04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Í dag verða tveir fundir í sameinuðu Alþingi þar sem eru samtals 64 mál á dagskrá. Þessi mikli fjöldi dagskrármála vekur til umhugsunar. Spurning er hvort rétt sé að ætla lengri tíma til funda Sþ. en verið hefur til að hraða meðferð mála. Það kemur ekki til mála að Sþ. gangi á tíma þingdeilda þar sem hinu eiginlega löggjafarstarfi verður að ætla nægan umráðatíma í störfum þingsins. Það er heldur ekki ráð að hafa reglubundna kvöldfundi í Sþ. né fundi Sþ. reglubundið á föstudögum. Kemur hér hvort tveggja til að það mundi hafa í för með sér aukið vinnuálag á þm. og torvelda þeim að sinna kjósendum og kjördæmum sínum, einkum úti á landi.

Gera má ráð fyrir að þetta viðhorf sé í samræmi við vilja hv. þm. í þessu efni. Á það bendir sú staðreynd að þm. sitja þingfundi ekki of vel, einkum þegar líða tekur á þá. Þannig hefur ekki tekist á þessu þingi að halda áfram venjulegum þingfundum í Sþ. til kl. 18, hvað þá heldur til kl. 19 sem ekki hefði verið vanþörf á til að þoka málum betur áfram.

Þetta kemur til af því að flm. þingmála hafa horfið af fundi svo að engir eru til að halda framsögu fyrir málum sem ella hefði mátt taka til umr. Hér verður að koma til bragarbót. Gera verður þá kröfu til þm. að þeir sæki þingfundi og sitji þá vel, enda ber þeim til þess skylda skv. þingsköpum. Við forföllum er ekkert að segja ef nauðsyn krefur.

Vandamálið, sem nú er við að glíma, er fólgið í miklum fjölda mála sem fram eru borin og þó einkum í langdregnum umr. um einstök mál. Mest er því um vert að stytta umr. Með gagnkvæmri tillitssemi þm. í hvers annars garð má nota þann tíma sem til umráða er betur svo að þingmálum allra þm. verði komið til einhverrar meðferðar. Auðvitað er það mjög misjafnt hve einstök þingmál þurfa langa umr. eða verðskulda. Það hljóta hv. þm. sjálfir að meta í hverju tilfelli.

Í dag er vandi okkar í þessu efni meiri en nokkru sinni fyrr. Á síðari árum hefur stefnt í þetta far, einkum þó á þessu kjörtímabili með hinni miklu fjölgun þingmála. Hins vegar hefur vandanum ekki verið mætt með breytingu á þingsköpum. Þó er það svo að ýmis ákvæði þingskapa um umr. á Alþingi henta ekki í dag, enda sum hver harla forn eða e.t.v. frá árinu 1845, 1915 eða 1936. Þessi ákvæði eru í sumum tilfellum orðin úrelt, enda miðuð við aðstæður sem eru gjörbreyttar í dag.

Eins og hv. alþm. er kunnugt var samþykkt þál. fyrir ári síðan um skipun nefndar til að endurskoða þingsköp Alþingis. Þessi nefnd situr nú að störfum. Þess er að vænta að nefndin geti fyrir lok næsta mánaðar lokið störfum. Í framhaldi af því er ætlunin að leggja málið fyrir Alþingi og freista þess að fá sett ný þingsköp, sem yrðu lögfest á því þingi sem nú situr.

Þó slíkar fyrirætlanir um breytingar á þingsköpum tækjust gætu ný þingsköp ekki komið til framkvæmda fyrr en frá og með næsta þingi. Þangað til er ekki annars úrkosta en að búa við gildandi þingsköp. Það skapar okkur vanda á þessu þingi sem nú stendur yfir. Þess er að vænta að allir hv. alþm. sameinist um að mæta þeim vanda svo sem nauðsyn krefur til þess að komið verði við skilvirkum vinnubrögðum og svo sem sæmir virðingu Alþingis.