23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Það er liðið nokkuð langt á kvöld og menn farnir að þreytast, enda er hér um mjög stórt mál að ræða. Ég tek undir það og ég skal gjarnan viðurkenna það að eftir að ég hafði lesið allar þær Skýrslur og öll þau gögn sem liggja fyrir um þessi mál þá varð ég á margan hátt býsna undrandi á því hve víða voru andstæð sjónarmið og hve hér væri í reynd um flókin mál að etja.

Það er atveg rétt að hér er ekki tekið á öllum gæðamálum sjávarútvegs. Menn mega ekki líta svo á að þetta frv. fjalli í einu og öllu um gæðamál í sjávarútvegi. Þar er svo margt annað sem kemur til. Hér er ekki fjallað um veiðar. Um það gilda allt önnur lög o.s.frv.

Ég vil nú taka fram strax í upphafi að ég tel af og frá að það þurfi að vera eitthvert pólitískt ósamkomulag um þetta mál. Þetta mál er að sjálfsögðu ekki hugsað þannig, eins og mátti heyra á hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að hér sé verið að sækjast eftir einhverjum sérstökum völdum. Ég vil gjarnan að það komi alveg skýrt fram. Ég taldi hins vegar heppilegt að þetta frv. væri flutt á þann hátt sem það kom frá viðkomandi nefnd. Af minni hálfu er það alveg sjálfsagt að taka frv. til einhverrar endurskoðunar í nefnd ef menn telja það betri leiðir til þess að ná bættum árangri.

T.d. að því er varðar 17. gr. um að öll vinnsla skuli háð leyfum rn. Ég tek alveg undir það að ýmsir gallar eru við slíka leið. Ég spurði einnig hvort það væri nauðsynlegt að fara slíka leið. En þá er því svarað til að það sé nauðsynlegt að hafa eftirlit með aðilum, að það sé hægt að svipta þá leyfi ef þeir fari ekki eftir settum lögum og settum reglum. Og það er í sjálfu sér alveg það sama með allar aðrar reglur.

Hér var mikið talað um togtíma og útivistartíma. Að sjálfsögðu skiptir það verulega máli hversu togtími er langur og hversu útivistartími er langur. En það er ekki nóg að hafa reglur um það. Það verður að vera heimilt að svipta menn veiðileyfum ef menn brjóta þessar reglur og togveiðar eru ekki bundnar veiðileyfum í dag. En allir sem ég hef talað við vilja gjarnan binda þessar veiðar leyfum og allir sem hafa hvað gleggst yfirlit í sjávarútvegi vilja setja sem mest vald varðandi stjórn veiðanna í hendur sjútvrn. Það eru einnig mjög margir gallar við það. Það setur mjög mikinn þrýsting á viðkomandi rn. og þar verður að sjálfsögðu að koma sér upp ákveðnum reglum til að starfa eftir því að hér er ekki hægt að stjórna af einhverju handahófi. Og ég held í reynd að enginn ráðh. eða rn. vilji liggja undir slíkum þrýstingi. En hitt er svo annað mál að það verður að taka á þessum málum, það verður að stjórna veiðunum þannig að þær nýtist sem best landinu og það verður að stjórna vinnslunni og hafa eftirlit með henni þannig að það séu sköpuð sem mest verðmæti. En hér hefur engum dottið í hug að verið væri að setja upp eitthvert vald til handa ráðh. til þess að svipta menn vinnsluleyfum eftir því, — að mér skildist á hv. þm., hvort menn væru í þessum samtökum eða öðrum. Ég verð nú að segja að ég er mjög undrandi á því að þm. skuli detta slíkt í hug. En það er athugasemdalaust af minni hálfu að þessi ákvæði verði tekin til endurskoðunar vegna þess að ég viðurkenni að það eru ákveðnir gallar þessu samfara. En hins vegar hafa menn e.t.v. ekki sömu möguleika á að ná árangri ef þessi atriði eru felld niður.

