04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

126. mál, skipun nýs útvarpsstjóra

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. 1. liður fsp. á þskj. 130 er þessi:

„Hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar við nýlega skipun í embætti útvarpsstjóra?“

Svarið er þetta: Að öðrum umsækjendum ólöstuðum þótti mér augljóst að Markús Örn Antonsson væri hæfastur til starfsins.

2. liður fsp. er þessi:

„Var leitað umsagnar útvarpsráðs, starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins eða einhverra annarra aðila?“

Svarið er þetta: Formlegra umsagna var ekki leitað, enda gera lög ekki ráð fyrir því.

3. liður fsp. er þessi:

„Var rætt við alla umsækjendur og náms- og starfsferill þeirra kannaður til hlítar?“

Svarið er þetta: Það var ekki rætt við alla umsækjendur, en náms- og starfsferill þeirra var kannaður með viðhlítandi hætti.