23.11.1983
Neðri deild: 16. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. sjútvrh. mælti fyrir þessu frv. fyrr í dag og þegar hæstv. forsrh., hinn raunverulegi höfundur þessa frv., flutti aukaframsöguræðu snemma í þeim umr., túlkuðu báðir þetta frv. á þann veg að þetta væri nú einfalt og augljóst mál og hefði vandlega verið undirbúið og ætti þess vegna að geta átt greiðan aðgang í gegnum þingið. Það er nú komið í ljós, herra forseti, í þessum umr., sérstaklega hér í kvöld, að svo er víðs fjarri. Þetta frv. er meingallað og jafnvel stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa komið hér upp og efnislega gagnrýnt frv. á mjög ítarlegan hátt. Það fór eins og mig grunaði hér fyrr í kvöld að innan Sjálfstfl. er ekki að finna heilskiptan stuðning við þetta frv. og væri satt að segja fróðlegt að vita hvort nokkur þm. Sjálfstfl. styður þetta frv. óbreytt. Mér er það til efs.

Þessi umr. hér í kvöld hefur verið afar gagnleg vegna þess að hún hefur leitt í ljós stóra og mikla galla á þessu frv. og það sýnir á ánægjulegan hátt vit og vilja núverandi hæstv. sjútvrh. að hann skuli vera reiðubúinn til að frv. í nefnd fái að taka þeim breytingum sem þessi gagnrýna umr. hefur gefið til kynna og sé reyndar einnig reiðubúinn til að málið allt sé tekið til heillegrar skoðunar.

Og mikill var nú munurinn á þeirri efnislegu ræðu sem núverandi hæstv. sjútvrh. flutti og þessu ómerkilega blaðri sem hæstv. núverandi forsrh. og fyrrverandi sjútvrh. lét sér sæma að flytja hér úr ræðustól. Þegar á ítarlegan hátt hafði verið flutt hér inn í þingsalina lýsing á þeim efnislegu till. sem honum bárust og honum gefinn kostur á að gera þingheimi grein fyrir því hvað hann gerði í gæðamálum sjávarútvegs þegar hann var sjútvrh. og hvers vegna hann hafnaði þeim yfir 20 till. sem að honum voru réttar frá hinum vísustu mönnum fór hæstv. núverandi forsrh. að tala um það þegar ég var í Framsfl.

Í gegnum tíðina hef ég lært að þegar forusta Framsfl. er komin í rökþrot í einhverju máli fer hún að tala um það þegar ég var í Framsfl. Og því stærra sem rökþrotið er, því meiri ánægju lýsa þeir yfir því að ég skuli hafa farið úr Framsfl. Ræða hæstv. núverandi forsrh. sló mjög hátt högg á þennan mælikvarða, hvað rökþrot snertir. Um hana þarf ekki í sjálfu sér að hafa fleiri orð. Hún var einstæð og afgerandi uppgjafaryfirlýsing ráðh. sjálfs á sínum ráðherraferli í sjávarútvegsmálum. Hann hafði engin rök fram að færa, hann hafði enga skynsamlega þætti inn í umr. fram að færa. Hann gat ekki lagt þingheimi neitt efnislegt í té varðandi þessar umr. Og var mikill munur á þeirri ræðu og málflutningi núverandi hæstv. sjútvrh. Ég fer nú að skilja hvers vegna innan Framsfl. eru komnar í gang umr. um að núverandi varaformaður flokksins tæki hið fyrsta við af formanninum í forustunni. Hæstv. forsrh. sagði það að hann hefði gripið til þess ráðs að vísa þessum yfir 20 till. frá og í stað þess hefði hann í tvö ár látið menn vinna að reglugerðum. Tvö ár, — vinna að reglugerðum. Hvar eru þær reglugerðir? Þær eru hvergi. Og hæstv. ráðh. sagði að þetta frv. sem hér væri lagt fram væri lagt fram á grundvelli þeirrar skýrslu sem ég gerði hér að umræðuefni, en hann vék ekki einu orði að þessari skýrslu fyrr í dag, né hafði forgöngu um það á sínum tíma að hv. alþm. væri afhent sú skýrsla. Og vona ég að núverandi hæstv. sjútvrh., þó að hann hafi ekki vikið að því í sinni ræðu, verði við þeirri ósk minni að gefa þm. kost á því að fá þessa skýrslu í hendur.

