24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

372. mál, bráðabirgðasamningur milli Íslands og SwissAluminium

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm: Austurl. Hjörleifur Guttormsson hefur gert glögga og ítarlega grein fyrir afstöðu Alþb. í þessu máli, þannig að út af fyrir sig hef ég ekki þar miklu við að bæta. Það eru þó nokkur atriði sem ég tel engu að síður nauðsynlegt að koma hér á framfæri, ekki síst í framhaldi af þeim upplýsingum sem komu fram áðan hjá hæstv. iðnrh. varðandi vinnubrögð og yfirverð á vegum álhringsins á árinu 1982, sem hafa legið í iðnrn. síðan um miðjan sept., en eru upplýst fyrst núna með eftirgangsmunum hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á Alþingi í þessum umr.

Það kemur sem sé fram í upplýsingum hæstv. iðnrh., sem hann hefur legið á í iðnrn. í tvo mánuði, að á árinu 1982 er um það að ræða að álhringurinn hefur í yfirverði og afskriftum og með öðrum hætti tekið sér umfram það sem Coopers & Lybrand telur eðlilegt 13 millj. dollara — 13 millj. dollara á einu ári eða 400 millj. ísl. kr. Þessar tölur mega menn gjarnan bera saman við þá tölu sem birt var í fréttatilkynningu iðnrn. og fjmrn. frá 11. febrúar s.l., þegar ákveðið var að skuldfæra Íslenska álfélagið um 127 millj. ísl. kr., en þá kom fram að um var að ræða yfirverð á árunum 1975 til 1981 sem nam 31.4 millj. dollara. Þegar allt var talið var hér um að ræða tölu sem nemur 35.8 millj. Bandaríkjadala, þannig að á árinu 1982 einu bættu þeir um betur og lögðu við afrekalistann handa hæstv. iðnrh. upp á 13.1 millj. dollara, og er þó ekki allt tínt til vegna þess að í yfirliti hæstv. iðnrh. áðan var ekki greint frá yfirverði á rafskautum, sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi, en það nam á árunum 1975 til 1981 13.8 millj. Bandaríkjadala.

Hér er m.ö.o. enn þá einu sinni komið fram af hvaða purkunarleysi, tillitsleysi gagnvart Íslendingum, virðingarleysi, er komið fram af hálfu forráðamanna þessa erlenda auðhrings. Og þetta bætist svo við það, sem hv. 5. þm. Austurl. rakti áðan, hvernig forráðamenn auðhringsins lið fyrir lið, mann fyrir mann, tryggðu sér stuðning og áhrif hér á landi og hvernig það gerðist á viðræðufundum með forstjórum Alusuisse að hæstv. núv. forsrh. Íslands lét koma fram að hann teldi hugmyndir álhringsins, sem þar lágu fyrir 1. mars 1982, í rauninni ágætar, það þyrfti að gera þar smáorðalagsbreytingar, sem hann vildi gera á hnjám sér á staðnum, rétt eins og hann væri staddur á innanflokksfundi í Framsfl. Þó var í þeim texta ekki orð, ekki eitt aukatekið orð, um hækkun á rafmagnsverðinu.

Þarna sá álhringurinn að hann átti möguleika á að hafa áhrif á tiltekna einstaklinga hér á Íslandi. Og það var ekki of mikið sagt sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði hér áðan. Íslenska víglínan var holgrafin um skeið vegna þess að það var ekki um það að ræða að þeir menn sem áttu að standa á vaktinni fyrir íslenska hagsmuni stæðu sig þar sem skyldi. Þeir hlupu út með yfirlýsingum og árásum á þáv. iðnrh., eins og Guðmundur G. Þórarinsson, og þeir voru tilbúnir að taka með skilningi sneplum frá álfurstunum, þar sem ekki var einu sinni minnst á hækkanir á raforkuverði. (EKJ: Hverjir hafa verið iðnrh. síðasta áratuginn?) Hverjir hafa verið iðnrh.? (EKJ: Já). Ég er ekki að ræða um það núna, hv. þm., hverjir hafa verið iðnrh. Það gæti ég rakið fyrir hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, (EKJ: Já, gerðu það.) vegna þess að ég veit um þá alla og hef þekkt þá vel eins og hann veit. (Gripið fram í.)

Ég er að tala hér um þá baráttu sem stóð yfir í síðustu ríkisstj. gagnvart álhringnum. (EKJ: Þú nefndir árið 1975 áðan.) Ég er að tala um þá baráttu sem stóð yfir gagnvart álhringnum í síðustu ríkisstj. og ég er hér að rifja upp tölur frá árunum 1975 til 1981 úr fréttatilkynningu iðnrn. Ég skal rekja nákvæmlega fyrir hv. þm. hverjir voru iðnrh. á þessum tíma, en ég var að rekja það áðan hvernig þessi barátta stóð í síðustu ríkisstj., þegar víglínan var holgrafin fyrst og fremst vegna þess að forustumenn Framsfl. á þeim tíma voru ekki tilbúnir að standa þannig að málunum að Alusuisse fyndi að á bak við kröfur Íslands og Íslendinga væri þungi í þessu efni. (EKJ: Þú ert búinn að lofa tvisvar að rekja hverjir hafi ráðið.) Óskaplega er hv. þm. ákafur í að ég fari út í yfirlit um stjórnmálasögu Íslendinga. Ég vil minna hv. þm. á að ég flutti hérna þriggja tíma ræðu um þetta mál fyrir nokkrum mánuðum og ég get alveg farið yfir það aftur. En ég vildi gjarnan byrja aðeins fyrr en 1975. Ég gæti t.d. hugsað mér að byrja 1966 (EKJ: Byrjaðu 1971.) eða 1933 eða 1927, þegar rætt var um fossamálin. Ég gæti rifjað upp afrek Sjálfstfl. þá og hvernig hann þá stóð á vakt gagnvart erlendum auðhringum, en nú hagar Sjálfstfl. sér þannig, að í rauninni kemur aldrei fram neitt aukatekið orð frá talsmönnum hans um að íslenska þjóðin þurfi á einn eða annan hátt að gæta sín á hinum erlendum auðhringum og talsmönnum þeirra.

