23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er varla ástæða til að orðlengja þetta frekar, en skaðar kannske ekki að segja um þetta örfá orð. Ég vil leyfa mér að taka undir það sem einn hv. þm. lagði áherslu á núna fyrir stuttu að mjög nauðsynlegt væri að hefja framleiðslu á hollum hormónalyfjum til handa þeim sem á þeim þurfa að halda, og á það ekki síst við mig sjálfan sem er nú kominn á mjög háan aldur eins og kunnugt er.

Þetta er auðvitað ekkert gamanmál. hv. þm. var að hyggja að lífefnaiðnaði og úrvinnslu úr fiskafurðum til þeirra hluta. Það er mjög merkilegt mál flutt um þetta hér á síðasta þingi og full ástæða til að vekja athygli á því og leggja áherslu á það, þó ég hafi nú hafið mína ræðu í dálítið gamansömum tón sem ekki hefur farið vel í alla.

Ég er eins og fyrri daginn alltaf dálítið veikur fyrir því sem hæstv. sjútvrh. núv. segir og er það dálítið öðruvísi en var á síðasta kjörtímabili, því að hæstv. ráðh. talar skynsamlega og skynsamlegar en við erum vanir í þessum efnum. Og ég tek undir það að við þurfum að eiga gott samstarf í þessu máli eins og öllum öðrum sem skipta þjóðina svo miklu máli. Ég legg áherslu á að við þurfum að vinna faglega að þessum hlutum eins og öllum öðrum varðandi þann atvinnuveg sem stendur undir öllum þjóðarbúskap Íslendinga.

Ég spurði fyrr í umr. um það hver þau hagsmunasamtök væru sem ættu að eiga hlut að fiskmatsráði. Nú hefur hæstv. ráðh. upplýst hvernig það er skipað nú. Það er einn maður frá rn. og einn frá Sjómannasambandi, annar frá LÍÚ, einn frá Sambandinu og annar frá SH og tveir frá þessu apparati sem hæstv. ráðh. hefur full tök á að ráða. Og það þýðir ef maður leggur saman að af þessum sjö getur ráðh. Framsfl. ráðið fjórum. Og ég segi þetta ekki vegna þess að ég sé að dylgja um að hæstv. ráðh. sé að sækjast eftir völdum, en greinilegt er að hæstv. ráðh. vill nú hafa sæmileg tök í þessu efni.

Hitt er annað mál að það er rétt sem hæstv. ráðh. sagði að hér er ekki um öll gæðamátin að ræða að þessu sinni. Það er auðvitað mjög margt sem ekki hefur verið á tekið og ég hef lagt á það áherslu að um það verði bætt sem allra fyrst. Og í þeim efnum er um marga málaflokka að ræða í raun og veru og satt að segja mjög erfitt að eiga við þá marga hverja vegna þess að ekki duga einfaldar reglugerðarsetningar í þessum efnum eins og reynslan sýnir.

Ég var nú eiginlega dálítið undrandi á að hæstv. ráðh. kaus að flytja þetta mál eins og það kom fyrir frá síðustu ríkisstj., eins og það var undirbúið þaðan. En ég hefði í hans sporum lagt í það ofurlítið meiri vinnu til að komast hjá þeim ágreiningi sem sýnilega var fyrir hendi og lagt málið þannig fyrir að ekki yrði um eins miklar deilur að ræða og verða um þetta mál óbreytt. Og full ástæða er til að hæstv. ráðh. hugi að þessu máli eins og tvær, þrjár vikur í viðbót í samráði við þm. og þá aðallega sem hafa gert um alllangt skeið talsverðar aths. við mörg efnisatriði í þessu frv. Ég sé enga ástæðu til að hæstv. ráðh. láti hafa sig í að hundsa öll þau mótmæli sem fram hafa komið, þau hafa legið fyrir og þau hafa legið fyrir skriflega og þessar skriflegu aths. hafa verið sendar rn. og kynntar fyrrv. hæstv. sjútvrh. a.m.k. Ég er ekki að segja að þar sé að öllu leyti um að ræða hluti sem ástæða er að taka tillit til, en nægilega mörg samt til að við hefðum getað búist við að aðeins ofurlítið meiri tími hefði gefist til að fjalla um málið áður en stjfrv. var lagt fram. Ég held að það bæti engan að sækjast eftir málsmeðferð sem kallar á allharðan ágreining í hlutum sem ættu að vera þess eðlis að hv. þm. allir gætu tekið faglega afstöðu til þeirra.

