23.11.1983
Efri deild: 19. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

26. mál, fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum

Frsm. minni hl. (Magnús H. Magnússon):

Virðulegi forseti. Í brbl. með fallega nafninu frá 27: maí s.l., sem nú á að staðfesta, um fjármálaráðstafanir til verndar lífskjörum eins og þau heita, segir að þau séu sett til að vernda hag þeirra sem við lökust kjör búa. Að því er varðar hækkun persónuafsláttar um 1400 kr. á mann, sbr. 1. mgr. 1. gr. frv., þá er um argasta öfugmæli að ræða. Hækkunin kemur flestum að fullu gagni nema þeim sem við lökust kjör búa. Þeir njóta hennar í engu.

Í nái. minni hl. fjh.- og viðskn. eru tekin nokkur dæmi af því hve háar tekjur þurftu að vera á síðasta ári til að hafa fullt gagn af hækkun persónuafsláttar og við hvaða tekjumörk hækkunin gerði ekkert gagn. Einnig eru þessi mörk yfirfærð á tekjur þessa árs og skatta næsta árs eftir því sem næst er hægt að komast miðað við forsendur fjárlagafrv., þ.e. 28% hækkun tekjuskatts á milli ára. Tekin eru dæmi af hjónum með eitt barn undir 7 ára aldri, af einstæðu foreldri með barn undir 7 ára aldri, af einstæðum elli- og örorkulífeyrisþega og af hjónum sem bæði eru elli- eða örorkulífeyrisþegar. Þar kemur m.a. fram að einstætt foreldri með eitt barn undir 7 ára aldri þarf á þessu ári að hafa 156 200 kr. eða meira í tekjur til að hafa fullt gagn af hækkun persónuafsláttarins. Ef tekjurnar verða 151 300 kr. eða minni er gagnið alls ekkert. Þessar tölur hækka um nálægt 38 þús. kr. ef börnin eru tvö.

Einnig kemur fram í nál. að elli- og örorkulífeyrisþegar þurfa að hafa umtalsverðar tekjur umfram bætur almannatrygginga til að hafa gagn af hækkun persónuafsláttarins og þegar þeim tekjum er náð þá skerðist tekjutryggingin verulega. Verulegur meiri hluti elli- og örorkulífeyrisþega hefur því alls ekkert gagn af hækkun persónuafsláttarins. Elli- og örorkulífeyrisþegi með fulla tekjutryggingu frá almannatryggingum en engar aðrar tekjur fær nú samtals 7018 kr. á mánuði. Af þessum manni er búið að taka með aðgerðum á þessu ári 2466 kr. á mánuði að meðaltali síðasta árs. Í staðinn fær hann 193 kr. á mánuði vegna 5% hækkunar tekjutryggingar. Hann fær 193 kr. á mánuði upp í 2 466 kr. kjaraskerðingu. Þetta tal um að vernda hag þeirra, sem við lökust kjör búa, er því argasta öfugmæli. Ekki kemur þessu fólki að gagni afnám skatts af ferðamannagjaldeyri. Það hefur einfaldlega ekki efni á að láta sig dreyma um ferðir til útlanda. Varla kemur þessu fólki að miklu gagni lækkun tolla á sykruðum fíkjum eða niðurfelling vörugjalds af hljómplötum eða lækkun innflutningsgjalda af bifreiðum. Svo til allar aðgerðir hæstv. ríkisstj. eiga það sammerkt að hvorki er tekið tillit til þeirra allra tekjulægstu né til elli- og örorkulífeyrisþega. Með sama áframhaldi er verið að búa til örbirgð hér á landi. Þá þróun verður að stöðva.

Þrátt fyrir þá staðreynd sem allir viðurkenna að þjóðartekjur hafi lækkað verulega og af því hafi óhjákvæmilega leitt almenna kjaraskerðingu þá má ekki skerða hlut þeirra allra verst settu, hvað þá að skerða hlut þeirra meira en annarra eins og nú er gert. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. breyti þessu.

Lagfæringar á skattalögum svo sjálfsagðar sem þær annars eru koma þeim tekjulægstu og þar með meiri hluta elli- og örorkulífeyrisþega að alls engu gagni meðan sá hluti persónuafsláttar, sem ekki nýtist til greiðslu annarra gjalda, svo sem útsvara, rennur til ríkissjóðs. Ef nota á skattalögin, sem sjálfsagt er að gera, til að bæta hag þeirra tekjulægstu verður að greiða þann hluta persónuafsláttar út til skattaðila á sama hátt og nú er gert við þann hluta barnabóta sem ekki gengur til greiðslu annarra gjalda. Nú eftir að öll álagning skatta fer fram í tölvum er þetta mjög auðvelt í framkvæmd.

Á síðasta þingi flutti ég ásamt öðrum þm. Alþfl. frv. til l. um þetta efni, en áður hafa þm. Alþfl. flutt sams konar tillögur.

