18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Góðir hlustendur. Forsrh. hefur kynnt þjóðhagsáætlun, umgjörð um íslenskt efnahagslíf, til næstu 12 mánaða. Það vantar tilfinnanlega mynd í þessa umgjörð. Fyrir utan 10% gengishopp og 6% kauphækkun kemur hvergi fram hvenær á að gera hvað og hversu mikið á að gera af hverju. 12 mánuðirnir eru þegar hafnir, umhugsunartíminn er búinn. Ráðherrarnir hafa reyndar lýst því yfir að þeir hafi ekki haft hugmynd um hvað ástandið var slæmt þegar þeir tóku við. Það hafa engar hugmyndir sýnilega fæðst enn, ekkert skipulag til 12 mánaða, engir áfangar á leiðinni.

Hvar er uppgjörið við fortíðina? Hvar er tekist á við tekjutap, skuldir og óreiðu? Hæstv. forsrh. hefur setið í ríkisstj. s.l. fimm ár. Allan þann tíma talar hann nákvæmlega eins og áðan, þegar hann þurfti að sannfæra landsmenn. Hann heldur nú áfram sömu Framsóknarstefnunni og fylgt hefur verið síðustu 10 árin, lengst af fyrir tilstilli sjálfstæðismanna. Enn á ný eru þessir kerfisflokkar komnir í stjórn saman. Gengisfelling, launaskerðing og verðhækkanir eru gamalkunn vinnubrögð sem ekkert leysa. Hvar eru lausnir og hvað á fólkið að bíða lengi eftir þeim? Skerðing mannréttinda með afnámi samningsréttar er eina nýjungin sem þessi stjórn býður upp á. Kerfið heldur velli og vel það. Um leið og framlög til aldraðra og barnaheimila eru skorin niður er margföldu fjármagni spýtt inn í yfirstjórn ríkisbáknsins, báknsins sem einu sinni átti að fara burt. Hæstv. forsrh. segir að fyrstu aðgerðir ríkisstj. hafi verið róttækar. Það er alrangt. Margnotuð úrræði eru ekki róttæk, þó að framkvæmd þeirra sé gerræðisleg.

Þegar ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. hóf göngu sína í vor hugsuðu eflaust margir: Ef eitt er látið yfir alla ganga, þá get ég ekki kvartað. Ríkisstj. fór í vasa launafólks, tók einn milljarð og afhenti fyrirtækjunum. Í leiðinni tók stjórnin af þessu sama fólki sjálfsögð mannréttindi. stór hluti þessa fólks tilheyrir þeim hópi sem hæstv. fjmrh. hefur svo smekklega kallað „manninn með bogna bakið.“ Síðan hófst biðin eftir hinum aðgerðunum. Ekkert gerðist nema fundahöld og ferðalög ráðherra og nú þessi lognmolla hérna í kvöld.

Þeim sjálfstæðismönnum hefði verið hollara að hlusta á gagnrýni Ólafs Björnssonar prófessors í Morgunblaðinu á dögunum. Ólafur er talsmaður þeirra sjónarmiða að ríkisvaldið komi hvergi nærri samningagerð, mönnum beri einfaldlega að taka sjálfir ábyrgð á eigin samningum. Ólafur benti á að í raun fari fram tvenns konar samningar í þessu landi: annars vegar þeir hefðbundnu samningar sem allir þekkja og hins vegar baktjaldamakk ríkisvalds og atvinnurekenda. Á þessi tengsl telur prófessor Ólafur að eigi að skera. Á þessi tengsl vill Bandalag jafnaðarmanna skera. En á þessi tengsl þorir Sjálfstfl. ekki að skera. Þvert á móti hlaða þeir undir ríkisrekið slysavarnakerfi fyrirtækjanna og þá gildir einu hvort fyrirtækin eru vel stöndug eða ósjálfbjarga. Sannleikurinn er sá, að aðgerðir þessarar ríkisstjórnar miðast við það eitt að millifæra milljónir frá fólkinu til forstjóranna. Það er ekki ráðist að orsök vandans heldur afleiðingum.

Við vitum það vel, að með þrælalögum er hægt að lækka verðbólgu, þegar til skemmri tíma er litið. Um það hefur aldrei verið ágreiningur, enda byggist slíkt gerræði hvorki á stjórnlist né hagspeki. Við vitum líka mætavel að á meðan engar róttækar breytingar eru gerðar á sjálfu efnahagskerfinu, þá er ekki spurningin hvort, heldur hvenær verðbólgan fer vaxandi á ný. Það verður kannske eftir 10 mánuði, kannske 20. Þá mun Framsókn kenna íhaldinu, íhaldið mun kenna Framsókn um og báðir munu þeir kenna verkalýðshreyfingunni um. Þetta eru hin hefðbundnu endalok síðari tíma samsteypustjórna, þar sem enginn ber ábyrgð á neinu gagnvart kjósendum.

Forsrh. segir að þess verði ekki að vænta, að gengið verði fellt til að koma til móts við óraunhæfa samninga eða samningum breytt með opinberum aðgerðum. Við skulum vona að hann sé maður til að standa við þetta og hafi nú loksins kjark til að standast kröfur þrýstihópanna. En reynslan hefur því miður kennt okkur að taka hóflega mark á þessum hæstv. ráðh. þegar hann tjáir sig á opinberum vettvangi.

