23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (950)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Pétur Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Í mínum huga er það frv. sem hér er til umr. eitt veigamesta og þýðingarmesta mál sem þetta þing hefur fjallað um til þessa í frv.-formi. Í sjálfu sér er ekki ástæða til að ræða við 1. umr. um málið jafnmálefnalega eins og gert hefur verið af sumum hv. þm. — og þá í nokkrum tilfellum farið alllangt út yfir það sem hér er til umr., heldur að benda á vissa vankanta eða taka undir ákveðin atriði í viðkomandi frv., ef mönnum sýnist svo, og að koma ábendingum til þeirrar hv. nefndar sem fær málið til meðferðar og leitast við að ná fram breytingum, ef breytinga er óskað.

Vegna spurningar, sem kom hér fram fyrr í dag frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, þá get ég upplýst hann þegar um það að margir okkar þm. Sjálfstfl. eru ekki bundnir þessu frv. óbreyttu. Við höfum áskilið okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma við frv. Og að sjálfsögðu hlýtur það að vera bæði honum og öðrum þm. ljóst, að eins og frv. kemur fram og er hér til l. umr. málsins getur a.m.k. Pétur Sigurðsson ekki fylgt því óbreyttu. Ég vil aðeins benda hér á tvö atriði sem ég tel valda því m.a.

Annað þessara atriða hefur verið hér til ítarlegrar umr., þ.e. 17. gr., sem ég tel að þurfi að taka breytingum. Satt að segja fæ ég ekki séð að 1. mgr. þeirrar greinar eigi heima í frv. og ég hef ekki trú á því, þegar hæstv. sjútvrh. fer að skoða málið nánar, að hann kæri sig sjálfur um að hafa þetta gífurlega vald á sinni hendi. Ég tel að hitt eigi að vera nóg, sem kemur fram í 2. mgr. og reyndar 3. líka, að rn. og ráðh. hafi heimild til að svipta framleiðanda framleiðsluleyfi, sýni hann vítaverða meðferð hráefnis o. s. frv. eins og þar segir.

Hitt atriðið er að sjálfsögðu, hafandi það í huga sem kannske var meginástæða þess að þetta mál er hér komið fram eða a.m.k. í mínum huga, sú mikla gagnrýni sem hefur komið fram á liðnum árum bæði frá sjómönnum og útgerðarmönnum í sambandi við niðurstöður matsins víðs vegar um land. Við skulum ekki gleyma því að fyrir þessa aðila hefur niðurstaða úr mati hráefnisins úr skipi úrslitaþýðingu fyrir afkomu þeirra. Það er verið að fjalla t.d. um laun sjómannanna fyrir gífurlega mikið erfiði og áhættu í starfi áður en þeir koma með afla sinn að landi til mats og sölu. Hér er verið að fjalla um tekjur og afkomu þessara manna. Það er því algerlega út í hött að ætla fiskmatsráði að fjatla um slík atriði og hafa úrslitaáhrif á gang slíkra mála, án þess að það sé skýrt tekið fram í þessari grein að ákveðnir aðilar þar eigi skilyrðislausa fulltrúa í fiskmatsráði. Ég tel að hv. sjútvn. megi ekki láta þetta mál fara frá sér án þess að fundin sé lausn á þessu atriði og það komi fram í tillögum nefndarinnar, vonandi samhljóða, að fengnum umsögnum og ábendingum frá aðilum sem málið varðar.

Í 1. gr. frv. er getið um hvað mikið vald er fært undir ríkismat sjávarafurða. Það er eftirlit með meðferð, flutningi, geymslu og vinnslu. Það er eftirlit með búnaði og hreinlæti í fiskiskipum, flutningatækjum, geymslum o.s.frv., o.s.frv. Þetta þýðir m.a. ákvæði um gífurlega aukna vinnu mögulega, sem ég er ekkert að draga úr að eigi að hvetja menn og skylda þá til þess að framkvæma. En það getur bara þýtt, þegar nýir herrar og nýir sópar koma, að það verði stóraukið álag þeirra manna sem við þetta vinna. Og að sjálfsögðu verða þeir að hafa einhverja vörn uppi einhvers staðar í málsmeðferðinni til þess að koma að sínum sjónarmiðum áður en þessi hæstiréttur sjútvrh. kveður upp sinn dóm.