Sannleikurinn er sá að um marga hluti í þessum efnum, eins og t.d. með togtíma eins og hæstv. ráðh. var að nefna áðan, er erfitt að setja um reglur vegna þess að engin leið er að fylgjast með því jafnvel þó að menn hafi aflað sér mikillar tækni í þessum efnum. Það er augljóst að í mörgum þessara atriða dugar ekkert annað en hugarfarsbreyting, bæði hjá sjómönnum, útvegsmönnum og fiskvinnslufólki og raunar fiskverkendum og eigendum fiskverkunarstöðva, því að það er vitað mál að jafnvel þeir sem eru að framleiða til útflutnings og sjá um að þarna sé um sæmilegt hráefni að ræða hafa gert sig seka um — það er opinbert leyndarmál og alveg óhætt að segja það hér — að hafa reynt að tína lélegan fisk í gegnum vinnsluna. Þetta þekkjum við sem stöndum nálægt þessu og er auðvitað alveg ljóst og um það þarf ekki að deila.

Hv. þm. og vísindamaður Björn Dagbjartsson flutti ræðu áðan og út af fyrir sig ekkert við það að athuga þó að hann láti ljós sitt skína í þessum efnum þar sem hann er nú kunnugur þessu máli, að vísu frá dálítið annarri hlið og ekki eins praktískri eins og við margir aðrir hér. Hann hefur auðvitað ágæta menntun sem gerlateljari og ekkert við því að segja þó að hann láti í sér heyra í þessari umr.

Ég var dálítið undrandi á því að málsvari Sjálfstfl. skyldi hrósa því fyrirkomulagi í útlöndum þar sem kaupendur meta fiskinn. Ég er ekki viss um að fulltrúar sjómanna á Íslandi vildu sætta sig við það hér á landi og ég vona að það stefni ekki í það hérna. Og ég veit að hv. þm. Pétur Sigurðsson mundi ekki vera vel ánægður með það skipulag, jafnvel þó flokksbræður séu.

Hitt er svo annað mál að ég neita því algjörlega að ég a.m.k. og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, skv. því sem ég heyrði af ræðu hans, séum að drepa málinu á dreif, því fer víðs fjarri. Við höfum tekið efnislega á þessum hlutum og ég vona að við báðir höfum gert það af sæmilegri alvöru. Og það er einnig rangt að við höfum nokkuð lýst því yfir að við séum fullánægðir með núverandi ástand í þessum málum. Ég gerði það einmitt að umtalsefni í minni ræðu fyrr í umr. hvaða gallar væru á núverandi fyrirkomulagi. Það fer ekkert á milli mála að ástandið í þessum efnum er auðvitað ekki nálægt því nægilega gott og það þarf að bæta. Hins vegar nefndi ég í minni ræðu að þetta frv. til l. virðist ekki bæta neitt úr við breytingu á lögum. Málið er einfaldlega þannig vaxið að lagabreytingar og reglugerðarsetningar virðast ekki hafa nein áhrif til þess að bæta úr þeim göllum sem nú eru mest áberandi í okkar matskerfi.

Ég held að það sé ólíku saman að jafna sem hv. þm. Björn Dagbjartsson var að tala hér um þegar hann deildi á okkur Alþb.-menn vegna gagnrýni okkar á fiskmatsráð. Það er allt annars eðlis, stjórn stofnunar eins og Ríkismats sjávarafurða eða Framleiðslueftirlit sjávarafurða eða Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Þetta eru gjörólíkar stofnanir eins og hann veit sjálfur. Önnur stofnunin er rannsóknarstofnun sem vinnur mismunandi verkefni, bæði grunnrannsóknir og ýmsa þjónustustarfsemi fyrir sjávarútveginn af ýmsu tagi sem óþarfi er að telja upp og ég geri síður en svo lítið úr, því fer fjarri. En þessar stofnanir eru auðvitað gjörólíkar og þarf ekkert um það að tala, svo augljóst er það, og einkennilegt að hv. þm. skyldi eyða tíma í að ræða þá hluti.

Hitt er svo annað mál að þegar hann víkur að mistökum í framleiðslu okkar, það hafi verið seld út vara sem hafi þurft að flytja heim aftur o.s.frv., er auðvitað víðs fjarri að það sé Framleiðslueftirliti sjávarafurða að kenna í þessum tilfellum sem líklega er vísað til vegna þess að matsmenn framleiðenda lögðu blessun sína yfir það sem gert var. Gallinn á saltfiskinum sem lenti til Portúgals var aðallega sá að fiskurinn var ekki nægilega staðinn. Menn voru að vísu ákaflega nálægt mörkunum í þeim efnum, oft hefði það auðvitað sloppið, en Portúgalar hafa hert á sínum reglum af ýmsum ástæðum sem ástæðulaust er að rekja hér. (Gripið fram í: Hver gaf útflutningsvottorð?)

Útflutningsvottorð er gefið út af Framleiðslueftirlitinu og það er gert í trausti þess að það yrði í lagi þar sem allir aðilar og einnig eftirlitsmenn framleiðenda voru sammála í þessum efnum. Það dugar ekki eftir á að kenna einum aðilanum um. Það er alltaf gott að vera vitur eftir á. Nú auðvitað var þetta skyssa, en það á ekki að kenna einum aðila þegar aðrir hafa einnig fjallað um málið, það er engin ástæða til þess.

