23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

11. mál, launamál

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið — seinast í Nd. — þá er BJ á móti þeim lögum sem hér er verið að fjalla um. Þessi lög komu reyndar BJ ekkert á óvart frekar en öðrum en þrátt fyrir það þá var aldrei talað um þær ráðstafanir, sem hér eru á ferðinni, fyrir kosningar; það var kosið um allt aðra hluti. Sumir vöruðu reyndar við þeirri hættu að krukkað yrði í kaupið en reyndar grunaði engan að það krukk yrði með jafngrófum hætti eins og fram kom. Eftir kosningarnar var ekki fyrri ríkisstj. lengur um að kenna hvernig hlutum var komið hér í þessu landi. Það var bílífi launamanna sem orsakaði þetta allt saman. Og launamennirnir kiknuðu í hnjánum og tóku við þeim skelli sem þeir urðu fyrir. Að vísu hefur þetta frv. reyndar verið mildað að því leyti að nú mega menn setjast að samningaborði en menn mega ekki semja um hvað sem er. Menn mega sem sé ekki miða launaákvarðanir sínar við dýrtíðarbætur af nokkru tagi. Þessi grein laganna felur í sér beina viðurkenningu þessarar ríkisstjórnar á því að hún trúir sjálf ekki fyrir fram yfirlýstum markmiðum. Því að hvaða ógagn gæti verið að dýrtíðarbótum ef verðbólgan á annað borð væri orðin ekki neitt.?

Það má líka minna á það, þann undarlega misskilning, sem fellst líka í þessu frv. að íslenski launafólk skammtar sér ekki laun sín sjálft; það eru atvinnurekendur og ríkisvaldið. Og eins og hv. 5. þm. Norðurl. e. minntist á hér áðan þá eru það auðvitað ekki launþegarnir sem bera ábyrgð á því ástandi sem við búum nú við. Auðvitað er það rétt að það hefur ríkt hér óstjórn en þessar aðgerðir, sem hér er verið að fjalla um, eru bara ýkt. mynd þeirra aðgerða sem beitt hefur verið undanfarin ár og flestallir, sem hér eru inni, hafa kallað óstjórn. Ég sagði áðan að kaupkrukkið hefði virkað á menn eins og rothögg. Ég tek líka undir með hv. 5. þm. Norðurl. e. að maður hefði gjarnan viljað sjá sama rothögg greitt í garð milliliðanna sem eiga að bera og bera náttúrlega miklu meiri ábyrgð á því ástandi sem hér er verið að fjalla um.

BJ lýsti því yfir fyrir tæpu ári síðan að það væri stofnað til höfuðs ísi. stjórnmálaflokkum, þ.e. flokkakerfinu. Við höfum lagt mjög ríka áherslu á það að stjórnkerfisbreytingar séu eina leiðin til þess að hægt sé að ráða við þau málefni sem hér er verið að fjalla um. Og í því tilefni þá er kannske ágætt að minna á það hvers vegna menn reiddu ekki til höggs gegn Íslenskum aðalverktökum, gegn bönkunum, gegn SÍS, gegn skipafélögum og svo gæti ég haldið lengi áfram að telja. Það er vegna þess að þeir flokkar, sem sitja hér við stjórn, eiga svo sterk ítök í þessum stóru og fjárfreku fyrirtækjum að þeim er ómögulegt að fikta við eða krukka í þeirra hag eða afkomu. Báðir eiga flokkarnir sterk ítök í Íslenskum aðalverktökum, báðir eiga flokkarnir sterk ítök í bönkunum, annar flokkurinn á sterk ítök í SÍS, hinn flokkurinn á mjög sterk ítök t.d. í Eimskip.

Það hlýtur að fara að renna upp fyrir fólki að íslensku efnahagslífi verður ekki bylt fyrr en búið er að bylta íslensku stjórnmálalífi.