04.12.1984
Sameinað þing: 28. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

140. mál, símalyfseðlar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Um útgáfu lyfseðla gildir reglugerð um gerð lyfseðla og afgreiðslu þeirra, nr. 291 frá 1979, með áorðnum breytingum. í þeirri reglugerð segir:

„Lyfseðill er lyfjaávísun læknis, tannlæknis eða dýralæknis, er lækningaleyfi hefur hér á landi. Lyfseðill skal vera dagsettur og undirritaður eigin hendi læknis. Dýralæknum er þó einungis heimilt að ávísa lyfjum til dýralækninga og tannlæknum nánar tilgreindum lyfjum.“

Þá er einnig í reglugerðinni talað um rétt læknisefnis með tímabundnu lækningaleyfi til að gegna ákveðnu starfi og ávísa lyfjum með lyfseðli á borð við lækna. Læknakandídat, sem starfar á spítaladeild, heilsugæslustöð eða hliðstæðri stofnun, er heimilt að fengnu samþykki hlutaðeigandi yfirlæknis að ávísa slíkri stofnun eða sjúklingum, sem þar eru til lækninga, lyfjum með lyfseðli, sem með prentuðu máli er auðkenndur stofnuninni, enda þótt læknakandídatinum hafi ekki verið veitt tímabundið lækningaleyfi. Þó er honum ekki í slíkum tilfellum heimilt að ávísa eftirritunarskyldum lyfjum né ávísa lyfjum í síma. Hlutaðeigandi yfirlæknir, sem kandídat starfar hjá, ber ábyrgð á lyfjaávísunum þessum.

Í 4. gr. þessarar reglugerðar er fjallað um símaávísanir lyfja og þar segir:

„Við ávísun lyfja í síma skal gæta fyrirmæla 1. og 3. gr. að svo miklu leyti, sem þau eiga við, svo og ákvæða þessarar greinar. Vegna mistaka, er leitt geta af misheyrn eða misskilningi í síma, skal takmarka símaávísanir lyfja svo sem frekast er unnt.

Einungis lyfjafræðingi eða aðstoðarlyfjafræðingi er heimilt að rita lyfseðil sem lesinn er í síma. Á sama hátt er lækni (tannlækni, dýralækni) einum heimilt að lesa lyfseðil í síma. Viðtakandi símalyfseðils skal. ef þörf gerist, biðja útgefanda um upplýsingar, er nægja til þess að sanna að útgefandi segi rétt til sín.

Útgefandi skal hafa lyfseðilinn yfir þannig, að viðtakanda gefist tími til að eftirrita hann þegar í stað á þar til gert símalyfseðilseyðublað. Að því loknu skal lesa lyfseðilinn fyrir útgefanda. Auk heitis lyfs, ávísaðs magns og fyrirmæla um notkun skal viðtakandi rita á símalyfseðilseyðublaðið nafn útgefanda og stöðu hans (læknir, dýralæknir, tannlæknir) og heimilisfang, ef það er nauðsynlegt til auðkenningar, nafn sitt, dagsetningu, nafn sjúklings og heimilisfang og aldur barns, ef lyfið er ætlað barni.

Á símalyfseðliseyðublað skal vera prentað orðið SÍMALYFSEÐILL og númer eyðublaðsins í töluröð. Skal eyðublaðið vera í samræmi við sýnishorn í viðauka 3 með reglugerð þessari. Símalyfseðill skal vera í tvíriti. Skal frumritið notað við afgreiðslu lyfsins, en samriti skal haldið eftir. Samritið skal geyma í eitt ár frá ritun þess, en síðan brenna það eða eyðileggja á tryggilegan hátt. Símalyfseðilseyðublað má einungis nota til þess að rita lyfseðil, sem lesinn hefur verið í síma, svo og þær leiðréttingar, er gerðar kunna að verða á lyfseðlinum í samráði við útgefanda.

Sérákvæði gilda um símalyfseðla, sem hljóða á ávana- og fíknilyf.“

Þar sem fjallað er um almenn ákvæði um afgreiðslu lyfja eftir lyfseðli segir að lyfjafræðingur og aðstoðarlyfjafræðingur skuli hafa vakandi auga á misritun og öðrum villum, er fyrir kunna að koma á lyfseðli, og að lyfseðillinn sé að öðru leyti ritaður í samræmi við gildandi fyrirmæli.

