03.12.1984
Neðri deild: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

179. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Efnislega ætla ég ekki að ræða þetta frv. hér. Eins og hv. þm. sjálfsagt muna eftir urðu verulegar umr. um þessi réttindamál á síðasta þingi. Sérstaklega urðu miklar umr. í samgöngunefndum þingsins út af þessum málum. Ég get ekki betur séð en að frv. sem liggur nú fyrir hafi tekið þeim breytingum að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að flýta málinu eins og kostur er. Ég stend a.m.k. á þessari stundu í þeirri trú að það sé fullt samkomulag um þetta frv. Annað hefur ekki komið fram og það kemur ekki fram í grg. með frv. annað en það sé fullt samkomulag.

Ég get fullvissað hæstv. ráðh. um það að samgöngunefnd Nd. mun gera sitt til að flýta þessu máli. Hitt verðum við að viðurkenna að tíminn fram að jólum er orðinn stuttur, tæpar þrjár vikur. Það eru mörg mál sem þarf að afgreiða, ekki síst fjárlögin og það tekur alltaf sinn tíma. En það verður gert allt sem hægt er til þess að þetta mál verði afgreitt svo framarlega sem ekki kemur fram eitthvað, sem ég veit ekki um nú, sem muni hindra það.