04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

70. mál, fé tannverndarsjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrmrh. svör hans og ég fagna því að hann hefur fullan skilning á mikilvægi þess að rétt forgangsröð ríki í þessum málum. Það má segja að það sé vel sem þegar er gert, en maður veltir því fyrir sér hvað skeð hafi síðan 1975 ef ekki hafa verið gefnir út nema 3–4 bæklingar og aðeins örfá rannsóknarverkefni styrkt. Hvað varð um þessar 4 millj.?

Nú skilst mér að ábyrgðinni á þessari fræðslu hafi einmitt verið varpað í skaut Tryggingastofnunar eða heilbrmrn. eftir að þessi samningur var gerður milli tannlækna og rn., þannig að boltinn virðist liggja þar núna. Ég vil leggja áherslu á að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og við sáum eins og við uppskerum. Einhvern tíma verðum við að byrja að hafa efni á því að beita fyrirbyggjandi aðgerðum ef við ætlum að uppskera árangur þeirra.