23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

43. mál, lagmetisiðnaður

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins brýna menn til umhugsunar í þessari umr. varðandi okkar markaðsmái. Þegar við ræðum um stöðu og stefnu í íslenskum markaðsmálum eins og gert hefur verið í þessari umr., þá vekur það fyrst forvitni þegar grannt er skoðað að við höfum í landinu hundruð aðila sem stunda innflutningsverslun. En á hinn bóginn eru örfáir aðilar sem stunda útflutningsverslun. Þetta hlýtur að vera röng þróun og röng staða og undirstrika það að við höfum ekki sinnt okkar markaðsmálum sem skyldi. Við sitjum í rauninni uppi með nokkurra áratuga staðnað sölukerfi, hvort sem um er að ræða sjávarútveg eða landbúnað og afurðir á þeim vettvangi. Þetta vekur sem sagt þá spurningu hvort ekki sé ástæða til þess að taka okkur tak í þjálfun og menntun í sölumennsku, hreinni sölumennsku og sölukynningu, á okkar afurðum erlendis, og nýta þá möguleika sem nýjasta tækni býður upp á í fjölmiðlum og á annan hátt í stað þess að sitja í sama farinu eins og við höfum gert um áratuga skeið. Við þurfum að fá meira verð fyrir hvert kg. Við þurfum að stuðla að því fyrst og fremst eins og komið hefur fram í ræðu hæstv. Iðnrh. að fullvinna sem mest af vörunni hér heima. Við flytjum hins vegar nú í dag stærstan hluta sjávarafurða hálfunninn úr landi. Auðvitað koma þá til tollamál og ýmis önnur mál sem eru þröskuldur í vegi þessarar þróunar innanlands, en þarna þarf að berjast. Ég vildi þess vegna varpa þeirri spurningu fram og biðja menn að velta því fyrir sér, hvort ekki sé tímabært að taka fast á í þessum efnum, varðandi menntun sölumanna, sem selja eiga íslenskar afurðir erlendis.