04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1577 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Af því tilefni sem orð hv. 5. landsk. þm. gefa skal tekið fram, sem augljóst má vera, að forseta þykir jafnmiður og hverjum öðrum þm. ef ekki eru vel sóttir þingfundir.

Hv. 5. landsk. þm. vitnaði til orða sem forseti sagði hér fyrr í dag. Það koma stundum fyrir aths. varðandi þingsköp. Það er ekkert við því að segja. En það fer vel á því, bæði fyrir þm. og forseta, að tala ekki meira um slíkt en þörf er á. Það er í raun og veru enginn sómi að slíkum umr. fyrir þingið.

Það getur hins vegar orkað stundum tvímælis hvað er virðingu Alþingis samboðið og hvað ekki. Og það er ekki hægt að ætlast til þess að í þingsölum sé alltaf þéttsetinn bekkur, hvað mikið sem við vildum óska þess. En auðvitað er það því betra því fleiri sem sækja fundi.

Forsetar hafa það ekki í valdi sínu að færa neina nauðuga til fundar í Alþingi. Það má vera ljóst. Hins vegar er ekki ástæða til að ætla annað en þm. almennt vilji gegna sem best skyldum sínum. En það fer stundum eftir atvikum hvað þeim er gert kleift að sitja fundi Alþingis. Mér er kunnugt um að núna, einmitt á þessari stundu, þegar talið er að það sé óhæfilegt að aðeins sé um þriðjungur þm. viðstaddur á fundi, þá eru margir þm. á þýðingarmiklum nefndarfundum í húsum þingsins. Það verður að taka tillit til þess.

Það skal tekið fram að forseti skilur vel og er þakklátur fyrir þann hugsunarhátt sem kemur fram í ummælum hv. 5. landsk. þm. Við þurfum öll að gera allt sem í okkar valdi er til þess að fundir þingsins séu sem best sóttir.