04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (1025)

125. mál, símamál

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Í nýafstöðnu verkfalli opinberra starfsmanna kom til margháttaðra truflana á síma- og telexþjónustu. Jafnframt voru brögð að því að grunsemdir og reyndar fullyrðingar væru á lofti um að símaleyndar væri ekki gætt sem skyldi. Ég legg engan dóm á réttmæti slíkra ásakana en tel þó engum greiði gerður með því að láta hjá líða að nefna þær.

Pósti og síma og hæstv. samgrh. þarf að gefast kostur á að bera af sér sakir um brot á trúnaði og friðhelgi varðandi símtöl og skeytasendingar hjá stofnuninni. Almenningur þarf jafnframt að fá skýringar á því hvernig símaleyndar er gætt allajafna og að því megi treysta, enda væri það hið alvarlegasta brot ef viðskiptavinir Pósts og síma gætu ekki treyst fullkominni og algerri símaleynd.

Tilefni þessarar fsp. er frétt, sem birtist í DV í miðju verkfalli, þar sem því var haldið fram að telexskeyti væru ritskoðuð. Það var haft eftir formanni kjaradeilunefndar. Hann segir í umræddri frétt, með leyfi forseta: „Telexþjónusta var heimiluð í þrettán greinum atvinnustarfsemi og um það var samkomulag í nefndinni. Til þess eiga 4 linur af 60 að vera virkar og jafnframt handvirki samband með einum starfsmanni á vakt í senn allan sólarhringinn. Það virðist ljóst af umkvörtunum að uppi hafi verið tilburðir til ritskoðunar á skeytunum, sem er algerlega andstætt ætlan nefndarinnar.“ Þetta segir Helgi V. Jónsson, formaður kjaradeilunefndar. Þessu er svarað í sömu frétt af Jóni A. Skúlasyni póst- og símamálastjóra. Hann segir: „Mér er ekki kunnugt um það sem við mundum kalla ritskoðun á telexskeytum, en það eru teknar „stikkprufur“ og þá aðeins hjá óopinberum aðilum.“

Nú væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá ráðh. um leið og hann svaraði fsp. minni hvað átt er við með stikkprufum. Vonandi útskýrir póst- og símamálastjóri það í þeirri grg. sem væntanlega verður lögð hér fram. En fyrirspurnin er borin fram af þessu tilefni og hún hljóðar svo:

„Hvaða ráðstafanir gera yfirvöld Pósts og síma til að símleyndar sé gætt, bæði allajafna og sérstaklega í verkföllum opinberra starfsmanna? Er það gert með sérstöku eftirliti eða tækjabúnaði?