04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1026)

125. mál, símamál

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Um leynd fjarskipta gilda ákvæði 15. gr. fjarskiptalaganna frá 1984, en þar segir m.a.: „Þeir“, þ.e. allir starfsmenn fjarskiptavirkja ríkisins, „skulu og halda leyndum fyrir öllum út í frá efni samtala um fjarskiptavirki ríkisins, svo og að samtöl hafi farið fram og hverjir hafa átt tal saman.“ Póst- og símamálastofnunin gætir þessarar leyndar innan sinna veggja með því að veita ekki öðrum en tilskildum viðhalds- og eftirlitsaðilum aðgang að þeim sölum sem geyma sjálfvirkar stöðvar og tengigrindur.

Í verkfalli opinberra starfsmanna, sem fyrirspyrjandi vitnaði til, er tilhögun hin sama en viðhalds- og eftirlitsaðilar eru færri vegna þess að ekki fást undanþágur fyrir alla þá starfsmenn sem venjulega annast þessi störf.

Að því er varðar þann hluta fjarskiptavirkja sem eru utan húsakynna stofnunarinnar, þá er um að ræða strengi grafna í jörðu, radíósambönd, götuskápa, húskassa og innanhúslagnir. Þeir starfsmenn sem þessum hlutum sinna eru að sjálfsögðu bundnir af fyrrnefndum lagaákvæðum. Aðgangur að upplýsingum um línutengingu einstakra notenda er ekki opinn öðrum en takmörkuðum hópi starfsmanna sem við þessi fjarskiptavirki vinna.

Þess ber þó að gæta að skv. nýju fjarskiptalögunum, sem samþykkt voru á þessu ári, geta aðrir en Póst- og símamálastofnunin annast innanhúslagnir. Nú er um það bil verið að skipa nefnd til að undirbúa reglugerð fyrir hin nýju fjarskiptalög og þar verður að gæta mjög vel þessara hluta, sem og að laga ýmislegt sem miður hefur farið.

Ég vil segja það hér að ég tel að leynd sé engan veginn örugg undir því ástandi sem var á meðan á verkfalli stóð. Í raun og veru hafði stofnunin ekki vald á þessu starfi því það var undir aðra að sækja. Kjaradeilunefnd úrskurðaði í nokkrum atriðum sem ekki var farið eftir og ég þori ekki að fullyrða hér á þessu stigi hvort hér hefur verið út af brugðið. En við allar venjulegar aðstæður er leyndar gætt, enda skrifa viðkomandi starfsmenn undir þagnarheit um það sem þeir verða áskynja og varðar brot brottrekstri úr starfi. En ég get vel skilið áhyggjur fyrirspyrjanda í þessum efnum og tel að sú nefnd sem fær þetta verkefni í hendur verði hér að leysa úr mjög erfiðu vandamáli.