04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

93. mál, kynning á líftækni

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Iðnrn. barst áminnst ályktun Alþingis með bréfi dags. 12. júní s.l. Iðnrn. sendi tilgreindum aðilum, sem skipa skyldu nefndina, bréf þess efnis hinn 21. júní s.l. Tilnefningar drógust hjá nokkrum aðilum allmjög úr hömlu, en í októbermánuði s.l. varð nefndin fullskipuð og henni komið á laggirnar.

Í henni eiga sæti dr. Ari K. Sæmundsen líffræðingur, formaður, Jón Agnar Eggertsson skrifstofumaður, Borgarnesi, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, dr. Jón Bragi Bjarnason dósent, tilnefndur af Háskóla Íslands, dr. Úlfar Antonsson líffræðingur, tilnefndur af Rannsóknaráði ríkisins, Steinþór Júlíusson bæjarstjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga, Paul Jóhannsson tæknifræðingur, tilnefndur af Tækniskóla Íslands, og Friðrik Pálsson framkvæmdastjóri, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands.

Eins og þál. ber með sér skal nefndin ljúka störfum sínum innan árs frá skipun hennar. Verður þess vegna að líta þann veg á að það sé við lok októbermánaðar næsta ár.

Í samþykki Alþingis um greiðslu kostnaðar er kveðið svo á í ályktuninni að hann skuli greiðast úr ríkissjóði. Ég sé ástæðu til þess að taka þetta sem áminningu um að ganga úr skugga um hvernig fyrir þeim fjármunum verður séð við afgreiðslu fjárlaga nú.