04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

70. mál, fé tannverndarsjóðs

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Út af orðum hv. 3. landsk. þm. held ég að rétt sé að hér komi fram að þegar samningurinn var gerður við Tannlæknafélagið á sínum tíma var tekin um það ákvörðun að 1% rynni í tannverndarsjóð. Þessi sjóður var þá undir yfirstjórn og í vörslu Tryggingastofnunar ríkisins. Rn. tókst ekki, hvorki í minni tíð né þann tíma sem hæstv. núv. heilbrmrh. var þar á undan mér, að ná um það samkomulagi við Tryggingastofnunina hvernig þessu fé yrði varið. Þess vegna var sú ákvörðun tekin á árinu 1982, að ég held, að yfirstjórn þessara mála væri tekin af Tryggingastofnun ríkisins og lögð undir heilbrmrn. Það virðist vera forsenda þess að hægt sé að nýta þessa fjármuni með þeim hætti sem gerð hefur verið grein fyrir af hæstv. heilbr.- og trmrh.