04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Forseta er ekki kunnugt um hvað dvelur afgreiðslu þessa máls, en vekur athygli hv. þm. á því að það eru ákaflega góð vinnubrögð, ef þm. þykir verða dráttur á afgreiðslu mála sem þessara, að skýra forseta frá því þannig að ekki þurfi að eyða dýrmætum tíma þingsins í umr. um þingsköp. Hins vegar er það alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að skv. þingsköpum er ætlast til þess að ekki verði meiri dráttur á svari en fram kom í hans máli.

Hins vegar er ekki alltaf hægt að fullnægja þessum ákvæðum þingskapa. Þess vegna er í þeirri endurskoðun sem nú fer fram á þingsköpum gert ráð fyrir því að í staðinn fyrir að fortakslaust skuli vera settir frestir í þessu efni skuli það vera orðað svo: að jafnaði. Ég veit að hv. 8. þm. Reykv. er þetta jafnljóst og mér því að við erum báðir í þeirri nefnd sem endurskoðar þingsköpin.

Að öðru leyti skal aðeins tekið fram að það verður athugað um þetta mál og hvort ekki er hægt að hraða afgreiðslu þess.