18.10.1983
Sameinað þing: 5. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. var hneykslaður á því að ég skyldi geta um gengislækkun eða gengisbreytingar, sem fyrirhugaðar væru eða hætta væri á, og aftók með öllu að svo væri. Færi betur að sjútvrh. stæði við þessi orð sín, þó hann sé ekki alveg eins ákveðinn í orðum þegar hann talar við útgerðarmenn og þegar hann talar hér. En við skulum vona að hann standi við þessi orð sín, og hann verði ekki jafnundrandi og hans formaður hæstv. forsrh.

Hæstv. forsrh. er einn undarlegasti maður sem ég heyri í. Hann er alltaf undrandi. Hann var stórkostlega undrandi á, þegar hann kom úr vinstri stjórninni, hvernig ástandið væri. Og nú er hann að lýsa því yfir að það hafi verið byggð þetta og þetta mörg sláturhús, að mér skilst í tómri vitleysu. Hann var þá landbrh. Þegar hann kom úr síðustu ríkisstjórn var hann forundrandi á því hvað var búið að kaupa marga togara. Hann var sjútvrh. Og meira að segja sagði hann: Jú, það var rétt, ég pantaði nú tvo togara, en ég var bara búinn að gleyma því. — Fyrir utan hina.

Það má náttúrlega leika þessa plötu ár eftir ár að láta alltaf alla hluti koma sér á óvart og tala svo af hjartans sannfæringu um að það sé verið að koma öllu í lag. Þessi maður, hæstv. ráðh., hefur alltaf verið að koma öllu í lag og þegar hann er búinn að koma öllu í lag, þá er hann svo forundrandi á að allt skuli vera komið í algjöra hönk. M.a.s. er hann mest undrandi á þeim togurum sem hann keypti sjálfur og það þarf að minna hann á, því hann er búinn að gleyma hverja hann keypti.

Ég er orðinn leiður á þessum málflutningi. Og ég held að þjóðin sé búin að fá nóg af þessu hjá hæstv. forsrh. Ég held að hann ætti að fara að taka upp aðrar áróðursaðferðir en þessa forundran á eigin verkum. (Gripið fram í: Hver skaut undir hann stólnum?) — Það er ekki til sóma fyrir neinn sem skaut undir hann stólnum.

En það sem ég ætlaði að koma inn á var það, góðir hlustendur, að nýlokið er þingum Verkamannasambands Íslands og Landssambands verslunarmanna. Ályktanir þessara sambanda eru í meginatriðum þær sömu. Verkamannasambandið leggur áherslu á að gert verði bráðabirgðasamkomulag sem hækkar lægstu laun. Það mótmælir þeim höfuðósannindum, þó ýmsir erfiðleikar steðji að þessari þjóð, að það sé ekki hægt að borga nema tæp 11. þús. kr. í kaup á mánuði. Vonlaust er með öllu fyrir eina fyrirvinnu að sjá fyrir heimili og vinna kvenna með börn held ég að sé komin í mörgum tilfellum út í hreinar öfgar, enda í mörgum tilfellum hreint neyðarúrræði.

Það sem við erum að gera er að við erum að bjóða upp á skammtímasamninga til úrbóta fyrir þetta fólk. Ef ríkisstj. er svona hrædd um að slíkar kjarabætur lendi hjá öðrum en þessu láglaunafólki, þá er sjálfsagt að ræða við hana um hvernig eigi að halda á þessum samningum, hvernig hún vilji tryggja að kjarabætur komi til þessa láglaunafólks og jafnframt hvernig verðbætur eigi að vera. Það er enginn að heimta gamla vísitölu eða gamalt vísitöluform. En reyndin hefur bara verið sú, að Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasambandið hafa alltaf tryggt að þeir sem væru á hæstu laununum fengju alltaf fullkomlega það sem þeir fengju sem væru á lægri launum. Það eru ekki kröfur verkalýðsfélaganna. Það hefur samt alltaf verið gulltryggt að hjá báðum þessum samböndum hefur verið léttara að semja fyrir þau félög sem hafa mun hærri laun.

Sannleikurinn er sá, að Vinnuveitendasambandið hefur nú svarað beiðni, kröfu Verkamannasambandsins um bráðabirgðasamkomulag fyrir þá sem eru á lægstu launum. Þeir mega ræða við okkur fullkomlega frjálst og það er enginn að krefjast þess að þetta gangi yfir allan launastigann og við biðjum um að það fari ekki út í allt verðlag eða yfir allt þjóðfélagið, — að ef einhver ákveðin kauphækkun kemur, þá komi hún ekki í prósentum til ráðh. og annarra slíkra. Það er þetta sem boðið er upp á. Vinnuveitendasambandið var fljótt að neita í kvöld. Og sjálfur bannpostulinn, hæstv. forsrh., hefur boðið upp á að það mætti semja, ræðast við, ef það væri bara gulltryggt að það yrðu engir samningar. Ja, þvílíkt boð!

