23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

11. mál, launamál

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Það er að bera í bakkafullan lækinn að halda áfram umr. um þessi mál svo mikið er búið að segja um þau. Ég vil þó segja strax að það væri auðvitað fásinna annað en að fagna, þó með semingi sé, þeim árangri sem náðst hefur í verðbólgumálum því þetta er sá árangur sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa lofað að reyna að ná ef þeir fengju til þess tækifæri.

Við stjórnarandstæðingar höfum hins vegar haft það að athuga við stefnu ríkisstj. að þessum árangri er náð að meiri hluta til með því að skerða laun, skerða kaupmátt launafólks í þessu landi.

Ég hef margoft lýst þeirri skoðun minni að þegar svona er gengið á hlut launamanna eins og hér hefur verið gert núna þá hafi þess ekki verið nógu vandlega gætt að líta til þeirra milliliða sem gætu lagt eitthvað af mörkum til baráttunnar gegn verðbólgunni.

Við höfum margoft lýst því yfir, Alþfl.-menn, og alveg frá árinu 1978 vöruðum við mjög alvarlega við þeirri efnahagsstefnu sem hafði verið tekin upp hér í landinu og rekin um nokkurt ára bil. Við sögðum þá að það yrði að taka upp gjörbreytta efnahagsstefnu ef ekki ætti að sigla þjóðarskútunni upp á sker.

Því miður var ekki hlustað á viðvaranir okkar, hvorki um þá ógnarlegu fjárfestingu sem þá átti sér stað í þjóðfélaginu í formi skipakaupa og annarra þátta né var heldur hlustað á okkur þegar við ræddum um að það þyrfti að stokka upp sjóðakerfið og draga úr sjálfvirkni þess. Það var ekki hlustað á okkur þegar við vöruðum við því að það yrði að stöðva eða draga úr erlendum lántökum og það var ekki hlustað á okkur yfirleitt þegar við töluðum um það að það yrði að gera mjög harkalegar aðgerðir til þess að vinna bug á verðbólguógnvaldinum. Að mörgu leyti fagnaði ég þeirri ákveðnu stefnu sem núv. hæstv. ríkisstj. beitti til að kveða verðbólguna niður. En ég endurtek það enn á ný að ég var hvergi nærri sammála þeim aðferðum sem við þetta var beitt vegna þess að þær voru of einhæfar. Ég taldi og tel enn að það hefði mátt m.a. draga úr ýmsum kostnaðarþáttum milliliða í þjóðfélaginu og langar að fara um það nokkrum orðum.

En áður en ég kem að því þá langar mig að segja það að í öllum umr. um vísitölu og vísitölubindingu launa þá hafa menn farið offari í þá veru að þeir, sem hafa varið óbreytt vísitölukerfi, hafa gert það að mínu mati á röngum forsendum en hinir, sem hafa mótmælt því, hafa gert það einnig á mjög veikum forsendum.

Ég vil m.a. skjóta því hér inn í þessa umr.Alþfl.menn hafa um langt árabil rætt um þjóðhagsvísitölu og m.a. skrifaði dr. Gylfi Þ. Gíslason, fyrrv. alþm. og ráðh., merka grein um hana og hvernig mætti nýta hana til þess að mæla betur en nú er gert þjóðartekjur og hvað ætti að koma í hlut hins vinnandi manns í þjóðfélaginu samkv. þeim.

Ef við virðum aðeins fyrir okkur hvað er að gerast í samfélaginu í kringum okkur þá er það einfaldlega það að geysilega stórir hópar þurfa ekki að bera neinar byrðar vegna þeirra aðgerða sem ríkisstj. hefur nú beitt sér fyrir. Það eru stórir hópar í þjóðfélaginu sem hafa allt sitt á þurru og þetta vita þm. jafnt í stjórn sem stjórnarandstöðu. Það er okkar að reyna að finna leiðir til þess að láta þessa hópa bera byrðarnar með tekjulægsta fólkinu í þjóðfélaginu.