Ég vildi sérstaklega nú við þessa umr. láta þetta koma fram. Ég vil líka undirstrika það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Birni Dagbjartssyni, að í raun er með þessu frv. verið að leggja til að öll okkar útflutningsframleiðsla sjávarafurða falli undir það sem nú er við lýði í ferskfiskútflutningnum og hefur gefið jafngóða raun og raun ber vitni um. Við megum gera ráð fyrir því að að meðaltali séu um 50% af okkar útflutningsafurðum freðfiskur, frosin vara. Og eins og hér kom fram áðan höfum við ekki orðið fyrir stóráföllum vegna þess að sú vara hafi ekki alltaf þótt fyrsta flokks. Við viljum bara fá hinar afurðirnar undir þetta kerfi líka til þess að við náum fram sömu gæðum þar.

Það hafa verið látin falla hér orð um þá sem að þessu hafa starfað sem ég ætla ekki að blanda mér í. Ég tók það fram í upphafi míns máls að það var mikil gagnrýni á niðurstöður mats frá stað til staðar og reyndar mátti þekkja þar handbrögð á, sem voru eðlilega gagnrýnd. En mér finnst samt sem áður að það megi láta liggja milli hluta og sé óþarft að vera með aðfinnslur við einstaka menn sem að þessu hafa unnið áður. Það megi liggja milli hluta. Við eigum að sjálfsögðu að leitast við að finna bestu leið í þessum málum.

En það er eftirtektarvert í sambandi við ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að það hefur komið hér fram að þetta frv. er að meginefni til samið af þeirri vinnunefnd sem fyrrv. ríkisstj., sem hann studdi manna best og drengilegast, kom á laggirnar. Enn eftirtektarverðara finnst mér, eins og hér var bent á að hafa í huga okkar og geyma í minningu þennan dag, þegar einkaframtakinu og frjálshyggjunni hefur bæst þessi góði liðsmaður, sem er hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Hann hefur lýst hér yfir margoft og margítrekað í sinni löngu og ítarlegu ræðu, að hann segi stríð á hendur öllu miðstýringar- og ráðherravaldi. Mér sýnist á öllu að það sem hv. þm. hefur ekki þorað að láta koma fram á landsfundi Alþb. fyrir nokkrum dögum þori hann þó að láta koma fram nú. Ég fæ ekki séð eða skilið annað af orðum hans en að hann sé svona að byggja sér nýjan veg, flóttamannaveg úr fyrti herbúðum kannske til nýrra. Ég get vel skilið það þegar ég heyri þetta ítrekaða hrós hv. þm. um viðurkennda sjálfstæðismenn eins og forstjóra Olíuverslunar Íslands og einn forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og fleiri og fleiri sjálfstæðismenn, sem hv. þm margítrekað lýsir yfir að séu valinkunnir sæmdarmenn. (ÓRG: Að þm. sjálfum ógleymdum.) Að þm. sjálfum, 12. þm. Reykv., ógleymdum, sem ég þakka kærlega fyrir. Ég veit m.a. þess vegna að maðurinn er að mæla þetta af hjartans einlægni og þekkir vel til manna og málefna á mínum bæ. Veri hann velkominn ef hann breytir nokkuð um skoðanir, annars er best að hann verði þar sem hann er. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. heyrir það strax.

Ég skal nú ekki, hæstv. forseti, hafa þessi orð miklu fleiri. Ég taldi rétt strax við 1. umr. þessa máls að láta þessar skoðanir mínar koma hér fram. Og reyndar má ég segja það að ég er ekki einn um þær skoðanir í mínum flokki. En það er ekki þar með sagt að við séum ekki sammála því að þessi leið sé farin að meginefni til sem frv. leggur til. En eins og með önnur stór og veigamikil mál, þá verða þau að fá nákvæma og ítarlega skoðun í nefnd og ég treysti núv. hæstv. sjútvn. þessarar deildar til að gera það.