24.11.1983
Sameinað þing: 25. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 1147 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

99. mál, jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla

Flm. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Örstutt. Hér liggur fyrir till. sem er endurflutt, till. sem flutt var á síðasta löggjafarþingi. Flm. eru Árni Gunnarsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, en á till., þegar hún var flutt síðast, voru flm. tveir, Árni Gunnarsson og Stefán Jónsson fyrrv. hv. þm.

Gert er ráð fyrir því að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta hraða gerð jarðganga um Ólafsfjarðarmúla. Verði við það miðað að göngin verði tilbúin til umferðar eigi síðar en í árslok 1988.

Með þessari till. fylgir allítarleg grg., sem er ljót slysasaga sem tekin var saman vegna umferðarslysa á Múlavegi frá 1976 til og með okt. 1982. Þar hafa orðið mörg mjög alvarleg slys, fjöldi banaslysa. Flm. hafa talið mjög nauðsynlegt að reyna að hraða framgangi þessa máls og reyna að tryggja Ólafsfirðingum betri samgöngur en nú eru. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eftir að fyrstu snjóar falla á haustin lokast Lágheiði til Siglufjarðar þannig að öll umferð frá Ólafsfirði þeim megin er úr sögunni. Síðan er Ólafsfjarðarmúli fljótur að lokast í snjóum og þá er ekkert annað eftir en sjóleiðin, því að flugvöllurinn lokast fljótlega í snjóum og þar er aðflug aðeins nánast úr einni átt, þannig að lítið er á það treystandi.

Herra forseti. Ég vona að þessi till. fái meðferð hér í þinginu, en hana dagaði uppi á síðasta þingi.