Það er alrangt, eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur reyndar rækilega bent á hjá hv. þm. Birni Dagbjartssyni, að við Alþýðubandalagsmenn viljum óbreytt ástand í þessum efnum, og ég verð nú satt að segja að spyrja hv. þm. á hvaða fjöllum hefur hann eiginlega dvalið? (PS: Hólsfjöllum.) Á Hólsfjöllum, segir hv. þm. Pétur Sigurðsson. Alþb. hefur hvað eftir annað á undanförnum árum knúið á um að gerðar væru úrbætur í gæðamálum. Það kom rækilega fram á árinu 1982, bæði í okkar blöðum og eins hér á Alþingi, að við gerðum það að meginþætti í því samkomulagi sem þá varð um efnahagsaðgerðir að rækilega yrði tekið til hendinni í gæðamálum sjávarútvegsins. Og það var að okkar kröfum sem ákveðnum fjármunum af Gengismunarsjóði var varið til að bæta gæðamálin í sjávarútvegi. Það var Alþb. sem gerði þá till. innan þeirrar ríkisstjórnar. Og ég gæti nefnt fjölmörg önnur dæmi þess efnis. Mig undrar það að maður sem ég hélt að hefði allgóða þekkingu á því hvað hefði verið að gerast í þessum málum á undanförnum árum skuli koma hér í ræðustól og segja annað eins. Ég vék hér í minni ræðu að yfir 20 brtt. sem ég benti á að væru allar mjög skynsamlegar og hefðu allar valdið þáttaskilum ef þær hefðu verið samþykktar, en fyrrv. hæstv. sjútvrh. sá ekki ástæðu til að framkvæma. En ég vona að hv. þm. Björn Dagbjartsson hafi nú rækilega áttað sig á að það er algerlega út í hött að telja að við séum hér einhverjir talsmenn óbreytts ástands. Ég held í raun og veru ef einhver ber stjórnarfarslega og pólitíska ábyrgð á óbreyttu ástandi þá er það núverandi hæstv. forsrh. og þeir menn sem hafa gefið honum ráð um að fara ekki að þeim till. Hann nefndi ekki þá menn hér, en hann gaf það rækilega í skyn að það væru ýmsir sem hefðu gefið honum þau ráð. Það væri fróðlegt að fá ráðh. til að nefna þá menn svo að menn fengju alveg fram í dagsljósið hverjir það eru sem hafa borið meginábyrgð á óbreyttu ástandi í þessum málum á undanförnum tveimur og hálfu ári.

Það er ánægjulegt að þingmenn Sjálfstfl., bæði hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Björn Dagbjartsson, hafa nú þegar lýst því yfir að þeir geti ekki stutt frv. óbreytt. Á því verði að gera bæði breytingar varðandi 17. gr. og eins aðra efnisþætti. Og hv. þm. Björn Dagbjartsson tók það skýrt fram að 17. gr. og kannske fleira í þeim kafla væri ekki frá þeim komið sem undirbjuggu frv. (Gripið fram í: Þetta sagði ég aldrei.) Þm. sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki frá þeim komið og ég skildi hann á þann veg að það væru þeir sem hefðu undirbúið frv. en það væri þá æskilegt að þm. segði hvað hann átti við (BD: Ég undirbjó ekki frv.) Nei, ég veit það, ég var ekki að tala um þm. sjálfan þegar hann sagði að 17. gr. væri ekki frá þeim komin, — sem ég skrifaði hér eftir honum. (BD: Frá okkur komið.) Var það Sjálfstfl., hverjir voru þessir við? Ég er alveg reiðubúinn að gefa þm. tækifæri á að upplýsa það með einni setningu, sem innskot í ræðu mína. (Gripið fram í: Bíddu eftir Alþingistíðindunum, þá sérð þú hvað þú ert að segja.) Ég veit alveg nákvæmlega hvað ég sagði, en það getur vel verið að þm. finni nú að hann hafi kannske stigið á eitthvert jarðsprengjusvæði vegna þess að hann hafi upplýst að það eru einhverjir aðrir sem hafi lagt þetta til. Og það væri þá fróðlegt að vita hvaðan þessi till. er komin, hver lagði til þessa miklu breytingu. Væntanlega verður það upplýst í meðferð málsins í nefnd hvaðan þessar hugmyndir eru komnar.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson vék að því áðan að í Kanada og Noregi væri kerfi sem væri í áttina að því sem hér væri verið að leggja til. Ég dreg það mjög í efa og tel að sú skýrsla sem hann las hér örfáar setningar úr gefi ekki þá mynd. En það er ástæðulaust að deila um það hér í ræðustól. Það getur sú nefnd sem þetta fær til meðferðar skoðað allrækilega., Og það er reyndar óhjákvæmilegt í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram að nefndin fái ítarleg gögn og greinargerðir um það kerfi sem ríkir í Noregi og Kanada í þessum efnum. Og enn fremur játaði þm. því sem ég benti á hér áðan og fyrr í kvöld að þar væri kerfi þar sem kaupendur og seljendur saman mætu gæðin. Það er ekki lagt til hér. Það var að vísu sagt að við værum ekki orðnir það þroskaðir að geta tekið upp slíkt kerfi nú, þess vegna væri bara lagt til að framleiðendur ættu að annast þetta einir. Og þar með játaði þm. þann megingalla sem á þessu kerfi er ef menn á annað borð fara yfir í slíkt kerfi markaðsmats sem hér er stigið hálft skref í áttina að. Þá eiga menn að stíga það að fullu að mínum dómi því annars verður þetta aldrei annað en hálfkák með þeim hætti sem hér er lagt til.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að í 19. og 23. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að sérstakir eftirlitsmenn frá framleiðendunum skuli vinna að samræmingu mats og eftirlits ásamt yfirfiskmatsmönnum og taka þátt í yfirmati á afurðum áður en útskipun fer fram, eins og segir í 19. gr. Í frv. er ekki á nokkurn hátt útskýrt hvernig þessir tveir aðilar, annar frá framleiðendum og hinn frá því sem enn þá er haldið fram að eigi að vera óháð ríkismat, eigi að hafa jafna ábyrgð samtímis varðandi mat á söluafurðum. Annars vegar eftirlitsmaður frá framleiðendum og hins vegar yfirfiskmatsmaður og þeir eiga báðir að samræma og hafa eftirlit og taka þátt í matinu. Og ef þá greinir á á fiskmatsráðið að úrskurða sem dómstóll, skipað þeim fulltrúum og kontóristum sem hér voru raktir áðan. Og mér er til efs að þeir hafi til að bera nægilega þekkingu eða yfirsýn að þeim mönnum ólöstuðum vegna þess að engin trygging er fyrir því í frv. að þeir hafi slíkt til að bera til að geta framkvæmt réttan úrskurð.