Skreiðin sem fór til Ítalíu, við vitum hvað varð af henni. Það hafði verið sandur eða mold eða eitthvað slíkt á skreiðinni eins og svo oft hefur komið fyrir áður. En slíkt á auðvitað ekki að eiga sér stað, ég er ekki að mæla því bót, því fer fjarri. En það er mjög billegt að kenna einum aðila um, það sem fleiri hafa um fjallað.

Ég held að þær staðhæfingar okkar um hvert stefnir varðandi mat í nálægum löndum og hjá samkeppnisaðilum okkar hafi ekki verið neitt hættulegar vegna þess að mér er kunnugt um að í Kanada stefna þeir í ríkismat. Og þó að hv. þm. Björn Dagbjartsson hafi lesið eina og hálfa línu upp úr einhverri norskri skýrslu þá trúi ég ekki að þar sé um allan sannleikann að ræða. Þeir eru þá knappari í texta en þeir vísindamenn okkar sem gefa hvað ríflegastar skýrslur í þessum efnum. Þar er um hundruð blaðsíðna að tefla en ekki um nokkra bókstafi.

Herra forseti. Það er ástæðulaust fyrir mig að halda um þetta langa ræðu. Ég vil hins vegar ekki vera með stóryrði í þessum efnum og ég mun að sjálfsögðu vinna að þessu máli í n. með venjulegum hætti. Ég vona að það verði ekki með því lagi að ég leggist gegn skynsamlegum leiðum. En hins vegar held ég að við hljótum að mega koma með okkar aths. og menn þurfa ekki að vera mjög typpilsinna út af þeim. En auðvitað hefur komið í ljós í kvöld og í dag að ekki er um pólitíska samstöðu að ræða í þessu máli. Það kom svo greinilega fram í ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar sem er auðvitað merkur maður og þekkir vel til í sjávarútvegsmálum, enda setið þar lengi í nefnd mörg undanfarin ár. Hann gerði auðvitað alvarlegar aths. við 17. gr. eins og fleiri hafa gert og lagði áherslu á að það væri, eins og hann orðaði það sjálfur, algjörlega út í hött að fela fiskmatsráði slík völd um kaup og kjör sjómanna sem vinna við erfið og hættuleg störf eins og hv. þm. orðaði það.

Það sem kannske er alvarlegast í því efni, er að fiskmatsráð sem er skipað hagsmunaaðilum eigi að vera dómari ef ágreiningur rís um mat og meðferð afla. Það er athugandi fyrir lögfræðinga á hinu háa Alþingi og eru víst allmargir skilst mér, a.m.k. úr sumum flokkum.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en ég vil samt vekja athygli á að í sambandi við þetta mál sem fjallar að hluta til um meðferð sjávarafla og hvernig bæta megi úr í þeim efnum skyldu menn minnast þess að í menntun sjómanna eða yfirmanna á íslenskum fiskiskipum er afar lítill tími ætlaður til að fjalla um meðferð á fiski og meðferð á matvælum. Miklu meiri tíma er eytt í að kenna ungum piltum að sigla eftir stjörnunum eða eftir gamaldags tækjum. Auðvitað þurfa menn að kunna að bjarga sér í strandsiglingum eins og hér við land og til Evrópulanda. Þeir hlutir eru nú ekki flóknari en það að þá má læra á tveimur, þremur dögum eða svo, það gerði ég a.m.k. á sínum tíma, að vísu klukkutímum, en ekki eru nú allir eins skarpir og ég eins og mönnum er kunnugt. (FrS: Það þarf nú skarpleika til að sigla strandsiglingu til Evrópu.) En í alvöru talað, þá er allt of miklum tíma eytt í hluti sem eru úr sér gengnir og ekki allir nauðsynlegir miðað við þau tæki og tækni sem við höfum ráð á nú til dags. Það væri miklu fremur að eyða lengri tíma í að kenna mönnum varfærni og aðgæslu og fyrirhyggju og forsjálni í þessum efnum. Því meira að segja hafa menn siglt skipum í strand sem hafa verið búin fullkomnustu siglingatækjum nútímans. En betra væri að eyða tímanum í þess stað í að kenna sjómönnum að fara sem best með fisk, hvernig eigi að fara að því og af hverju eigi að fara svona að því.

Kennsla íslenskra sjómanna hefur auðvitað verið alltof lítil. Þó að þeir læri þetta að sjálfsögðu með tímanum er auðvitað nauðsynlegt að yfirmenn á skipum sem eiga að sjá um að rétt og skynsamlega sé farið með afla fái hæfilegan tíma til að læra það af til þess hæfum mönnum. Þetta hefur ver.ð vanrækt og áhersla lögð á atriði, sem miklu minna máli skipta. Og ég vil nefna það hér og óska eftir að hæstv. ráðh. sem skilur þetta vel auðvitað hafi það í huga í sínu starfi því að ég veit að að því kemur að úr þessum hlutum þurfi að bæta og hann er auðvitað einn af líklegustu mönnum til að taka skynsamlega á þeim hlutum eins og öðru sem hann hefur þurft að takast á hendur.