23.11.1983
Efri deild: 20. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

44. mál, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Líklega er þetta bara gott mál og lítið við það að athuga. Það voru reyndar einhvern tíma endur fyrir löngu, líklega um 1979, samþykkt lög í þessu landi um að ekki skyldi leggja fram neitt frv. öðruvísi en með því fylgdi kostnaðaráætlun og hefur því, alla vega í málflutningi hér, verið bætt um betur miðað við mörg þau frv. sem hér liggja frammi. Maður veit þó hvað þetta kostar. Þetta kostar ekki neitt. En það er eitt í þessu sambandi sem truflar mig dálítið og mig langar til að spyrja dálítið nánar út í.

Mér hefur skilist á hæstv. ríkisstj., að eitt af því sem hún ætti ekki að gera sé að auka erlend lán þess góða lands sem við búum í. Yfirdráttarréttindi eru náttúrlega ekkert annað en möguleiki til lántöku. Ég á ekki von á að hæstv. fjmrh. fari að nota þennan aukna lánsmöguleika til neins annars en að breyta þeim lánum sem eru útistandandi í eitthvað sem þolanlegra er að bera en mörg þeirra lána sem landsmenn eru nú að kikna undir. Þá langar mig til að spyrja hæstv. fjmrh. eða viðskrh., eftir því hvor á betra með að svara, hvort menn séu farnir að gera sér einhverjar hugmyndir um hvernig eigi að nota þessi yfirdráttarréttindi þegar þau eru fengin.