19.10.1983
Efri deild: 7. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

24. mál, tollskrá o.fl.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Um þetta mál má auðvitað ýmislegt gott segja. Þarna voru lækkaðir tollar á ýmsum vörum til heimilishalds. Hins vegar vaknar sú spurning, hvort óhjákvæmilegt og nauðsynlegt hafi verið og hvort brýna nauðsyn hafi borið til að notfæra sér ákvæði stjórnarskrár og heimildir um útgáfu brbl. til þess að lækka toll á þurrkuðum döðlum og nýjum og þurrkuðum fíkjum og makkarónum, spaghetti o.fl. Ég held að þessar vörur vegi nú ekki ýkjaþungt í heimilishaldi hjá öllum þorra fólks. Það væri satt að segja fróðlegt að fá skýringar hæstv. fjmrh. á því hvers vegna þetta var sérstaklega valið. Nú fullyrði ég það, að þetta vegur ekki þungt í útgjöldum venjulegra fjölskyldna. Einhverjar ástæður hljóta að hafa legið því að baki að þetta var sérstaklega tekið út úr.

Ég fagna því hins vegar, að hér hefur verið lækkaður tollur á ýmiss konar áhöldum, búsáhöldum, borðbúnaði og ýmsu þvílíku. Það vorum við Alþfl.-menn búnir að gera till. um á síðasta þingi.

Þó að þetta sé auðvitað góðra gjalda vert og það beri hreint ekkert að vanmeta vekur þetta samt athygli á því að að þessum málum er unnið af hreinu handahófi í stað þess að taka þessi tollskrármál til heildarendurskoðunar og þannig að það gæti nokkurs samræmis þegar við þessum málum er hreyft í stað þess að velja úr af handahófi hluti sem sumir hverjir skipta heimilin verulegu máli og þá einkanlega, eins og hæstv. fjmrh. réttilega sagði, ungt fólk sem er að stofna heimili og er að kaupa þessa búshluti fyrsta sinni. Ég viðurkenni fúslega að þetta skiptir máli fyrir þann hóp fólks. En um annað er það svo, að menn kaupa ekki hnífapör einu sinni á ári að jafnaði og eins og ég sagði áðan skipta þessar matvörur, sem þarna eru tilteknar, rauninni ákaflega litlu flestar hverjar fyrir útgjöld venjulegra heimila. Það skiptir sem sagt meginmáli að hér sé haft samræmi og samræmd vinnubrögð, en ekki sé valið af handahófi.

Annað vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. um. Hann gaf fyrir skömmu frá sér yfirlýsingar um mál þessu skyld. Vörugjald af hljómplötum og snældum var fellt niður, sem samkv. blaðafregnum á að lækka hljómplötuverð um allt að fjórðung. Ég fagna þessari ákvörðun og vona að fleira fylgi í kjölfarið. Þarna er í flestum tilvikum um hátollavara. Kannske vilja ekki allir flokka allar hljómplötur sem menningarefni, en ég hygg þó að þeir séu til sem telja allt efni af þessu tagi heyra undir menningu af einhverju tagi, og ég er þeirrar skoðunar, að þó að þar sé kannske í sumum tilvikum um tónlist að ræða sem sumir telja léttvæga, þá sé hún kannske þungvæg í annarra eyrum og augum.

En ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. vegna furðulegra ummæla sem Morgunblaðið hafði eftir honum í sambandi við þetta mál. Hann segir þar, með leyfi forseta:

„Það er vitað að það hefur verið svipað með hljómplöturnar og nylonsokkana á sínum tíma,“ sagði Albert Guðmundsson í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. „Miklu er smyglað inn í landið.“

Og nú vildi ég biðja hæstv. fjmrh. að svara því, hvort hann á við að hér hafi verið stundað í stórum stíl smygl á hljómplötum til landsins, þá er það vissulega alvarlegt mál og hlýtur tollgæslan að láta þar til sín taka, eða hvort hæstv. fjmrh. á við að ef ferðamenn kaupa sér eina eða tvær hljómplötur í úflöndum, annaðhvort til eigin nota eða til að gefa vinum og kunningjum, þá séu þeir að smygla þeim plötum inn í landið. Það er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. skýri þessi ummæli sín vegna þess að hér er um töluvert alvarlega ásökun að ræða. Á hæstv. ráðh. við að ferðafólk smygli þessum plötum inn í landið eða á hann við að hér sé stundað stórfellt smygl á hljómplötum? Þá hlýtur hæstv, ráðh. jafnframt að hafa einhverjar hugmyndir um hverjir það eru sem að því standa.

Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. ráðh. að því, fyrst nú hafa verið lækkuð vörugjöld á hljómplötum, hvort hins sama sé að vænta að því er varðar hljóðbönd, kassettur og myndbönd, sem ég geri ráð fyrir að töluvert sé um að ferðamenn kaupi erlendis. Þeir eru ekki að smygla neinu. Þeir eru að kaupa samkv. heimildum sem þeir hafa þegar þeir fá ferðamannagjaldeyri, vegna þess að þessi vara er tvöfalt eða þrefalt dýrari hér en erlendis. — Og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann ætli sér að lækka gjöld á þessum vörum eða hvort það sé kannske hugsun ríkisstj. að leggja á þessar vörur, hljóðbönd og myndbönd, sérstaka skatta, eins og gert hefur verið í flestum grannlöndum okkar.