23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (951)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að gera eina aths. við þetta frv., sem ég er annars hlynnt en áskil mér þó allan rétt til að gera við það aths. ef mér svo sýnist seinna. En það er eitt atriði sem ég vil benda á.

Ef hér er um að ræða, sem ég geri ráð fyrir, frv. til einhverrar framtíðar, rammalöggjöf um bætt eftirlit með sjávarafurðum, þá held ég að vanti hugsanlega í það aðeins meiri breidd þar sem frv. virðist gera eingöngu ráð fyrir að um matvæli sé að ræða.

Ég vil leyfa mér að benda hv. deild á að á 104. löggjafarþingi var flutt till. til þál. um innlendan lífefnaiðnað-till. sem hlaut samþykki hér á hv. Alþingi. Mér er ekki kunnugt hvað um frekari framkvæmd hennar hefur orðið og vildi leyfa mér að spyrja um það. Flm. till. voru hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, Stefán Guðmundsson, Páll Pétursson, Guðmundur Bjarnason, Þórarinn Sigurjónsson og Alexander Stefánsson. Hún var samþykkt svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna hvort hagkvæmt sé að koma á fót innlendum lífefnaiðnaði. Í því sambandi beiti ríkisstj. sér fyrir eftirfarandi atriðum:

1. Með markvissri rannsóknaáætlun verði leitað svara við því, hvaða lyf, lyfjahráefni, hormóna og lífhvata geti verið hagkvæmt að vinna úr innyflum fiska, hvala og sláturdýra, sem til falla hérlendis.

2. Framleiðsla þeirra lyfja, lyfjahráefna, hormóna og lífhvata, sem rannsóknir sýna að hagkvæm sé, verði hafin jafnóðum og niðurstöður liggja fyrir.“

Ég vænti þess að hið háa Alþingi hafi meint eitthvað með því að samþykkja slíka þáltill. og vildi því í fyrsta lagi spyrja hæstv. sjútvrh. hvort eitthvað hafi verið gert til að kanna hvort slíkur iðnaður gæti hugsanlega verið hagkvæmur. Sé hinu háa Alþingi alvara með að leita einhverra slíkra leiða til nýtingar sjávarafla — og raunar gerir till. ráð fyrir vinnslu úr innyflum annarra dýra — þá held ég að þyrfti að opna þeim einhverja leið í þessu frv. til þess að ekki þurfi að koma til lagabreyting að stuttum tíma liðnum, og þessi rammalöggjöf geti rúmað aðra framleiðslu úr sjávardýrum en matvælaframleiðslu.

Ég vildi leyfa mér að koma þessari aths. á framfæri. Ég tel mig ekki hafa miklu við að bæta það sem gáfuðustu menn hafa sagt hér í dag, en taldi rétt að benda á þetta.