Í 6. gr. reglugerðarinnar er fjallað um ávana- og fíknilyf, en sum þeirra eru eftirritunarskyld, þ.e. að eftir afgreiðslu lyfs samkv. lyfseðli ber að halda lyfseðlinum eftir og senda hann fyrir 10. dag næsta mánaðar til Lyfjaeftirlits ríkisins. Í greininni eru einnig talin nokkur ávana- og fíknilyf sem ekki má ávísa einstaklingi í meira magni eða stærri skömmtun en tiltekið er og má þar t.d. nefna diazepamun. Óheimilt er að ávísa diazepami í hylkjum, töflum eða skömmtum í stærri eintökum en 5 mg og ekki meira en svarar 250 mg af hinu virka efni. Þá eru í þessari sömu grein talin nokkur efni sem óheimilt er að ávísa í síma.

Öllum, sem til þekkja, er ljóst að fjöldi símalyfseðla er mikill hér á landi eða um 20% af öllum útgefnum lyfseðlum. Það er augljóst hvílíkt hagræði það er að geta beðið lækni um að senda lyfseðil í nágrannalyfjabúð og þannig sparað sér sporin, svo ekki sé talað um bið á biðstofu. Hugsanlega nýtist tíminn lækninum betur til að sinna þeim sjúklingum er til hans koma. En eins og ég sagði áður er símalyfseðlafjöldinn mikill. Þannig voru t.d. afgreiddir nærri 170 símalyfseðlar í einni lyfjabúð í Reykjavík hinn 7. sept. s.l.

Það var fyrst árið 1963 sem símalyfseðlar voru leyfðir og voru þá einvörðungu hugsaðir til nota í neyðartilvikum. Hugsanlegt bann við útgáfu símalyfseðla eftir öll þessi ár er nánast óframkvæmanlegt, en hertar reglur um útgáfu þeirra koma fyllilega til greina. Um þessar mundir er verið að vinna að endurskoðun reglugerðar um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja og mun ég beina þeim tilmælum til þeirra er það annast að þeir reyni að finna leiðir er leiði til útgáfu færri símalyfseðla og jafnframt verði misnotkun torvelduð.

Ég vil í þessu sambandi minna á að ávísað magn af eftirritunarskyldum lyfjum á Íslandi 1976–1982 hefur minnkað verulega, eins og sterk svefnlyf og sterk örvandi lyf, eins og amfetamín og skyld lyf, og sterk róandi lyf og sterk verkjalyf. Dregið hefur úr ávísun á slík lyf á þessu árabili um 66%. Til þess að gefa nokkra vitneskju: Á árunum 1976–1980 varð um 50% lækkun á seldu magni af geðlyfjum. Ef litið er til þróunar á sölu allra geðlyfja á Norðurlöndum frá 1976 kemur eftirfarandi í ljós, að frá 1976 til 1980 hefur minnkun orðið á Íslandi um 28.5%, en í Danmörku hefur aukning orðið 24.1%, í Finnlandi hefur aukning orðið 1.9% og í Noregi er aukning 8.5%, en í Svíþjóð minnkun um 2.2%. Því má ljóst vera að Íslendingar hafa gengið harðast fram í takmörkun þessara lyfja.

Við athugun á útgáfu símalyfseðla í Reykjavík, sem stendur yfir, benda niðurstöður til að þriðjungur allra lyfjaávísana fari fram gegnum síma hér í Reykjavík og hefur fjöldi símaávísana farið vaxandi. Þessi athugun leiðir enn fremur í ljós að skiptingin milli lyfjaflokka er sem hér segir: Geð- og taugalyf 23%, sýklalyf, hóstamixtúrur o.fl. 21%, verkja- og gigtarlyf 12%, hjarta- og háþrýstingslyf 9%, getnaðarvarnalyf 6% og önnur lyf 29%.

Í tengslum við þá endurskoðun reglugerðarinnar sem nú stendur yfir hefur landlæknir óskað eftir að reglugerðinni verði breytt á þann veg að fækka megi símalyfseðlum án þess að af því leiði óhagræði fyrir sjúklingana. Mikilvægasta breytingin sem landlæknir óskar eftir með bréfi fyrr á þessu ári var að leyfð yrði afgreiðsla lyfs oftar en einu sinni út á sama lyfseðil. Er það mál einnig til athugunar í sambandi við breytingu á reglugerðinni.

Um þetta sérstaka tilvik, sem hv. fyrirspyrjandi vitnar til, er það að segja að ekki telst það góð aðgerð, hvorki í þessu tilfelli né öðrum, að ljúga til nafns og reyna að svíkja út vöru eins og þessa. Þó að það sé gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun hlýtur verknaðurinn að vera sá sami. Það væri ekki gott að koma inn í kjörbúð og taka eitthvað úr hillu eða skúffu og ganga síðan út, en koma svo aftur inn og segja við verslunarmanninn: Heyrðu góði. Ég stal þessu. Ég ætla að skila því.