. Það hefur svolítið ræst úr henni að undanförnu sem betur fer. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar værum einhverjir mestu klaufar í sölumálum sem um getur á vesturhvell og okkar megintilgangur í framleiðslumálum hefur verið sá að framleiða vöruna sem einhæfasta og koma henni úr landi sem minnst unninni. Ég minnist þess einu sinni að hafa heyrt þann mæta mann, Lúðvík Jósepsson, halda hér langa ræðu á Alþingi um það hvernig við gætum raunverulega komið á fót stóriðju í vinnslu fiskafla þessarar þjóðar og hvert einasta orð, sem hann sagði þar, var alveg hárrétt.

Ég held að það hafi verið á síðasta ári að Danir náðu því marki að þeir selja varla lengur úr landi eitt einasta kg af freðnum fiski. Þeir selja hann ferskan og nýjan beint á markað eða niðurlagðan og niðursoðinn. Þetta er auðvitað stórkostlegt afrek. Hér hefur því sjaldan verið gefinn gaumur að sölumennska af þessu tagi er hrein vísindi og íslenska ríkið og íslenskir aðilar hafa ekki gaumgæft þennan þátt að neinu ráði. Þetta hefur verið algert olnbogabarn í þeirri framkvæmdasemi okkar að koma frá okkur því sem við öflum úr hafinu. Ég vildi þess vegna bara leggja það sem einhvers konar hlut inn í þessa umr. að það yrði farið að huga enn þá meira en gert hefur verið að þessum sölumálum. Við höfðum á tímabili fulltrúa í sendiráði Íslands í París sem sinnti þessu verkefni og ég veit ekki í sjálfu sér hvað kom út úr því og mér hefur sýnst yfirleitt að sölumennskan tækist best þegar í hlut hafa átt svona svolítið stöndug einkafyrirtæki. Ég hef ekki mjög mikla trú á því þegar ríkið fer að blanda sér í sölumál og þar af leiðandi er ég þeirrar skoðunar að við þurfum að huga mjög vel að þessum málaflokki og miklu betur en gert hefur verið vegna þess að það er alveg ljóst að með minnkandi sjávarafla verðum við að fara að nýta hann mun betur og við gætum þess vegna notið leiðsagnar Dana í þeim málaflokki því að mikið má af þeim læra.

Mér fannst ég þurfa að koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, og mun því ekki lengja umr. Ég tel mig vera búinn að segja það sem mér býr í huga en kjarni þess, sem ég er að koma hér á framfæri, er sá að ég tel að ríkisvaldið hefði fremur átt að reyna að styðja við bakið á einstaklingum og fyrirtækjum þeirra og stofnunum en blanda sér beint sjálft í sölumálin. Það tel ég óráðlegt og óskynsamlegt.