Þessi fyrrv. sjútvrh. segir nú að fjárfesting í sjávarútvegi verði takmörkuð. Staðreyndin er sú, að í dag væri hægt að bjóða upp 20 togara fyrir 2.5 milljarða skuldum. Það er u.þ.b. sama upphæð og vantar í ríkissjóð.

Þá segir hann að að því sé stefnt að raunvextir verði yfirleitt jákvæðir. Ég endurtek: yfirleitt jákvæðir. Ég héli að þessir tveir stjórnarflokkar væru búnir að braska nóg með sparifé yngstu og elstu kynslóðar þessa lands.

Eftir þetta kvöld í kvöld má fólkinu í landinu vera ljóst að það verður að bíða minnst eitt ár enn eftir lausn efnahagsvandans. Þeim óræðu orðum sem stefnuræðan er fylgja engar athafnir.

Í byrjun stjórnartíma síns töluðu framsóknarmenn og sjálfstæðismenn um væntanlegar kerfisbreytingar, sem fylgja mundu í kjölfar fyrstu aðgerða. Hafi einhver trúað þeim, þá þarf hann ekki annað en taka sér framlagt fjárlagafrv. í hönd. Í þessu fjárlagafrv. eru allir sömu gjalda- og tekjuliðir og í því seinasta. Sjóðþurrð er ekki kerfisbreyting, því að þó að sleppt sé framlögum til nokkurra sjóða, þá eru þeir ennþá starfandi og geta tekið botnlaus lán þegar þrýst verður á.

Þegar þetta fjárlagafrv. verður samþykkt hefur líf núv. sóunarkerfis verið framlengt um eitt ár. Ríkisstj. gekk ekki á hólm við vandann. Þessir stjórnarflokkar geta talað um kerfisbreytingar, en þeir eru ófærir um að framkvæma þær. Þeir eru kerfið. Þessir gömlu flokkar voru árangursríkt tæki í baráttu við einveldi, en eftir að einveldin hurfu úr sögunni hafa flokkarnir með sínum harðskeyttu valdaklíkum orðið að hindrunum á leið til frelsis. Sumir þeirra hafa meira að segja orðið að nokkurs konar goðheimum. Það er auglýst eftir Súpermann til forustu í Sjálfstfl. Hvaða vit er í því að kerfisflokkar og kerfiskarlar ráði atvinnufyrirtækjum, ráði bankastjórnum, ráði verkalýðsfélögum, ráði lánasjóðum, ráði fjölmiðlum og ráði launum frjálsra manna? Fólk á að ráða sínum mátum í frjálsum samningum sjálft. Fólk er lifandi og í því er kraftur til nýsköpunar. Kerfisflokkar eru dauð fyrirbæri og draga þrótt úr áhuga fólks. Framsfl. er getulaus, hann er kolflæktur í viðamesta milliliðakerfi landsins og menn tala opinskátt um að Samband ísl. samvinnufélaga eigi orðið Framsfl.

Sjálfstfl. hefur alltaf talað hátt um frelsi og lýðréttindi, en síðan þvælst fyrir flestu því er til frjálslyndis horfði, sbr. jafnlítilfjörlegt málefni eins og opnunartíma sölubúða.

Í sjónvarpsviðtali nú á dögunum hélt hæstv. forsrh. því fram, að þjóðin hefði kosið þessa ríkisstj. Það er mikill misskilningur. Ríkisstj. er málamiðlun, tilraunastarfsemi, eins og hæstv. utanrrh. Geir Hallgrímsson lýsti hér áðan. Stefna hennar er samsuða úr því versta í stefnu Framsfl. og Sjálfstfl. og skiptir þar mestu máli að hvor flokkurinn haldi sínu. Þjóðin kaus þing, en flokkarnir kusu ráðherrana. Ef skoðað er kjörfylgi ráðh., þá kemur í ljós að í þessari ríkisstj. er bara einn ráðh. sem hefur færri atkv. á bak við sig en hæstv. forsrh. Vita menn hve mörg atkv. Steingrímur Hermannsson hefur á bak við sig? Jú, Steingrímur Hermannsson varð forsrh. í krafti 1510 atkv. almennra kjósenda ásamt 23 atkv. úr þingflokki sjálfstæðismanna. Alls eru þetta 1533 atkv.

Það er engin furða þótt hann sé hógvær í bílamálum. Þeir ráðherrar sem hérna sitja — hér sitja nú strangtekið ekki nema tveir — geta ekki snert á neinni alvörulausn. Þeir geta tekið milljarða af launafólki, en þeir geta ekki gefið neitt til baka sem máli skiptir, því að þá er flokksvaldinu að mæta, hagsmunaklíkunum. Það má ekki hreyfa við verðmyndunarkerfi sjávarútvegsins, það má ekki hreyfa við verðmyndunarkerfi landbúnaðarins, við megum enn greiða 1 milljarð í niðurgreiðslur, sem hvorki koma bændum né neytendum til góða. Nei, öll þessi atriði eru hluti af því samtryggingarkerfi sem núv. stjórnarflokkar hafa byggt utan um sig. Hins vegar hika þessir flokkar ekki við að fótumtroða grundvallarmannréttindi til þess eins að ráðherrar þeirra geti státað af tímabundinni lækkun verðbólgu. Þess vegna, góðir hlustendur, verðum við að bíða enn drjúga stund þar til lag gefst fyrir lifandi hugmyndir og varanlegar lausnir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.