Iðnrh. á síðasta áratug voru sem hér segir: Magnús Kjartansson 1971 til 1974, Gunnar Thoroddsen 1974–1978, Hjörleifur Guttormsson 1978 til 1979, Bragi Sigurjónsson 1979 til 1980, Hjörleifur Guttormsson 1980 til 1983 og Sverrir Hermannsson frá 1983. (EKJ: Á þessum tíma gerðust öll ósköpin, segirðu.) Á þessum tíma gerðust þau tíðindi, hv. þm., að fyrirtækið Coopers & Lybrand var látið kanna viðskipti þessa aðila við Íslendinga og þá gerðist það m.a. að í ljós kom að um hafði verið að ræða yfirverð á aðföngum fyrirtækisins hér á Íslandi. Þeim málatilbúnaði og niðurstöðum var ekki fylgt eftir fyrr en Hjörleifur Guttormsson kom í iðnrn. Því var ekki fylgt eftir, því miður. Þess vegna er sú hreyfing sem komin er á þetta mál því að þakka að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. iðnrh., notaði þær upplýsingar sem komu fram til þess að knýja á um breytingar á þessum samningum. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var sá maður sem fremst gekk í þeim flokki sem krafðist þess að hér á Íslandi yrði ekki reist eitt álver, heldur tuttugu. Þessi hv. þm. er þess vegna viðkvæmari en allir aðrir menn þegar komið er að því að rekja viðskipti þessa óskabarns hans við íslensku þjóðina á síðustu árum. Það kemur manni þess vegna ekkert á óvart þó að hann geti helst aldrei setið kyrr, hvað þá heldur þegjandi, þegar verið er að fjalla um þessi mál.

Það var athyglisvert sem fram kom í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, hvernig hann sýndi fram á það þegar Alusuisse var að gera sér menn handgengna hér á Íslandi með mjög svipuðum hætti og Noregskonungur gerði fyrr á öldum. Það kom fram að haldnir voru leynifundir með Jóhannesi Nordal Seðlabankastjóra og Steingrími Hermannssyni hæstv. núv. forsrh. til að fjalla um stöðuna í þessu. máli á bak við þáv. iðnrh. Þessar upplýsingar sýna okkur auðvitað að Alusuisse treysti því að þurfa aldrei að gera samninga við íslensku ríkisstjórnina vegna þess að Alusuisse átti sína menn, sína flokka og sín blöð á Íslandi. Þetta er grundvallaratriðið sem þingheimur þarf að gera sér grein fyrir. Og það var ekki auðvelt við þessar aðstæður að knýja fram hækkanir á raforkuverði, þegar þeir sem síst skyldi voru í svikaförum gegn þeim iðnrh. sem með málið fór fyrir hönd íslensku ríkisstj.

Það var þess vegna ekki undarlegt að það skyldi gerast í þeirri veislu sem haldin var á vegum forsrh. síðastliðið sumar þeim forráðamönnum álfélagsins, að þá skyldu þeir tjá sig um að myndun þessarar ríkisstj. hefði verið sérstaklega hagkvæm Alusuisse. Forráðamenn hringsins fögnuðu myndun þessarar ríkisstj., þeir töldu þetta góða stjórn, gott að vera lausir við að Alþb. færi með yfirstjórn þessara mála, vegna þess að forráða= menn auðhringsins treystu því að hér ættu þeir hauka í horni, þar sem væri auðveldara að koma við ótrúlegum afreksverkum en áður var um að ræða í stjórnarráði Íslands. (ÓÞÞ: Gerðist þetta í veislu í ráðherrabústaðnum?) Hv. þm. getur vafalaust leitað sér betri upplýsinga um þetta en ég er fær um að gefa á þessari stundu, en ég skal kanna það við betra tækifæri.

Hér er, herra forseti, komið að kjarna þessa máls að mínu mati. Það er sá kjarni málsins, sem var komið að áðan í ræðu hv. 11. þm. Reykv.: Hversu vegnar smáþjóð í viðskiptum við auðhring eins og Alusuisse? Ég hélt satt að segja að þeir sem hér eru saman komnir ættu allir að hafa það stolt fyrir hönd þjóðar sinnar að þeir létu ekki bjóða sér hvað sem er og m.a. létu þeir þennan auðhring ekki kljúfa þjóðarsamstöðu í herðar niður þegar síst skyldi. Ég held að af Alusuissemálinu getum við meira lært en mörgum öðrum málum sem hafa verið rædd í íslenskum stjórnmálum á undanförnum árum. Þetta mál sýnir í hnotskurn hvað það er sem sjálfstæð smáþjóð þarf að gæta sín á. Ég tel að þessi bráðabirgðasamningur, sem hér liggur fyrir, sé því miður ekkert annað en framhald af þeirri niðurlægingargöngu sem hófst þegar fyrst var undirritaður samningur við Alusuisse árið 1966.