04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1066)

33. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ljótt er að heyra af frændum okkar Dönum og það þykir mér bágt og alls ekki til fyrirmyndar, hvað þá ef ætti að fara að innleiða hér í þingið þann hugsunarhátt, sem mér virðist að síðasti hv. ræðumaður hafi verið að lýsa, að hafa frumkvæði um allan þorra hjónaskilnaða, hvað þá að nenna ekki að standa í því að vera í sambúð. Það er náttúrlega ekki von að það sé veruleg fjölgun á þjóðinni með þessu framferði.

Ég vil að öðru leyti þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir góðar undirtektir við þessa till. og þá hugmynd sem ég hreyfði. Það er út af fyrir sig sjálfsagt rétt að einhverjar húsfreyjur hafa mjög lítil fjárráð, en ég vona að þær hafi flestar einhver peningaráð og geti stuðlað að því að tryggja sín efri ár og séu til þess fúsar. Ég hef aldrei lagt til að þær borguðu í þennan lífeyrissjóð með því að fyrirvinnan, eins og hv. þm. Karl Steinar Guðnason orðaði það, — fyrirvinna er orð sem ég vil ekki nota, það eru hans orð en ekki mín, — færi að greiða 20% af launum sínum í lífeyrissjóð handa sér og konu sinni. Ég held að það sé hægt að fara þarna einhvern milliveg. Ég held að það sé eðlilegt að einhver greiðsla komi frá þessum konum, en alls ekki að ég búist við því að þær geti borið uppi, a.m.k. ekki til að byrja með, þennan sjóð.

Þessar umr. hafa að sumu leyti verið nokkuð fróðlegar. Ég held að nauðsynlegt sé að tryggja einhvern lágmarksrétt því fólki sem ekki á aðild að lífeyrissjóði og ég bendi á eina leið til að reyna að nálgast það því að annars verður þetta ekki gert.

Það var athyglisvert að heyra í hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Hann tekur ekki vel í þá hugmynd að sameina lífeyrissjóði. Mér finnst að honum finnist hún vera nokkuð fjarstæð og þær vangaveltur, sem fram koma í grg. um að stefna að þessu á löngum tíma, tekur hann óstinnt upp. Nefndarseta seðlabankastjóra verður nefnilega svona löng vegna þess að einhverjir forráðamenn lífeyrissjóðanna eru hver að reyna að verja sinn sjóð og þeir kæra sig ekkert um að þetta litla konungsríki sé af þeim tekið.

Ég vil taka það fram, og þakka hv. 3. landsk. þm. ábendingu hér áðan, að ráðstefnuhald var ekki neinn hvati að þessari till. minni. Þessi till. var, eins og fram hefur komið, flutt í fyrra. Eftir að hún var lögð fram og komst í umr. hafa verið haldnar um þetta ráðstefnur og e.t.v. einhverjar áður, en ég var alls ekki að stökkva til og flytja þessa till. út af einhverju ráðstefnuhaldi. Ég flutti þessa till. vegna þess að ég þekki dálítið af konum sem eru algerlega réttlausar og eiga ekki við rúman hag að búa og mér finnst að þetta sé rangt og illa að þessu staðið hjá okkur. Það er hvatinn að því að ég flyt þessa till. Það má hugsa sér að gera þetta með einhverjum öðrum hætti en ég hef hér bent á. Ég er, eins og ég sagði áðan, mjög opinn fyrir því að skoða það allt saman.

Hér kom fram hvað á að gera við þær konur sem ynnu bæði á heimilum sínum og utan heimilis. Ég hef minni áhyggjur af þeim sem vinna úti og eiga þar einhvern lífeyrisrétt, jafnvel þó að þær afkasti einhverju starfi eða miklu starfi á heimilum sínum líka, því að þær hafa þó öðlast einhvern lágmarksrétt.

Hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur þótti vanta stefnumörkun í þennan tillöguflutning minn. Það er reyndar ekki því að að vissu leyti er þessi till. kannske stefnumarkandi. Ég reyni a.m.k. að benda á í grg. leið til þeirrar framtíðar, sem ég vil sjá í þessum efnum, að sameina lífeyrissjóðina, en þetta er ekki stefna hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur.

Ég viðurkenni í þessari till. að aldraða fólkið fær ekki lífeyri sem nægir því til framfærslu ef það hefur ekkert annað. Áður en núv. ríkisstj. tók við völdum áttum við saman aðild að ríkisstj. við hv. 10. landsk. þm. og þá var þetta svona líka, að ellilífeyririnn nægði hvergi nærri til framfærslu því fólki sem ekki hafði annað. Það er líka spurning, þegar eftirlaunum er þannig háttað, hvort ellilífeyrir á að gera það. Það verður þá a.m.k. að hafa mikla þrepaskiptingu á þessu því að þá er verið að borga sumum sem ekkert þurfa á því að halda ef þeir eru vel settir í sínum lífeyrissjóðum eða hafa verulegar tekjur. En við höfum ekki farið inn á þá braut að borga þetta nema að hluta til eftir tekjum og ellilífeyrir gengur til margra sem út af fyrir sig hafa ekkert með hann að gera. Hugsanlega væri þar hægt að spara eða öllu heldur að flytja á milli og láta þá hafa betur sem algerlega eru upp á ellilífeyri úr tryggingum komnir.

Ég hef hvergi sagt það, hv. 10. landsk. þm., að útivinnandi konur væru baggi á þjóðfélaginu, en ég bendi hins vegar á að þjóðfélagið hefur borið kostnað af barnagæslu. Ég held að engum blandist hugur um að svo sé. Auðvitað vinna þær konur sem úti vinna þjóðnýt störf, en þær sem vinna heima á heimilunum gera það líka. Á það vil ég leggja megináherslu.

Það væri náttúrlega hægt að marka myndarlega stefnu sem mér fannst hv. 10. landsk. þm. teldi kannske viðunandi að sums staðar hefur verið gert. Sumar þjóðir hafa farið út í það að ala börn sem mest upp á stofnunum og kosta menntun þeirra og byggja svo yfir þau og framfæra í ellinni. Þetta eru aftur á móti atriði sem við ráðum ekki við og að sumu leyti ekki eftirsóknarverð þróun. Ég held að fjölskyldan eigi miklu hlutverki að gegna. Ég vil styrkja fjölskylduna, en alls ekki láta hana lognast út af og ég held að við eigum að gera fólki, sem vill lifa þessu gamaldags fjölskyldulífi, það kleift, ef það kýs svo, og reyna að tryggja rétt þess til jafns við aðra þjóðfélagsþegna.