04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1593 í B-deild Alþingistíðinda. (1075)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég vil segja örfá orð út af því, sem hv. 4. þm. Vesturl. lét hér mælt áðan, að hann hefði aldrei vitað neinn sjómann sem vildi leggja Ferskfiskeftirlitið niður. Það var í þessari nefnd, sem ég sagði frá áðan, á árunum 1979–80 fulltrúi Farmanna- og fiskimannasambandsins, Ingólfur Ingólfsson, og hann lagði þetta bókstaflega til í sínum tillögum. Það liggur fyrir bréf frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, frá sumrinu 1980, þar sem eindregið er lagt til að Ferskfiskeftirlitið verði lagt niður í núverandi mynd. Þannig fer um rök hv. þm. í þessu efni.

Það var annað sem hann lét sér um munn fara áðan. Hann hélt því fram, eða gaf það í skyn í það minnsta, að Nígeríumarkaður fyrir skreið hafi brostið vegna slælegs gæðaeftirlits. Þetta er hlægileg firra og það veit hann allra manna best. Þó ekki séu hér nema um það bil tíu hv. þm. skil ég ekkert í honum að bjóða þeim upp á svona vitleysu.

Enn fremur er sú staðhæfing hans rakalaus að ferskfiskeftirlitsmenn hafi yfirleitt verið í starfi fyrir náð BSRB í verkfallinu. Þvert á móti liggur fyrir að þeir komu mjög víða hvergi nærri mati.

Long John Silver’s lítur aldrei á gæðaeftirlitsvottorð frá íslenska ríkinu. Eftirlitsmenn þaðan sjá þau ekki einu sinni, enda eru þau bókstaflega einskis virði þar sem 4—5 menn eru að rifa upp nokkra pakka. 4–5 menn sjá um allt gæðaeftirlit á freðfiski. Eftirlitsmenn frá Long John Silver’s líta aldrei á þessi vottorð og ég efast um að þeir viti að til sé slíkt apparat á landinu.

Annað mál er hvort við einhvern tíma neyðumst til þess, ef keppinautar okkar, Kanadamenn og Norðmenn, leyfa að eftirlitsmenn frá Long John Silver’s skoði vinnslustöðvar, ef þessir aðalkeppinautar okkar leyfa slíkt og við viljum á annað borð halda viðskiptum við þennan aðila, hvort við neyðumst ekki til þess að gera slíkt hið sama þrátt fyrir að okkar afurðir séu enn tvímælalaust betri að gæðum en þeirra, enda borgað fyrir þær skv. því.