Þannig má með mörgum rökum sýna fram á það að hér er ekki verið að innleiða það kerfi sem ríkir í freðfiskframleiðslu Íslendinga, það er mikil rangtúlkun stuðningsmanna þessa frv. Rétt er að nefndin ræði þetta kerfi mjög ítarlega og ræði við forsvarsmenn þessara fyrirtækja í trúnaði. Þá veit ég að nefndin fær upplýsingar um það sem þeir vita sem þetta hafa kynnt sér, það er því miður fjölmörg dæmi um gallaðar vörur hjá helstu sölusamtökum okkar í freðfiskafurðum. En þau dæmi hafa ekki verið auglýst, þau dæmi hafa ekki farið á síður dagblaðanna eða á öldur ljósvakans. Þeim hefur einfaldlega verið haldið til hliðar og afurðirnar afskrifaðar og beint fjárhagslegt tap fyrirtækisins þannig bókfært án þess að neitt væri verið að blása það sérstaklega út og þess vegna vita menn opinberlega miklu minna um það sem þar hefur gerst. En það er mikill misskilningur ef menn halda að það kerfi sé eins pottþétt eins og ýmsir talsmenn þessa frv. vildu vera láta hér áðan. Og má í því sambandi þó benda á að slíkt merkingarkerfi gildir við freðfiskframleiðsluna að hver einasti launamaður í hverju einasta frystihúsi í landinu hefur sína einstöku merkingu persónulega. En það er mjög erfitt að koma slíkum persónulegum merkingum við í öðrum greinum.

Herra forseti. Ég get tekið undir alla þá gagnrýni sem hv. þm Pétur Sigurðsson flutti á þetta frv. Og það má vel vera að það komi honum á óvart að þm. Alþb. skuli ekki vera talsmenn þess mikla ríkisdrottnunarvalds í atvinnumátum Íslendinga sem þetta frv. felur í sér. Það er einfaldlega vegna þess að hv. þm. hefur ekki nægilega unnið með okkur að þessum málum og hefur ekki kynnst því nægilega a1 eigin raun, heldur hefur sífellt sótt í að sækja sér samstarfsmenn þar sem hin raunverulega ríkisforsjá og forstjórastyrkur Sambandsins hefur hvílt. En hv. þm. þarf þess vegna ekki, ef hv. þm. kynnir sér málið nánar þarf hann ekki að verða neitt undrandi á að ég eða aðrir talsmenn Alþb. munum berjast hatrammlega gegn því og fyrir þeirri frjálshyggju í þessu þjóðfélagi sem tryggir raunverulegt sjálfstæði einstaklinga og launafólks við framleiðslustörfin. Því það er sú frjálshyggja sem þeir heimspekingar báðir Karl Marx og John Stuart Mills voru sammála um. (Gripið fram í.) Nei, Hayek er á öðrum báti. En eins og prófessor Ólafur Björnsson hefur ritað um er skemmra á milli Marx og Mills í þessum efnum en margir kunna að halda. Þess vegna getur samstaða um raunverulega varðstöðu — ég missti nú af þessu hjá hv. þm. (Gripið fram í: Þeir eru báðir hinum megin.) Það er rétt, þeir eru báðir hinum megin. En það er nú Jesús Kristur líka og trúir hv. þm. nú engu að síður á hann.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka hæstv. sjútvrh. fyrir þær viðtökur sem sú efnislega gagnrýni hefur fengið hér á frv. Ég segi það af fullri hreinskilni að hann brást ekki því trausti sem ég hef borið til hans hér á undanförnum árum og allra síst þegar hann upplýsti að hann hafi sjálfur haft frumkvæðið að því að Fjárlaga- og hagsýslustofnun muni skila fjárhagslegu mati á þessu frv. Og ég treysti því að hann verði reiðubúinn til að skoða þá efnislegu gagnrýni sem hér hefur þegar komið fram og mun koma fram í r.efndu máli. En hitt er svo eftir öðru og er nú því miður ekki einsdæmi að þau frv. sem hæstv. núverandi forsrh. og fyrrverandi sjútvrh. hefur aðallega undirbúið skuli koma jafn laus í reipum og jafn gölluð og illa undirbúin hér í þingsali eins og þetta frv. ber vitni um.