Hér hefur einnig verið allmikið fjallað um 3. gr., um hvernig fiskmatsráð skuli skipað. Og um það má vissulega deila eins og allt annað. Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

„Varðandi val manna í fiskmatsráð er æskilegt að ráðh. hafi svigrúm til að velja samstæðan hóp sem getur starfað saman að fagmálum. Ekki er talið ráðlegt að binda í lögum nöfn þeirra samtaka í sjávarútvegi sem tilnefna skulu fulltrúa í fiskmatsráð.“

Ég vil nú upplýsa hv. þm. um það að ég hef skipað tvo menn í Fiskmatsráð sem starfar nú vegna þess að tveir af þeim mönnum sem þar voru áður komu til starfa við Framleiðslueftirlit sjávarafurða. Í fiskmatsráði var enginn maður úr sjútvrn. og enginn maður frá útvegsmönnum. Í stað þessara manna var skipaður einn maður úr rn. því ég taldi eðlilegt að þaðan væri einn maður í ráðinu. Og í öðru lagi bað ég um ábendingu frá LÍÚ um mann í fiskmatsráð og hann var skipaður í það samkv. ábendingu þeirra. (Gripið fram í: Hverjir eru í ráðinu?) Í fiskmatsráði? Ég veit ekki hvort nauðsynlegt er að upplýsa það hér, en ég vona þó að ég muni það nokkurn veginn. Það er einn aðili sem er starfsmaður Sjómannasambands Íslands, það er einn aðili sem er starfandi innan samtaka LÍÚ, það er einn aðili sem er starfandi innan samtaka frystihúsasambandsins, það er einn aðili sem er starfandi innan frystihúsa Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og það er einn aðili úr rn. Og með fiskmatsráði starfa tveir forstjórar Framleiðslueftirlits sjávarafurða. En þetta er nú hægt að upplýsa í n. en þess hefur verið gætt að í fiskmatsráði starfi aðilar frá sjómönnum, frá útgerð og frá vinnslu. (Gripið fram í: Enginn frá SÍF?) Það er enginn af aðilum sem starfar hjá SÍF í dag, en áður var í fiskmatsráði einn af forstjórum Framleiðslueftirlits sjávarafurða, Einar Jóhannsson, sem áður var starfsmaður hjá SÍF. En ég tel nú ekki rétt að gera þennan fund hér að svona hálfgerðum nefndarfundi því að margt af því sem hér hefur komið fram á nú betur heima í vinnu í n. og sjálfsagt að taka öll þessi atriði til athugunar þar.

Ef nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að tilgreina nákvæmlega hvað aðilar þarna skuli vera þá kemur það að sjálfsögðu vel til greina. En e.t.v. væri betra að taka það skýrt fram að hér skyldu vera menn frá samtökum sjómanna, útgerðar og vinnslu. Að mínu mati ætti það að vera fullnægjandi því að það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að það séu aðilar frá öllum þessum hagsmunahópum. Og þegar talað er um það hér að með þessu muni hagsmunaaðilarnir öðlast meirihluta og algjöra stjórnun á þessari stofnun þá er það að sjálfsögðu alrangt því að hagsmunir þessara aðila eru oft mismunandi. Hér eru mismunandi sjónarmið en aðalatriðið er að virkja reynslu þessara aðila og þekkingu, bæði að því er varðar veiðar, útgerð og markaði. Og ég er mjög undrandi á því að menn skuli hafa á móti því hér í d. að leiða aðila til samstarfs í sjávarútvegi. Það má segja að allt það starf sem hefur verið unnið á undanförnum árum og nú í dag miðar einmitt að því að reyna að leiða sem flesta til samstarfs. Hér hefur verið minnst á þá vinnu að reglugerðum, breytingar á reglugerðum sem nú eiga sér stað, en þar er starfandi ellefu manna hópur sérfræðinga úr sjávarútveginum. Það er engin leið að vinna þessi mál án þess að laða alla aðila til samstarfs. Það tekur að vísu lengri tíma, það er rétt, en það er eina vænlega leiðin til árangurs.

Það hefur verið talið að þetta frv. sé mjög mikilvægt til að varða þá leið að bættri starfsemi í þessu sambandi. Ég tel að það sé rétt. Og ég tel að það sé mikill ábyrgðarhluti að standa í vegi fyrir að frv. sem þetta geti orðið að lögum vegna þess að ég er sannfærður um að það muni verða mikilvægt í framtíðarstarfi.

