18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur.

Mikið hlýtur að vera gott að búa á Íslandi, sagði frönsk blaðakona við mig í sumar. — Þetta var einn af fáum góðviðrisdögum sumarsins á Suðvesturlandi og við Kvennalistakonur notuðum hann til að selja rabarbarasultu og harðfisk, gömul föt, bækur og blóm á Lækjartorgi til að hafa upp í skuldahalann eftir kosningarnar.

Þessari frönsku blaðakonu fannst íslenskt þjóðfélag heillandi. Henni fannst t.d. stórkostlegt að þingmenn gætu leyft sér að afgreiða á flóamarkaði á Lækjartorgi. Og henni fannst ennþá stórkostlegra að fylgjast með móttöku varaforseta Bandaríkjanna, þegar hann kom í stjórnarráðshúsið þennan sama góðviðrisdag. Íslenskir lögreglumenn sáust varla og fólk fylgdist með af hlutlausri og kurteislegri forvitni. Umstangið í lífvarðarsveit varaforsetans verkaði hlægilega og framandi í þessu friðsamlega andrúmslofti.

Já, það er gott að búa á Íslandi, svaraði ég, og hafði þá í huga samanburð við ýmis önnur lönd.

Í rauninni eru vandamál okkar fá og smá, borin saman við atvinnuleysi og hungursneyð, styrjaldir, hryðjuverk, ofsóknir og mannréttindabrot sem ýmsar aðrar þjóðir mega þola. En þeim mun auðveldara ætti okkur að vera að leysa vandamál okkar á friðsamlegan og viðunandi hátt og búa svo í haginn að allir geti verið sammála um að það sé gott að búa á Íslandi.

Hæstv. ráðherrar okkar eru áreiðanlega velviljaðir og áhugasamir um bættan þjóðarhag. Þeir segjast hafa tekið við þrotabúi og allt frá því þeir fengu lyklavöld í ráðuneytunum hafa þeir kallað landsmenn til sameiginlegrar ábyrgðar, beðið þá um skilning og þolinmæði, brýnt fyrir börnum landsins með föðurlegum þunga að allir verði að axla auknar byrðar, allir verði að leggja sitt af mörkum til að bæta þjóðarhag, allir verði að leggjast á eitt með að ná niður verðbólgu. Stefnuræða forsrh. er tilbrigði við sama stef.

En er þetta sanngjörn krafa? Erum við öll jafnfær um að axla byrðar vegna minnkandi þjóðartekna? Er raunhæft að ætlast til þess að ellilífeyrisþegar og námsmenn, öryrkjar og lágtekjufólk taki á sig jafnmikla skerðingu hlutfallslega og fullvinnandi, heilsuhraust fólk með meðaltekjur og þaðan af meira? Er jafnauðvelt fyrir einstæða móður með lágmarkstekjur að þola rýrnun kaupmáttar og ráðherra eða framkvæmdastjóra með 70–100 þús. kr. tekjur á mánuði?

Því fer sannarlega víðs fjarri, og það hljóta ráðh. í ríkisstj. Steingríms Hermannssonar að vita — eða vita þeir það ekki? Það verður að segjast eins og er, að þegar litið er á aðgerðir þeirra í launamálunum, þá er ég ekki viss. Ég er alls ekki viss um að þeir skilji aðstæður þessa fólks, hafi reynt að setja sig í spor þess. Þeir hefðu kannske gott af því að taka sér far með strætisvagni öðru hverju til að minna sig á að ekki hafa allir efni á að eiga bít, jafnvel ekki af minnstu og sparneytnustu gerð. Kannske yrðu þeir samferða ungu konunni sem ég sá koma upp í vagninn einu sinni að morgunlagi í sumar. Hún var í vinnufötum og þreytuleg á svip þar sem hún veifaði til tveggja lítilla stúlkna sem stóðu eftir á gangstéttinni hönd í hönd — tvær litlar systur, á að giska 5 og 9 ára, sem væntanlega hafa átt að reyna að sjá um sig sjálfar meðan mamma þeirra ynni fyrir matnum þeirra. Því miður er enginn gerðardómur sem metur það að mamma þeirra þurfi hærri laun þegar framfærslukostnaðurinn hækkar á sama hátt og gerðardómur fjallar um kostnaðarhækkanir alþm.

En það er ekki bara ríkisstj. sem villist á breiðu bökunum í þjóðfélaginu. Ótrúlega margir loka augunum fyrir aðstæðum þeirra verst settu. Víst eru lágmarkstekjur skammarlega lágar, segja menn, en það eru bara svo fáir sem þurfa að sætta sig við slík kjör. Flestir eru yfirborgaðir, drýgja tekjurnar með eftirvinnu eða stunda aukastörf, og í flestum tilfellum vinna bæði hjónin fyrir tekjum heimilisins. Og þar með er málið afgreitt.

