23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir að þessi hv. deild hefur tekið þetta mál til 1. umr. með afbrigðum. En það er með þetta mál, að fyrir 30. nóvember þarf það að verða að lögum ef Alþingi vill samþykkja.

Hér er til umr. frv. til l. um heimild til hækkunar á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Eins og fram kemur í grg. með frv. er lagt til að ríkisstj. sé heimilt að hækka kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum úr 43.5 millj. SDR í 59.6. Hér er um að ræða áttundu almennu hækkunina á kvóta Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gert ráð fyrir að hann hækki úr 61 milljarði SDR í 90 milljarða og einnig verði hækkun á kvóta Íslands, eins og ég gerði grein fyrir áðan. Af aukningunni er fjórðungur greiddur í SDR, en 3/4 hlutar í ísl. kr. Sá hluti kvótaaukningar sem greiddur er í SDR greiðist af Seðlabankanum og myndar sérstaka gjaldeyrisinnstæðu hjá sjóðnum, en telst áfram til gjaldeyrisforða Seðlabankans. Það er tvímælalaust Íslandi í hag að taka þátt í þessari almennu reglubundnu hækkun þar eð hún eykur möguleika Íslands á hagstæðum lántökum hjá sjóðnum um margfalda þá upphæð sem lögð er fram í gjaldeyri og viðheldur atkvæðavægi landsins í stjórn sjóðsins.

Þessi kvótaaukning var samþykkt af yfirstjórn sjóðsins á þessu ári, 31. mars s.l. Eins og ég gat um áðan rennur sá frestur út, sem einstök aðildarríki hafa til þess að staðfesta aukninguna, hinn 30. nóvember n. k.

Við umr. málsins í hv. Nd. var gerð fsp. til mín þess efnis, með hvaða fjármagni Seðlabankinn greiddi þessa fjármuni. Ég svaraði því þá, að hér yrði tekið af gjaldeyrisreikningum Seðlabankans, en til staðfestingar óskaði ég eftir því að fá frá Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra skriflega grg. fyrir þessu og fékk hana í dag. Það var gerð grein fyrir henni í hv. Nd. og ég leyfi mér að gera það hér og nú til þess að það sé öllum ljóst, með leyfi forseta, en þar segir:

„Þegar kvótahækkun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur til framkvæmda, sem væntanlega verður fljótlega, á Seðlabankinn að greiða 1/4 kvótahækkunar í sérstökum dráttarréttindum. Hér er um að ræða 4 millj. SDR, sem jafngilda 4.23 millj. dollara eða u.þ.b. 120 millj. ísl. kr. Gagnvart sjóðnum má inna greiðsluna af hendi í dollurum eða með öðrum yfirfæranlegum gjaldmiðli. Seðlabankinn mun inna þessa greiðslu af hendi með þeim hætti að yfirfæra ofangreinda fjárhæð í dollurum af reikningi sínum hjá Federal Reserve Bank í New York yfir á reikning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Eins og áður hefur komið fram er framlagsfé þetta til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til frjálsrar ráðstöfunar Seðlabankans hvenær sem nauðsynlegt er vegna gjaldeyrisþarfa landsins. Með tilliti til þess hvernig staðan er nú er því líklegt að Seðlabankinn muni þegar í stað eða mjög fljótlega taka þessa fjárhæð út af framlagsreikningi sínum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og flytja hana aftur á reikning sinn við sama banka í New York. Greiðsla framlagsins mun því engin áhrif hafa á greiðslugetu Seðlabankans erlendis“.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Hér er um að ræða frv. sem hefur verið til meðferðar og var fjallað um af hálfu síðustu ríkisstj. og það er skoðun núv. ríkisstj. að það skuli ganga fram. Er auðsjáanlegt af því sem ég hef hér sagt að um er að ræða hagsmuni fyrir Ísland.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og fjh.og viðskn. Og vísa til þess sem ég sagði áðan um lögfestingu ef virðuleg deild felst á að frv. verði að lögum.