Ég vil benda á það að milliliðir, sem ég kalla svo eins og t.d. fyrirbæri sem heitir Íslenskir aðalverktakar, hafa allt sitt á þurri í árferði eins og nú er og ég vildi beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. hvort hann gæti látið þingheimi í té, sem aðili að Íslenskum aðalverktökum í gegnum eign ríkisins í fyrirtækinu, upplýsingar um það hvort rétt kunni að vera að Íslenskir aðalverktakar eigi á bankareikningum í Landsbanka Íslands um 400 millj. kr. á sama tíma og þetta fyrirtæki er að reisa þvílíka höll á Ártúnshöfða að annað eins hefur varla sést hér á landi, höll, sem að innan er klædd marmara og harðviði og íburðurinn slíkur að dæmafátt er.

Ég held að það væri hollt fyrir þjóðina að fá að vita hvað svona fyrirtæki eigi á bankareikningum. Og spurningin er, þegar hv. þm. Svavar Gestsson og félagar hans í Alþb. tala um sjóðakerfið, að það sé hægt að ganga í eitthvert sjóðakerfi og sækja þangað peninga, um hvaða sjóðakerfi þeir eru að tala um. Ég held að þarna sé sjóðakerfi á ferðinni sem væri hægt að líta örlítið betur á og ég vildi bara skora á þá menn sem með stjórn landsmála fara að þeir upplýsi hvað svona fyrirtæki eiga af peningum í bönkunum. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að fyrirtæki, sem hefur verkefni út á samninga sem ísi. ríkið gerir og er helmingaskiptafyrirtæki Framsfl. og Sjálfstfl., skuli geta safnað þessum auði á meðan Sóknarkonan verður að láta sér lynda 12 þús. kr. á mánuði. Þetta eru þverstæðurnar og andstæðurnar í ísl. þjóðfélagi í hnotskurn og þetta er það sem mér gremst mest af öllu. Ég get ekki sagt orð við því að launamaðurinn taki á sig byrðar, ef hann er fús til þess sjálfur, til þess að draga úr verðbólgu en ég geri kröfu til þess á sama tíma að fyrirtæki á borð við Íslenska aðalverktaka beri sinn hlut af byrðunum líka.

Og ég vil segja það enn fremur að mér þykir það skjóta mjög skökku við að fyrirtæki, sem rekin eru beint eða óbeint í tengslum við samvinnuhreyfinguna, skuli fjárfesta jafn gífurlega á erfiðleikatímum og þau gera nú. Hér er búið að reisa á örskömmum tíma mjólkurbú sem geta unnið tíu sinnum úr allir þeirri mjólk sem framleidd er á Íslandi. Osta- og smjörsalan er búin að reisa höll. Það er nýbúið að reisa skrifstofu- og verslunarhúsnæði fyrir Kaupfélag Árnesinga á Selfossi, gífurlega byggingu. Þetta er allt verslunar- og skrifstofuhúsnæði og af hverju hefði ekki mátt segja við Kaupfélagið og samvinnuhreyfinguna: Herrar mínir, dragið þið nú aðeins úr ferðinni á meðan ástandið er eins og það er. Sparið okkur þessa peninga, setjið þá í eitthvað annað, eitthvað arðbært, atvinnuvegina, hjálpið einstaklingunum að byggja upp nýjar atvinnugreinar.

Það er svo komið í þessu landi að einstaklingar, sem vilja byggja upp nýjar atvinnugreinar, geta það ekki af fjármagnsskorti og það eitt sér er mjög alvarlegt því að eina aðferðin, sem við höfum í dag, til þess að renna stoðum undir bjartari framíð þessa þjóðfélags er að byggja upp nýja atvinnuvegi. Önnur aðferð er ekki til, aðrar leiðir eru ekki færar og þetta vitum við allir.

Ég held, virðulegi forseti, að þetta ásamt með botnlausum söluskattssvikum, sem eiga sér stað í þjóðfélaginu, sé eitt af því alvarlegasta sem við er að eiga. Og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að gera einhverjar ráðstafanir til þess að draga úr þessum söluskattssvikum sem eiga sér stað hér. Þau eru orðin svo geigvænleg að engu tali tekur.