Þetta er náttúrlega mikill misskilningur. Í fyrsta lagi ættu alls ekki að þekkjast svo lág laun hér að ekki sé hægt að lifa sæmilegu lífi af dagvinnutekjum einum saman. Það er þjóðarskömm. Í öðru lagi eru alls ekki allir í hjónabandi. Fyrsta des. s.l. voru skráð 8050 börn undir 15 ára aldri í umsjá einstæðra foreldra, eða 12% barna á öllu landinu. Einstæðir feður voru þá skráðir 361, en einstæðar mæður 5710. Að minnsta kosti konurnar eru fáar í hópi þeirra yfirborguðu og áreiðanlega hafa þær litla möguleika á að drýgja tekjur sínar með eftirvinnu og aukastörfum því einhvern tíma þarf að sinna börnunum — eða erum við ekki öll sammála um það? Nógu fallega er talað um gildi barnauppeldis og heimilisstarfa á hátíðlegum stundum.

Við verðum að opna augu allra fyrir kjörum lágtekjufólks. Fyrsta skrefið á þeirri leið væri að lögfesta frv. okkar kvennanna í Nd. um endurmat á störfum láglaunahópa. Markmið þeirra laga er að fá fram hlutlausa rannsókn og endurmat á störfum og kjörum láglaunahópa svo og úttekt á hlut þeirra í tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Aum erum við og illa sett ef við teljumst ekki hafa efni á framkvæmd slíkra laga.

Eins og vænta mátti hafa umr. hér í kvöld að mestu snúist um efnahagsmál. Stefnuræða forsrh. gaf naumast tilefni til annars. Í stefnuyfirlýsingunni, sem birt var eftir myndun ríkisstj. í vor, fór lítið fyrir öðrum málum. Efnahagsmálin höfðu forgang. Hvenær hafa þau annars ekki haft forgang? Félagsmál og menntamál, heilbrigðis- og tryggingamál voru afgreidd í einni stuttri setningu. Mörgum blöskraði, en kenndu um tímaskorti. Því miður er stefnan í þessum málaflokkum litlu skýrar mörkuð í stefnuræðu forsrh. þó setningarnar séu ögn fleiri. Helst er einhverja stefnumörkun að finna í húsnæðismálum, enda komst ríkisstj. ekki hjá því þegar húsbyggjendur og húsnæðiskaupendur risu upp í sumar og kröfðust þess að staðið yrði við kosningaloforðin. En ég sakna þess að ekki eru í sjónmáli nein áform um aukinn stuðning við byggingu íbúðarhúsnæðis á félagslegum grunni. Okkur er brýn nauðsyn á breyttri stefnu í húsnæðismálum. Séreignastefnan er ekki öllum fær. Fólk verður að geta valið um það í reynd hvort það leigir, kaupir notað húsnæði eða byggir sjálft. Við verðum að afnema þá ómannúðlegu kvöð að menn séu neyddir til að eyða bestu árum ævinnar við að koma þaki yfir höfuðið. Við höfum séð allt of mörg dæmi þess hver áhrif sú stefna getur haft á einstaklinga og fjölskyldulíf.

Og það er fleira sem ég sakna úr stefnuræðu forsrh. Jafnréttismál kynjanna voru þar ekki til umfjöllunar. Erlendir blaðamenn hafa meiri áhuga á framgangi þeirra mála hér á landi en hæstv. ríkisstj. Hvergi er fjallað um réttindi heimavinnandi húsmæðra. Þær eru bara til fyrir kosningar. Dagvistarmál virðast ekki minnsta áhyggjuefni þessarar ríkisstj. á sama tíma og foreldrum er gert ókleift að vera heima hjá börnum sínum. Á umhverfismál er ekki minnst. Breytt verðmætamat er ekki í sjónmáli hjá þessari ríkisstj. Forgangsröðin er enn sú sama.

En við skulum ekki láta vonleysið ná tökum á okkur. Þetta nýbyrjaða þing er um margt merkilegt og þá ekki síst vegna tilkomu tveggja nýrra stjórnmálaafla og fjölgunar kvenna í þessu samkunduhúsi. Við skulum vona að hinum nýju fulltrúum takist að veita ferskum straumum inn í þessa virðulegu stofnun, sem umfram allt má aldrei slitna út tengslum við þjóðlífið. — Ég þakka þeim sem hlýddu og býð góða nótt.