04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1576 í B-deild Alþingistíðinda. (1056)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 10. landsk. þm. lét þess getið að hann undraðist að það mál sem nú er til umr. væri tekið til umr., það væri óvænt. Um þetta skal tekið fram að 16. dagskrármálið, sem nú er til umræðu, var eina dagskrármálið sem hægt var að taka til umr. fram að því dagskrárnúmeri þar sem enginn frsm. fyrir málum sem framar stóðu á dagskránni var þá til staðar.

Það skal enn fremur á það bent að þm. mega ekki láta sér koma á óvart þó að tekin séu til umr. mál sem eru búin að vera marga fundi á dagskrá. Það skal og hafa í huga að skv. þingsköpum getur forseti tekið þau mál fyrir til umr. sem honum þykir henta best, án tillits til þess hvar þau standa á dagskránni.

Það er hins vegar svo að vera kann að hv. þm. séu mismunandi undir það búnir að taka þátt í umr. um einstök dagskrármál og að einhver þm. kjósi frekar að umr. fari ekki fram fyrr en síðar. Þá eru það mjög eðlileg vinnubrögð að láta þess getið við forseta og forseti mun leitast við að verða við slíkum óskum hverju sinni. Það, sem hér hefur verið sagt, er sagt að gefnu tilefni.