23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á síðasta fundi hv. Nd. bar ég fram svofellda fsp. til hæstv. viðskrh.:

„Af hvaða reikningum ætlar Seðlabankinn að greiða þá fjármuni sem hér um ræðir?“

Hæstv. viðskrh. hefur afhent mér svar við þessari spurningu sem er á þessa leið:

„Þegar kvótahækkun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur til framkvæmda, sem væntanlega verður fljótlega, á Seðlabankinn að greiða 1/4 kvótahækkunarinnar í sérstökum dráttarréttindum. Hér er um að ræða 4 millj. SDR sem jafngildir 4.23 millj. dollara. Gagnvart sjóðnum má inna greiðsluna af hendi í dollurum eða öðrum yfirfæranlegum gjaldmiðli.

Seðlabankinn mun inna þessa greiðslu af hendi með þeim hætti að yfirfæra ofangreinda fjárhæð í dollurum af reikningi sínum hjá Federal Reserve Bank í New York yfir á reikning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eins og áður hefur komið fram er framlagsfé þetta til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til ráðstöfunar Seðlabankans hvenær sem nauðsynlegt er vegna gjaldeyrisþarfa landsins. Með tilliti til þess hvernig staðan er nú er því líklegt að Seðlabankinn muni þegar í stað taka þessa fjárhæð út af framlagsreikningi sínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og flytja hana aftur á reikning sinn við Federal Reserve Bank í New York. Greiðsla framlagsins mun því engin áhrif hafa á greiðslugetu Seðlabankans erlendis.“

Niðurstaðan af þessu er sú, að þegar þessi greiðsla á sér stað lækkar gjaldeyrisforði landsmanna sem því nemur. Ef menn fletta upp í Hagtölum mánaðarins, töflu 4 í 6. kafla, þá sést þar að í frjálsum gjaldeyri svokölluðum er talið að Íslendingar hafi átt í sept. 3 832 millj. kr. Vegna þeirrar ákvörðunar sem nú er verið að taka hér lækkar þessi tala um u. þ. b. 120 millj. kr.

Ég tel að hæstv. viðskrh. hafi nú svarað þessari spurningu þannig að viðunandi sé og sá ruglingur sem hæstv. fjmrh. olli í málinu hafi þannig verið skýrður og ástæðulaust sé að tefja málið frekar.