Þessi svokallaði svarti atvinnurekstur nær sér ekki bara í söluskattslausar tekjur heldur gerir hann annað. Hann stelur ekki bara þessum tekjum frá ríkissjóði heldur verður þess valdandi að það verður að leggja hærri skatta á einstaklingana í þjóðfélaginu sem bera tekjuskattinn sem er orðinn algjör launamannaskattur og þjónar engum öðrum tilgangi. Það er ekki hægt að ná honum af nokkrum öðrum en launamanninum, þessum skatti, sem átti að vera launajafnandi skattur þegar hann var lagður á upphaflega.

Ég verð að segja það að ég hef haft mjög mikla samúð með tilraunum hæstv. núv. ríkisstj. til að keyra niður verðbólguna. Ég hef haft umtalsverða samúð með henni og ég vil að henni takist það. Það er algjört grundvallaratriði til þess að þetta þjóðfélag, sem nú er komið að fótum fram í peningalegu og efnahagslegu tilliti, geti átt von á því að byggja upp aftur það sem eyðilagt hefur verið. En ég hef, eins og ég sagði, haft mjög alvarlegar þenkingar uppi um það að við höfum vegið í sama knérunn aftur og aftur. Það er launamaðurinn sem verður að taka þetta á sig og það er aðallega sá sem lægst launin hefur.

Hæstv. forsrh. nefndi hér áðan skoðanakönnun sem Hagvangur hefur gert og í sjálfu sér kom niðurstaða hennar mér ekkert á óvart: að fólkið í landinu sé tilbúið að taka á sig umtalsverðar byrðar til þess að kveða niður verðbólguna, til þess að lækka vexti. Það er ekkert undarlegt við það. En ég vil segja við hæstv. ríkisstj.: Hversu lengi endist þolinmæði þessa fólks? Og það, sem ég óttast mest af öllu, er að þegar næsta ár gengur í garð þá verði ekkert það fram undan sem geti boðað hinum vinnandi manni í þessu landi betri kjör ekkert nema minnkandi verðbólga vegna þess einfaldlega að mér sýnist á öllu að ef fram heldur sem horfir og með þá aflaminnkun sem ég held að sé borðliggjandi þá verði að fara að tilkynna verkalýðshreyfingunni það að kaupmáttarrýrnun verður áfram ekki minni en nú er. Þetta held ég að þurfi að fara að segja fólkinu í landinu og þess vegna er það að ég tala um þessa milliliði. Það eru þessir milliliðir sem launafólkið í landinu sér að hafa allt sitt á þurru. Þeir verða ekki fyrir neinum skakkaföllum — ekki nokkrum. Það er byggt áfram, það er fjárfest áfram, þeir fara öllu sínu fram. Eðli málsins samkvæmt, þar sem um er að ræða helmingaskiptastjórn alveg dæmigerða sem verður að verja hagsmuni stórra þjóðfélagshópa, þá hlýtur þessi stjórn að halda uppi vörnum fyrir ákveðna milliliðahópa í þjóðfélaginu, verja þá gegn skakkaföllum eins og raun ber vitni um að hefur verið gert.

Ég vil líka segja það á þessari stundu að núv. hæstv. ríkisstj. hefur ekkert verkefni verðugra en að reyna að byggja upp nýjar atvinnugreinar hér. Því verði það ekki gert — og ef við ætlum að sigla áfram sömu stefnu, sama kúrs og við höfum gert að undanförnu — þá er miklu, miklu erfiðara að ná sér upp úr því fari sem við höfum verið í.

Virðulegi forseti. Ég reyni að lengja ekki þessa umr. en verð að segja það að auðvitað á maður ekki að horfa allt of mikið til fortíðar og það kemur að því að menn verða að leggja til hliðar þau ágreiningsefni sem hafa skapast í fortíðinni og eru kannske enn þá til sem slík. Ég vil minna á það af því að frá 1978, eins og ég sagði, barðist. Alþfl. fyrir því sem hann kallaði gjörbreytt efnahagsstefnu. Það var ekki hlustað á okkur, því miður, og því er komið eins og komið er — nánast hvert einasta atriði. Ég var um daginn að líta yfir ræður sem ég flutti á kosningafundum 1978 og 1979, viðvaranir sem við bárum fram þá, nærri hvert einasta atriði hefur komið fram. Og það, sem er auðvitað sárgrætilegast að horfa upp á, er að ýmsir af þeim mönnum, sem áttu hlut að máli við að sigla skútinni í strand, eru að reyna að draga hana á flot núna, menn, sem báru bæði beint og óbeint ábyrgð á þeirri stefnu sem rekin var hjá hv. síðustu sálugu ríkisstj.