Ég vil taka það fram hér að eftirlit Sölusamtakanna er mjög mikilvægt. Það eru nákvæmlega 34 menn sem starfa við eftirlitsstörf við frystan fisk á vegum SH og SÍS, menn sem ekkert gera annað en að sinna eftirliti með frystum fiski. Þetta eru aðilar sem eru í mjög nánu sambandi við aðila á markaðnum og þeirra störf eru mjög mikilvæg. Hjá Framleiðslueftirlitinu starfa alls 35 yfirfiskmatsmenn og deildarstjórar í öllum greinum og gefur það nokkra vísbendingu í þessu sambandi. Einnig hefur Samband ísl. fiskframleiðenda ráðið allmarga eftirlitsmenn til starfa hjá samtökunum og ætlar sér að auka þessa starfsemi og sama er að segja um skreiðarframleiðendur. En áfram er hið opinbera mat, þ.e. yfirmat, og það er alls ekki hugmyndin að leggja það niður. Það er ekkert annað en útúrsnúningur þegar hér er verið að halda fram að slíkt sé ætlunin.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að ræða hér um einstök atriði sem hafa komið fram. Að vísu vil ég taka undir það með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni vegna þess að hann kom hér að því, að það er að sjálfsögðu mikilvægt að liggi fyrir mat Fjárlaga- og hagsýslustofnunar um þetta frv. Ég man það nú ekki nákvæmlega en komið er eitthvað á annan mánuð síðan ég ritaði Fjárlaga- og hagsýslustofnun bréf og bað um úttekt á þessu máli, bæði á þessu frv. og öðru frv. er ég flutti í Ed. Sú úttekt er komin á hinu frv., mér hefur ekki borist enn þá úttekt á þessu. Því hefur verið haldið fram af aðilum sem best þekkja til að þetta frv. leiði til sparnaðar fyrir hið opinbera og ég hef staðið í þeirri trú. Ég vænti þess að úttekt Fjárlaga- og hagsýslustofnunar leiði í ljós að svo sé. Og að sjálfsögðu þarf sú greinargerð að berast hið fyrsta til n. Ég er því mjög sammála og ég get fullvissað hv. þm. um að mín skoðun hefur ekki breyst í þeim elnum, að nauðsynlegt er að þetta sé gert varðandi öll frv. En því miður sáum við þetta nánast aldrei hjá ráðh. í fyrrv. ríkisstj. Og nú eru því miður að koma fram upplýsingar, sérstaklega frá ráðh. Alþb., um kostnað vegna frumvarpa sem við í reynd gerðum okkur enga grein fyrir. Og ég ætla ekki að fara að nefna það allt hér, en það er að sjálfsögðu alvarlegt mál að þessu ákvæði laga skyldi ekki hafa verið fylgt. Ég mun eftir því sem ég get reyna að stuðla að því að slíkt sé gert því ég er sammála því að það er nauðsynlegt og er í reynd miður að það skuli ekki hafa legið fyrir nú þegar mælt er fyrir frv. En ég vænti þess að hv. þm. geti verið mér sammála um að það muni nú e.t.v. vera í lagi ef það liggur fyrir þegar n. tekur til starfa.

Varðandi fsp. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur finnst mér sjálfsagt að taka það til athugunar sem hún nefndi hér. Ég hygg þó að þessi mál heyri mun fremur undir Rannsóknastofnun fiskiðna3arins eins og hér kom fram áður, þ.e. eftirlit með ýmsum atriðum heyrir undir þá stofnun og er e.t.v. fremur nauðsynlegt að athuga þau mál sem hún nefndi sem eru mikilvæg í því sambandi, en sjálfsagt er að taka það til athugunar í n.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að ég hafi svarað nokkrum þeim atriðum er hér hafa komið fram. Ég ætla mér ekki — eins og ég tók fram áður — að fara að ræða gæðamálin almennt í sjávarútveginum. Það er allt of yfirgripsmikið til að hægt sé að gera það nú. Ég hef reynt að halda mig við efni þessa frv. þó að full ástæða sé til að ræða önnur atriði, en ég vonast eftir að sem best samstarf geti orðið meðal þm. varðandi afgreiðslu á þessu máli því að það er af og frá að hér eigi að vera um mál að ræða sem eigi að þurfa að vera ágreiningsmál milli pólitískra flokka í landinu. Það ætti að vera ónauðsynlegt og ætti því að geta orðið um það full samstaða hér á Alþingi.