03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1541 í B-deild Alþingistíðinda. (1008)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög tímabært að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 191, komi fram, ekki síst vegna þeirrar miklu umræðu sem orðið hefur um undanþágur til skipstjórnarmanna. Ég stóð hér þó aðeins upp til þess að vekja athygli á því að til samgn. Norðurlandaráðs barst í sept. s.l. bréf frá þingi Sambands norrænna skipstjórnarmanna, þar sem sæti áttu samtökin í Færeyjum, Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þingið hefur 6. og 7. sept. s.l. rætt hina miklu tíðni undanþága sem hér hefur viðgengist, og tekið er fram að til skipstjórnar hafi verið gefnar út 1592 undanþágur en þeir vísu menn taka ekki fram á hvað löngum tíma þetta er.

Þeir lýsa ugg sínum yfir þessu ástandi og vildu fá okkur samgn.-menn til þess að ganga í málið. Því var hins vegar frestað vegna þess að okkur var ekki alveg ljóst á fundinum — bréfið hafði komið með litlum fyrirvara — hvort Lundúnasamþykktin frá 1978 ætti einnig við um fiskiskip. En um þetta varð sem sagt nokkur umræða, þannig að það er ljóst að menn hafa áhyggjur af því utan Íslands hversu margar undanþágur eru veittar hér.

Nú held ég að óhætt sé að fullyrða að hin nýja nefnd, sem hóf störf í sumar, undanþágunefnd svokölluð, sé mun strangari en verið hefur og er ekki nema gott eitt um það að segja.

Hæstv. ráðh. talaði hér áðan um námskeið sem mönnum yrði gefinn kostur á að sækja og þá held ég að mikilvægt sé að til sé einhver sjóður sem menn geta sótt um styrk úr því að ég hygg að það geti vafist fyrir ýmsum fjölskyldumönnum að hætta að vinna, kannske mánuðum saman, og setjast á skólabekk. Það held ég að sé vandamál sem flestir kannast við.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson upplýsti mig að vísu á fundi, þar sem við vorum að ræða saman um þetta erindi til samgn., að sjómannasamtökin hefðu í hyggju eða væru jafnvel búin að leggja drög að stofnun einhvers slíks sjóðs, en að því þyrfti verulega að huga því að annars hygg ég að erfitt yrði að fá menn til að sækja slík námskeið.

En ég skal nú ekki fjölyrða mikið um þetta mál. Ég held hins vegar að ástæða væri til að huga að því hve minnkandi aðsókn er að stýrimannaskólum landsins og ég tel að þjóð sem á allt sitt undir sjósókn og sjávarafla ætti að huga mjög vel að því hver ástæðan sé fyrir minnkandi aðsókn að þessum skólum og gera allt sem stjórnvöld geta hugsanlega gert til að efla og styrkja þá í stað þess að láta þá heldur sitja við lakari kjör.