04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1029)

126. mál, skipun nýs útvarpsstjóra

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Nýr útvarpsstjóri mun taka við störfum um næstu áramót. Umsóknarfrestur um starf útvarpsstjóra rann út 20. okt. s.l. Umsækjendur voru sjö, þeir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, Bernharður Guðmundsson fréttafulltrúi þjóðkirkjunnar, Helgi Pétursson fréttamaður, Jónas Jónasson deildarstjóri í útvarpinu, Markús Örn Antonsson ritstjóri, Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri og Ólafur H. Þórðarson framkvæmdastjóri. Aðeins fjórum dögum eftir að umsóknarfresturinn rann út var búið að ganga frá skipun í embættið. Í tilefni af þessu embættisverki hæstv. menntmrh. leyfi ég mér að beina til hans fsp. á þskj. 130 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar við nýlega skipun í embætti útvarpsstjóra?

2. Var leitað umsagnar útvarpsráðs, starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins eða einhverra annarra aðila?

3. Var rætt við alla umsækjendur og náms- og starfsferill þeirra kannaður til hlítar?“

Til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning vil ég taka skýrt fram að ástæða fsp. minnar er alls ekki sú að ég efist um lögmæti þessa embættisverks hæstv. ráðh. Um skipan útvarpsstjóra er kveðið á í lögum um Ríkisútvarpið og fer ekkert á milli mála að ákvörðunarvald þar um er hjá menntmrh. og engin skilyrði sett í lögum um menntun eða starfsreynslu til þessa embættis. Hitt er svo deginum ljósara að ráðning í svo mikilvægt embætti sem útvarpsstjóra getur ekki bara verið smekksatriði. Þar hljóta ákveðnar forsendur að vera lagðar til grundvallar. Til þess að fá þær skýrðar er þessi fsp. borin hér fram.