Það er kaldhæðni örlaganna að Framsfl., sem kallar sig flokk samvinnumanna, frjálslyndan milliflokk, gerði þá kröfu við myndun ríkisstj. að það væri bann við samningsfrelsi og samningsrétti verkalýðsfélaga í eitt og helst í tvö ár. Og kaldhæðnin var svo mikil að það var sjálft íhaldið sem neitaði því og gat þvingað Framsfl. niður í átta mánuði, en vísitalan var bönnuð í tvö ár.

Kom á eftir þessu verðstöðvun? Þeir eru að líkja þessu við Noreg. Það kom sú hrikalegasta verðhækkunarskriða sem komið hefur um árabil, sem hefur gengið yfir landsfólkið í sumar, sem hefur skert hlut launafólks, jafnt þeirra sem eru á lægstu launum og þola það verst, um a.m.k. 25% og það á eftir að fara upp í 30% fyrir 1. febr. Og síðan á að koma gullöld á næsta ári!

Ef kaupmátturinn hefur verið 100 árið 1982, þá verður hann 74 í lok þessa árs. Og þó svo að við tökum hæstv. sjútvrh. alvarlega og engin gengislækkun verði, þá verður kaupmátturinn um 63–64% í lok ársins 1984. Sem sagt: kauplækkunin, kaupmáttarrýrnunin, heldur áfram. Og m.a. s. skattarnir hækka líka. Það er eftir kröfu Framsfl. sem þetta gerist. Og ég endurtek: Kaldhæðnin er svo mikil að það verður að vera sjálft íhaldið sem aðeins reynir að hamla þarna á móti.

Tími minn leyfir ekki að ítarlega sé farið út í þessi mál, þó að það væri ósköp freistandi. Framsfl. hefur rekið landbúnaðarpólitík á Íslandi. Bændur eru ekki of sælir í þessu landi. En SÍS hefur náð undirtökunum á vinnslustöðvunum. Sláturhús eru byggð villt og brjálað og það er lítil hagsýni í þeim vinnubrögðum. Mjólkurstöðvar og dreifing er í höndum SÍS og sala á landbúnaðarafurðum til útlanda. Þetta er kerfi sem er sjálfvirkt, bundið inn í verðlag landbúnaðarafurða og bundið hjá SÍS. Og það að þeir vilja hafa sjávarútvegsmálin er vegna þess að þeir vilja binda þetta fasta kerfi við sjávarútveg líka, SÍS-kerfið. Sjálfstfl. beygir sig að sjálfsögðu: Það verður að vera samstarf og það þarf á einhvern hátt að ná saman, segja þeir.

En ég vil aðeins segja: Í hvað hefur gengishagnaði verið varið að undanförnu? Honum hefur fyrst og fremst verið varið í það að bjarga gjaldþroti ýmissa framsóknarfyrirtækja — fyrirtækja eins og togaraútgerðarinnar á Hólmavík. Fólk á Hólmavík á allt gott skilið, en þessi vinnubrögð voru algjört ráðleysi, enda var hæstv. forsrh. aðeins að reyna að bjarga sínu kjördæmi eða styrkja sig eitthvað í því. — Hann bjargar reyndar ekki kjördæminu. Það er vafi hvaða greiða hann hefur gert fólki þarna.

Svona eru vinnubrögðin og þessu eru þeir að reyna að ná: Þeir eru að reyna að ná samkomulagi við Sjálfstfl., 50% af embættum, 50% af bankastjórum, 50% af bankaráðsmönnum, 50% af innflutningi. — Og ég sé að hæstv. sjútvrh. er hinn kátasti. Þetta virðist ganga vel.

Ég vil aðeins segja það við almennt verkafólk: Látið ekki segja ykkur þá höfuðlygi, þó ýmsir erfiðleikar steðji að þessu þjóðfélagi, að það sé ekki hægt að borga meira en 11 þús. í kaup fyrir fulla dagvinnu á mánuði. Það er hægt. Og við skulum hvorki láta forsrh. né kröfuna um helmingaskipti Framsóknar hræða okkur þar frá einu eða neinu. Íslenskt atvinnulíf, íslenskt þjóðfélag, íslenskt réttlæti krefst þess bókstaflega að hlutur þessa fólks verði réttur. Og það er hægt að rétta hann við ef fólk bara lætur ekki hræða sig og sé þess minnugt að þó menn séu kokhraustir hér á Alþingi, þá eru ráðherrastólar býsna brothættir. Það skyldi nú aldrei vera að samtök hins almenna verkafólks eigi eftir að reynast býsna drjúg í þessari baráttu.

En hitt vil ég segja að lokum og munið þið það og munið þið það vel: Við skulum fylkja okkur öll saman. Það er hægt að bæta kjör láglaunafólks. Ef ríkisstj. er svona hrædd um að þær kjarabætur fari til hálaunamanna skulum við semja um að þær verði bundnar við fólk á þessum lágu launum. Og sannið þið til, að ríkisstj. mun neita eins og forsrh. hefur neitað. En það er hægt að snúa þessum köllum við. Það hef ég trú á að íslenskur almenningur eigi eftir að gera.