23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (946)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að þessi mál komi fyrir hér. Þau hafa verið svo mikið til umræðu í fjölmiðlum og í kringum okkur í þjóðfélaginu að allir sem bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti vilja hafa eitthvað um það að segja. Í harðnandi samkeppni á erlendum mörkuðum er auðvitað mikilvægt að gæði afurðanna séu sem best.

Í grg. með þessu frv. er vikið að ýmsum umkvörtunum vegna núverandi kerfis og sumar þessar umkvartanir eru býsna alvarlegar, t.d. þær sem eru teknar úr áfangaskýrslu nefndar frá 1980. Þar er talað um ófagleg vinnubrögð, stífni, stirðleika, hlutdrægni, misræmi, ókunnugleika á erlendum mörkuðum, innanhússósætti og fleira og fleira. Þetta eru svo alvarlegar ásakanir að augljóst er að eitthvað þarf að athuga þessi mál. Þá vakna spurningar og ein spurningin er þessi: Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að nýtt kerfi og ný stofnun sæti ekki sams konar gagnrýni innan fárra ára? Það getur að vísu oft verið til gagns að breyta um kerfi því að breytingin sjálf og sú uppstokkun sem hún veldur hefur áhrif til aukinnar árvekni um einhvern tíma, en þegar til lengdar lætur getur ekkert kerfi og engin stofnun, löggiltir lestunarstjórar eða eitthvað þess háttar orðið það sem ræður endanlega úrslitum um gæði. Það sem mestu máli skiptir er að verðlagning afurðanna á öllum stigum framleiðslunnar, allt frá öngli til dreifingar á mörkuðum, hvort sem er hérlendis eða erlendis, verði háð gæðum. Ef framleiðendurnir vita að verðmæti vörunnar verður stranglega háð gæðum hennar, að fiskverðið verður ekki ákveðið við skrifborðið í Reykjavík, heldur ræðst af gæðum og áhuga kaupendanna, þá kemur það virka eftirlit sem þörf er á. Það er eðlilegt og sjálfsagt að heilbrigðisyfirvöld setji reglur um umgengni við afurðirnar og meðferð til þess að tryggja lágmarksgæði og hafi með því einhverja umsjón, en slíkar reglur hafa verið til og stórkostleg slys hafa orðið, eins og hefur komið fram í þessari umr. Við skulum gera framleiðendurna raunverulega ábyrga fyrir gæðunum með því að gera þá ábyrga fyrir verðlagningunni. Og við skulum ekki leysa þá út með gjöfum þegar þeir verða uppvísir að mistökunum.

Ég vil ekki gera lítið úr aukinni fræðslu allra sem koma þarna nærri, þar hefur mikið átak verið gert og þar hefur gagnlegur áróður og umræða farið fram, en aukin ábyrgð er það sem á endanum skiptir sköpum. Því þarf að auka frjálsræði um sölu og verðmyndun þessara afurða, hvort sem þær eru niðursoðnar eða frystar.