Fyrri brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. gengur út á það að greiða skattaðilum út ónýttan persónuafslátt — er m.ö.o. um neikvæðan tekjuskatt — ekki aðeins þann sérstaka persónuafslátt sem frv. gerir ráð fyrir, heldur allan ónýttan persónuafslátt. Það mundi draga verulega úr kjaraskerðingu þeirra allra tekjulægstu og annarra sem við verst kjör búa. Einstæð móðir með lágmarkstekjur, 10 961 kr. á mánuði fyrir fullan vinnudag, fengi greiddar út nálega 1000 kr. á mánuði í neikvæðan tekjuskatt auk þeirrar sérstöku 1400 kr. hækkunar á árinu sem um getur í 1. gr. frv. Og elli- og örorkulífeyrisþegi, sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga, samtals 7018 kr. á mánuði í grunnlífeyri og óskerta tekjutryggingu, fengi útborgaðan ónýttan persónuafslátt nálægt 2500 kr. á mánuði eða álíka mikið og búið er af honum að taka með ráðstöfunum á þessu ári. Ég hélt satt að segja að allir væru sammála um að kjör þessa fólks mætti ekki skerða, hvað þá að þau séu skert meira en annarra eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ekki er gert ráð fyrir í brtt. minni hl. fjh.- og viðskn. að unglingar innan tvítugs á tekjuárinu njóti þess, enda margir þeirra í heimahúsum. Það er heldur ekki gert ráð fyrir að menn með sjálfstæðan atvinnurekstur af einu eða öðru tagi njóti þess. Seinni brtt. minni hl. n. gengur út á það að sömu barnabætur verði greiddar vegna allra barna því að alls engin rök hníga að því að barnabætur lækki um helming þegar barn verður 7 ára gamalt.

Fjmrn. hefur áætlað kostnað sem af samþykkt brtt. á þskj. 133 mundi leiða. Rn. segir að allur ónýttur persónuafsláttur á þessu ári nemi 311.8 millj. kr. og er þá bæði átt við sérstakan persónuafslátt samkv. 1. mgr. 1. gr. frv. og almenna persónuafsláttinn, þar af vegna hjóna 52.6 millj. kr. og vegna einstæðra foreldra 15.1 millj. kr. Í fyrri brtt. eru ýmsir hópar undanskildir eins og ég kom inn á áðan, sem vega mjög þungt í svona samanburði, allir milli 16 og 20 ára sem yfirleitt eru í skólum og fá því reiknaðan fullan persónuafslátt. Enn fremur eru allir undanskildir sem vinna við eigin atvinnurekstur í hvaða mynd sem er.

Rn. getur ekki nema með talsverðri fyrirhöfn reiknað út hve stór hluti ónýtta persónuafsláttarins félli samkv. þessu niður, en giskar á að brtt. kosti 200–300 millj. kr. Það er með öllu fráleitt að mínu mati að það nálgist 300 millj. kr. sem er næstum sama og allur ónýtti persónuafslátturinn. Mér finnst það ótrúlegt, að það nái 200.millj. kr. Ég tel að það geti varla verið meira en 150 millj. kr. ef það nær þeirri upphæð og ber ég þá saman við ónýttan persónuafslátt allra hjóna, sem nemur 52.6 millj. kr. og einstæðra foreldra með 15.1 millj. kr. eins og ég áður kom inn á. Hjón fá miklu fyrr ónýttan persónuafslátt heldur en einstaklingar, ég tala ekki um, ef annað hvort hjónanna vinnur ekki eða vinnur aðeins hlutastarf. Um þetta er þó ekki hægt að fullyrða nema með sérstakri tölvukeyrslu skattagagna.

2. brtt. kostar samkv. upplýsingum fjmrn. 112 millj. kr. Auðvitað er þetta mikið fé. En ekki má heldur gleyma því að hér er um flesta þá að ræða sem við allra lökust kjör búa og á það einkum við um fyrri brtt., það getur verið misjafnara að því er seinni brtt. varðar, þá tekjulægstu og elli- og örorkulífeyrisþega fyrst og fremst, og talsvert má á sig leggja til að bæta hag þeirra eða réttara sagt til að draga úr kjaraskerðingu þeirra.

Í þessu sambandi tel ég að mjög vel komi til greina að skoða tillögur framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins um að leggja af niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur innanlands, sem eru áætlaðar liðlega 1000 millj. kr. á næsta ári eða svipaðar og á yfirstandandi ári, og nota það fé til að bæta hag þeirra tekjulægstu. Erfitt er að gera þetta á einu bretti, en að mínu mati mætti lækka þessa upphæð sem nemur kostnaði við þær brtt. sem minni hl. leggur til á þskj. 133. Það þýðir auðvitað nokkuð aukna kjaraskerðingu hjá þeim, sem betur eða skár eru settir, til hagsbóta fyrir þá allra lakast settu.

Hæstv. forseti. Á síðasta landsfundi Sjálfstfl. var sérstaklega ályktað um að beita ætti skattalögum til að bæta hag þeirra verst settu og nýkjörinn formaður flokksins lýsti því yfir í sjónvarpi 15. þ. m. að það mundi aldrei ske að flokkurinn stæði að lagasetningu þar sem meira tillit væri tekið til hinna tekjuhærri en þeirra tekjulægstu. En það er einmitt það sem þetta frv. gerir.

Með hliðsjón af þessu hvoru tveggja hlýtur að vera auðvelt fyrir hv. þm. sjálfstfl. að styðja brtt. minni hl. hv. fjh.- og viðskn. a.m.k. fyrri brtt. Annað væri hróplega í mótsögn við ályktanir landsfundar og yfirlýsingar formanns flokksins. Ég sé reyndar ekki hvernig hv. þm. Sjálfstfl. geta annað en samþykkt fyrri brtt. ef þeir vilja að mark sé tekið á ályktunum landsfundarins og formanns flokksins. Og ég þykist líka vita að hv. þm. Framsfl. hafi svipaðar skoðanir og ég í þessum málum. Það gengur ekki, hæstv. forseti, að leggja hlutfallslega þyngstar byrðar á þá allra tekjulægstu og elli- og örorkulífeyrisþega.