En ég held að það sé orðið verulega tímabært að menn geri sér nokkra grein fyrir því að við bætum ekkert ástandið með því að standa í hnútukasti um það sem gert var í fortíð heldur hlýtur það að vera mikilvægasta atriðið núna að menn í raun og veru sameinist um það sem allir segja í orð, en þurfa að framkvæma á borði að láglaunafólkinu í þessu landi, iðjukonuna í SÍS-verksmiðjunum á Akureyri, Sóknarkonunni hér í Reykjavík, sem hefur það þó nokkru skárra í flestum tilvikum, og láglaunahópunum í Verkamannasambandinu, verði tryggt nokkurt tekjulegt öryggi. Ég segi nokkurt tekjulegt öryggi vegna þess að öryggisleysi láglaunafólks núna er óskaplegt — ég tala nú ekki um hópa fólks, ungs fólks í þjóðfélaginu, sem skulda umtalsverða peninga í lánakerfinu. Þá erfiðleika þekkir hver og einn og það er þetta fólk sem við verðum, hver og einn hér á þessu þingi, að aðstoða. Annað væri hrein fásinna og ég vil ekki ætla hæstv. núv. ríkisstj. svo illt að hún ætli sér ekki að reyna að létta undir með þessu fólki því verði það ekki gert með þau vandamál, sem nú við blasa, og það atvinnuleysi sem ég tel því miður að sé fram undan þá veit ég ekki hvar við stöndum. Það er nánast eins og að kveikja í tundurþræði sprengju ef hlutur þess fólks verður ekki bættur.

Og ég vil segja það við þá menn sem nú berja sér á brjóst í ráðherrastólum og segja að þjóðin verði að herða sultarólina gömlu: Herrar mínir, sýnið þið nú þjóðinni fram á að þið eruð sjálfir tilbúnir að herða sultarólina og gerið það með öllum þeim tiltæku ráðum sem þið hafið á hendinni, jafnvel persónulega. Því að ég er ansi hræddur um að á sama tíma og menn boða öðrum erfiðleika en sýna í framferði sínu eitthvað annað en það að þeir sjálfir þurfi að eiga von á að standa í fjárhagslegum erfiðleikum þá verði bara ekki tekið nógu mikið mark á þeim.

Virðulegi forseti. Það þjónar svo sem ekki miklum tilgangi að ræða þessi mál lengur. Ég vildi koma til skila þeirri skoðun minni að á sama tíma og gengið er nánast eingöngu á launaliðinn, á kjaraliðinn hjá launafólkinu í landinu og nánast er eingöngu um kaupmáttarrýrnun að ræða sem undirstaða þess að verðbólgan hefur verið keyrð niður þá krefst ég þess að það verði litið til þeirra milliliða sem ég nefndi hér áðan. Ég krefst þess að ríkisstj. komi fram með þær upplýsingar sem segja okkur hvort það er rétt eða rangt að Íslenskir aðalverktakar eigi 400 millj. í Landsbankanum og ég vil að ríkisstj. segi við samvinnuhreyfinguna og kaupfélögin að slappa nú af, draga úr byggingarframkvæmdum, draga úr fjárfestingum. Ég vil að ríkisstj. segi við ríkisbankana sem þeir ráða yfir: Dragið úr ykkar framkvæmdum og fjárfestingu. Þetta verður að gera alls staðar úti í þjóðfélaginu. Það er ekki að marka það ef menn segja í einu orðinu að það verði að leggja byrðar á fólkið en þeir leggja þær ekki nema á launafólkið.