24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Landhelgisgæsla okkar er ekki aðeins mikilvæg vegna gæslu okkar fiskimiða, heldur einnig vegna öryggis sjómanna á hafinu og í strjálbýli landsins. Þannig háttar til nú eftir því sem ég hef fengið upplýst, að tvö skip munu vera á miðunum, annað fyrir Vestfjörðum og Vesturlandi, hitt fyrir Austurlandi og Suðurlandi. Skipin hafa verið undanfarið nokkuð upptekin vegna atburða sem öllum er kunnugt um. Ég hafði í morgun samband við bæði forstjóra Landhelgisgæslunnar og dómsmrh. út af þessu máli, sérstaklega eftir að mér barst vitneskja um það í morgun frá sjóslysanefnd og formanni Sjómannasambandsins, og spurðist fyrir um það hjá Landhelgisgæslunni hvort ekki væri mögulegt að eitt varðskip væri í nálægð flotans vegna þess að í hönd fer erfiðasti tími ársins. Þarna eru válynd veður og mikilvægt að varðskip geti verið til taks ef slíkt er mögulegt til að auka öryggi, því að aldrei vita menn hvað getur gerst. Ég hafði einnig samband við hæstv. heilbrrh. og bað hann að athuga hjá landlækni hvort það gæti verið mögulegt að læknir væri um borð í varðskipi.

Herra forseti. Ég vissi ekki um það fyrr en ég gekk í salinn að hér ætti að verða umr. utan dagskrár, þannig að ég hef ekki getað haft aftur samband við þessa aðila, en það var ákveðið í morgun að athuga þessi mál þá þegar. En það er alveg rétt, eins og hér hefur áður komið fram, að það hefur oft verið svo að varðskip hefur verið með flotanum. T.d. var það svo þegar loðnuveiðar voru stundaðar við Jan Mayen og jafnvel þótt flotinn hafi verið nær landi hefur það einnig verið svo. Ég tel sjálfsagt, þegar eins stendur á og nú á haustdögum, að það sé reynt að verða við beiðnum eins og komu fram hjá hv. þm.