23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

43. mál, lagmetisiðnaður

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Samþykkt þessa frv. er auðvitað eingöngu bundin við viðskipti við austantjaldslöndin þannig að engin einokun er bundin við viðskipti við aðra svo að þetta er algerlega frjálst fyrir alla þá sem sinna sölumálum annars staðar; ekki er um að ræða einokun nema austan tjalds. Ástæðan fyrir því að ég kvaddi mér aftur hljóðs var sú yfirlýsing hv. þm. Árna Gunnarssonar að við værum klaufar í sölumálum. Ég er honum ekki sammála þar, alls ekki sammála. Ég álít að við höfum náð miklum árangri í sölu okkar sjávarafurða raunar um allan heim. Ég held t.d. að það hafi verið verulega mikið afrek hjá okkur svona fámennri þjóð að ná þeim ítökum á Bandaríkjamarkaðnum sem við höfum náð á undanförnum áratugum, verulegt afrek, og við höfum þar notið gífurlega góðra kjara um langan tíma sem hefur m.a. verið undirstaðan undir þeirri velmegun sem við höfum búið við. Ég held því að við höfum þar unnið verulegt afrek eða þeir sem að þeim málum hafa starfað. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að vera þannig um alla eilífð; það er ekki þar með sagt. En ég held að við höfum unnið verulegt afrek.

Í sambandi við ýmis viðskipti, utanríkisviðskipti, þá er ekki svo auðvelt að komast hjá því að blanda ríkinu í þau eins og t.d. viðskiptunum við Sovétríkin svo að maður taki dæmi. En samkvæmt þeirra stjórnarfari er það ríkið og ríkisstofnanir sem þar eru í fyrirsvari og þess vegna fara viðskiptin við Sovétríkin geysilega mikið fram á milli ríkjanna. Það er ekki svo auðvelt að komast hjá því. Þarna held ég að við höfum einnig náð verulegum árangri í okkar sölumálum. Við skulum segja t.d. 1980 þegar gerður var viðskiptasamningur við Sovétríkin til 5 ára þá náðist sá árangur að okkur tókst að selja 150–200 þús. tunnur af síld á hverju ári í þessi 5 ár. Við höfðum áður haft samning um 20–45 þús. tunnur. Þessi samningur er í raun og veru undirstaðan fyrir haustsíldarvertíðina sem hefur gefið mjög góðan arð núna undanfarin ár því að ef við hefðum ekki haft þennan samning við Sovétríkin um kaup á saltsíldinni þá fæ ég ekki séð að við hefðum saltað nema brot af því sem við höfum gert. Við höfum saltað eitthvað um 200 þús. tunnur eða rúmlega það og af því hafa 150–160 þús. tunnur farið til Sovétríkjanna svo að þarna álít ég að við höfum náð verulegum árangri í sambandi við saltsíldina.

Ef við rekjum þetta áfram þá er okkar staða þannig á Evrópumörkuðum í dag að við höfum fengið samkomulag sem gert var 1971 á grundvelli EFTA-samningsins — einhliða eða tvíhliða samkomulag við Efnahagsbandalag Evrópu um niðurfellingu tolla af t.d. sjávarafurðum, gífurlega mikla niðurfellingu tolla. Þetta eru geysilegar fjárhæðir sem við losnum við að greiða í tollum vegna þessa samnings og við erum að sækja á í þessum efnum. Það má kannske segja það sama um viðskiptin við Portúgal og Spán. Viðskiptin við Portúgal og Spán hafa verið geysilega mikil og við höfum selt meira þangað en nokkur önnur þjóð, sérstaklega af saltfiski, t.d. höfum við skákað Norðmönnum þar, Kanadamönnum, Færeyingum og ýmsum fleiri þjóðum. Það má segja það sama um Nígeríu. Þó að það hafi verið kreppa í Nígeríuviðskiptunum núna í 2–3 ár þá höfum við í 30 ár selt til Nígeríu skreiðina og ég veit ekki til þess að við höfum nokkurn tíma tapað einum einasta eyri þegar upp er staðið á Nígeríuviðskiptunum, þótt það sé vissulega veruleg kreppa í þeim viðskiptum núna og hefur verið undanfarin tvö ár.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm. að við þurfum að halda áfram að vinna enn þá meiri verðmæti úr sjávaraflanum en við höfum gert og gerum nú. Það er alveg rétt. Og við þurfum áreiðanlega að halda áfram að leggja í auknum mæli áherslu á okkar sölumál. Það er aldrei gert of mikið í þeim efnum.

Varðandi vinnsluna hefur orðið bylting á síðustu örfáum árum, hrein bylting. Við skulum taka þorskinn sem er okkar langstærsti þáttur í þessu. Á árunum 1972–1982 þangað til fram á þennan dag hefur orðið svo mikil framför t.d. í fiskiðjuverunum, í vélvæðingu, í byggingum og fyrirkomulagi að það er hrein bylting hjá því sem áður var. Við skulum nefna t.d. um 1972 og á þeim tíma þá tíðkaðist það um allt land að þorskurinn væri tekinn úr bátunum eða togurunum upp á vörubíla. Síðan óku vörubílarnir inn í frystihúsin og aflanum var sturtað á gólfið og kösin var — ég veit ekki hvað hún var há — hún var kannske 1.5 m eða meira þegar mikið barst að.

Nú hefur orðið á sú breyting að menn ísa orðið aflann í togurunum sem eru lengur að veiðum og menn hafa byggt kæld móttökurými í frystihúsunum. Kassarnir eru fluttir inn í kældu móttökurýmin og síðan er unnið eftir hendinni; það hefur orðið alveg gífurleg framför í þessum efnum. Síðan er vélvæðingin í fiskiðjuverunum sem hefur átt sér stað á undanförnum árum. Þetta ásamt fleira er náttúrlega lykillinn að því að við bjuggum á árunum 1970–1980 við 4.7% hagvöxt á Íslandi í 10 ár sem var allmikið meira en meðaltalið hjá efnuðustu þjóðum heimsins, þ.e. meðaltal OECD-landanna sem eru aðilar að Efnahags- og framfarastofnuninni. Auðvitað búum við talsvert að þessu núna í þeirri kreppu sem nú er sérstaklega vegna aflatregðunnar. En um þetta mætti auðvitað margt segja fleira. En ég vildi aðeins varðandi viðskiptin segja það að það er ekki svo auðvelt að komast hjá því að ríkið komi inn í þau á vissum sviðum. Ég er hins vegar ekki talsmaður þess að þetta sé ríkisrekið, ég er það ekki, en það er ekki svo auðvelt að komast hjá því. Og svo hitt að ég álít að við höfum náð miklum árangri í okkar sölumálum og okkar útflutningsafurðum þó að ég geti vel tekið undir það að þar sé mikið verk óunnið og áreiðanlega hægt að bæta þar um.