23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

43. mál, lagmetisiðnaður

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég hét því að lengja ekki þessa umr. en hv. síðasti ræðumaður gefur mér tilefni til að segja nokkur orð. Hann talar um það að hér hafi náðst mjög umtalsverður árangur í sölumálum og nefndi nokkur dæmi máli sínu til sönnunar. Það er einfalt að segja um markað okkar í Bandaríkjunum að við nutum þar um margra ára bil sérréttinda sem aðrar þjóðir höfðu ekki. Við höfðum líka mikinn tíma, sem aðrar þjóðir nýttu sér ekki, til að ná tökum á þeim markaði og við fengum ekki umtalsverða samkeppni á þeim markaði fyrr en á allra síðustu árum þegar Norðmenn og Kanadamenn komu inn á hann af fullum krafti þannig að það er ekki hægt að hrósa sér af því.

Ég vil bara í þessari umr., vegna þess að Sölustofnun lagmetis kemur hér inn í, minna á það að auðvitað erum við dæmigert veiðimannaþjóðfélag sem flytur úr landi raunverulegt hráefni sem aðrar þjóðir nýta og margfalda í verði. Það er nákvæmlega þetta sem hefur verið að gerast á undanförnum árum og ríkisvaldið íslenska hefur sáralítið gert til þess að styðja við bakið á mönnum sem hafa viljað breyta þessu. Það er þetta sem ég gagnrýni. Ég gagnrýni t.d. skreiðarútflutning vegna þess einfaldlega að það er ekkert form á matvælaframleiðslu í raun og veru. Og ég gagnrýni útflutning á grásleppuhrognum sem síðan eru flutt hingað til lands í túbum. Ég gagnrýni jafnframt útflutning á húðum sem hægt væri að nýta hér í iðnaði. Það er þetta sem ég er að gagnrýna og auðvitað eigum við í sambandi við mótun nýrrar atvinnustefnu í þessu landi að huga að öllu þessu hráefni sem við erum að láta útlendingum í té sem þeir eru að margfalda að verðmætum á okkar kostnað og engra annarra þannig að ég get ekki sé að við höfum í þessum sölumálum náð einhverjum sérstökum og stórfelldum árangri. Við framleiðum og búum til eða fiskum eitt besta hráefni sem til er í veröldinni og því skyldu menn ekki vilja kaupa það? Megnið af þessu hefur komið meira eða minna af sjálfu sér, þessi sala. Við búum við eitt mesta matarforðabúr veraldar. Það er ekkert undarlegt þó að við seljum eitthvað af þessu en við þyrftum að gæta þess miklu betur en við höfum gert að selja þetta ekki úr landi eins og t.d. er þekkt í Afríku þar sem fjölþjóðafyrirtæki koma inn og nýta hráefnin, sem þessar þjóðir framleiða, til þess að hafa af því milljarða hagnað.

Um samningana við Sovétríkin veit ég ekki hvort menn eiga að berja sér á brjóst og segja: Gott, gott, gott. Það er auðvitað ágætt ef Sovétmenn kaupa af okkur síld en mér finnst það nú ekki verulega mikið atriði og innlegg í þessa umr. þegar þess er gætt hvað við kaupum af þeim og ég held að það hafi heldur hallað á þá en okkur í þeim viðskiptum. Ég veit ekki betur. Þannig að þessi dæmi sem hér hafa verið tekin rökstyðja það ekki að við höfum verið góðir sölumenn fyrir okkar varning á erlendum markaði.

En ekki meira um það, virðulegi forseti. Ég vil bara segja það og spyrja kannske um leið hvort það sé raunverulega nauðsynlegt að halda hér upp heilu battaríi sem heitir Sölustofnun lagmetis? Getur ekki rn. séð um þetta? Getur ekki rn. gert samninga við Austur-Evrópuríkin — þá samninga sem Sölustofnun lagmetis hefur gert? Og er það eðlilegt að ríkisvaldið haldi uppi Sölustofnun lagmetis sem hefur gert það áð fara í beina samkeppni við einstaklinga sem hafa verið að reyna að selja í hinum frjálsa heimt? Þetta eru spurningar sem mér finnst að hæstv. ráðh. verði t.d. að svara vegna þess að hann hefur ekki haft verulega mikið á móti hinni svokölluðu frjálshyggju. Ég hef ekki heyrt hann hafa það. Og það er spurning hvort hann telur eðlilegt að svona ríkisapparat sé í gangi þegar viðskrn. t.d. gæti gert þessa hina sömu samninga. Er ekki þarna ein af stofnununum sem mætti leggja niður og kannske bara með einu pennastriki?