04.12.1984
Sameinað þing: 29. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið og jafnframt þá gagnrýni sem hún hefur fengið.

Ég ætla að byrja á þeirri gagnrýni sem seinast kom fram varðandi það að hér væri sett fram efnismikil till. á fremur einfeldnislegan hátt og hefðu þau áhrif á þá sem hana skoðuðu að þeim þætti hún kærulaus og þá reyndar ekki hvað síst í sögulegu ljósi þegar hugsað var til þess að ríkismatið á ættir sínar að rekja alla leið aftur til 1904.

Þessi till. er sett fram í einfeldnislegu formi, ég játa það, og þá fyrst og fremst vegna þess að ég tel vera um ákveðin einföld grundvallaratriði að ræða sem við þurfum nauðsynlega að gera upp við okkur. Það á við þau atriði sem fram koma þarna í stuttu þriggja lína grg. um breyttar aðstæður og breytta atvinnuhætti.

Ég ætla að byrja á að benda á það, sem öllum er augljóst, að kjör þeirra manna sem að framleiðslu standa í okkar stærstu útflutningsatvinnugrein eru háð gæðum þeirrar vöru sem þar um ræðir. Því tel ég að þeir verði sjálfir að bera mesta ábyrgð á þessum gæðum.

Hér er oft talað um rekstrargrundvöll og ég held að það hafi verið hv. 4. þm. Vesturl. sem fyrstur meitlaði orðið „rekstrargrundvallarræfillinn“. Þessi ræfill verður að mínu mati að vera óháður afskiptum ríkisvalds að svo miklu leyti sem það fæst.

Ég álít líka að ríkið eigi ekki að hafa afskipti af samningum um kaup og kjör. Ég held reyndar að þar sé ég sammála allflestum sem sitja hér inni. Samt sem áður eru þeir sömu aðilar, sem segjast vera sammála um þessi atriði, sífellt og á nánast öllum vígstöðvum að biðja um afskipti ríkisvaldsins af samningum um kaup og kjör.

Þegar hv. 7. þm. Reykv. talar um nauðsyn á óháðu ríkismati sem gífurlegu atriði horfir hann fram hjá því að það er ríkið sem ákveður verðið á fiskinum upp úr sjó. Þegar sami aðili kemur svo og metur fiskinn kominn upp á bryggju getur ekki verið um að ræða óháð mat. Óháður aðili væri einhver aðili sem fenginn væri nánast „utan úr bæ“ og hefði þá ekki meiri hagsmuna að gæta en hver og einn sem á líf sitt undir því að Íslendingar afli gjaldeyris.

Ríkisvaldið er aldrei óháð í þessu efni, sérstaklega ekki á meðan verðákvörðunin fer fram með þátttöku ríkisins. Þegar ég tala um að ríkið eigi ekki að taka ábyrgð á gæðum framleiðslunnar bið ég menn að horfa á hvort eðlilegt sé að þjóðin taki skellinn þegar gæði bregðast hjá einum framleiðanda. Er ekki eðlilegt að viðkomandi framleiðandi taki þann skell sjálfur? Hvernig öðruvísi getur hann fundið til ábyrgðartilfinningar gagnvart sinni framleiðslu? Ég minni á atriði sem 7. þm. Reykv. nefndi, lagmetisverslun við austantjaldslönd. Það tókst að bjarga þeim viðskiptum, eins og hann benti á. Sú björgun fólst ekki hvað síst í því að varan var send aftur hingað til Íslands og þjóðin tók skellinn. Það voru ekki framleiðendurnir sem tóku þann skell. Ég get ekki sagt annað um það en að mér finnast það vond vinnubrögð og ég tel ekki að framleiðendur dragi raunverulegan lærdóm af slíkri lífsreynslu. Ég vildi aftur á móti draga þann lærdóm af þeirri lífsreynslu að framleiðandinn ætti að bera þessa ábyrgð einn.

Hv. 7. þm. Reykv. minntist líka á hreinlætiseftirlit og nauðsyn sérþekkingar á því sviði. Ég er honum alveg sammála í því. Aftur á móti bind ég þar miklar vonir við fyrirtæki sem ég held að eigi eftir, ef vel er að staðið, að valda miklu meiri straumhvörfum í þessu máli en ríkismatið, en það er Fiskvinnsluskólinn. Ég tel að fólk eigi að vera vel menntað á þessu sviði framleiðslunnar og að þegar sú menntun er orðin útbreidd og nær til allra þátta framleiðslunnar skili hún miklu, miklu meiri árangri en stikkprufur ríkisstarfsmanna.

Ég hef reyndar fengið þá gagnrýni áður í þessari umr. um þennan bandorm, eins og menn vilja kalla hann, að það vanti í hann pappír. Ég tel ekki að það sé raunveruleg þörf á pappír í þessu tilviki, þegar við erum að tala um ákveðin grundvallaratriði varðandi dreifingu ábyrgðar og valds og grundvallaratriði varðandi hlutverk ríkisins.

Hv. 7. þm. Reykv. minntist á að við yrðum að laga okkur að aðstæðum og haga okkur í samræmi við viðskiptaaðila. Ef hjá því verður ekki komist verður líklega að bíta í það súra epli, en mér finnst þá að það gildi til beggja átta, þ.e. það gildi ekki bara í viðskiptum við þau lönd sem hafa ríkisbúskap, heldur þá líka sé um að ræða lönd þar sem stundað er eitthvað það sem menn kalla frjálsa verslun. Ég veit að hv. 7. þm. Reykv. leggur kannske ekki mikið upp úr því hugtaki. Ég minnist á þetta vegna þess að hv. 4. þm. Vesturl. minntist á fyrirtækið Long John Silver’s sem vildi hafa eftirlit, þ.e. skoða framleiðslufyrirtæki, hér á landi. Ég varð var við það, bæði í hans máli og annarra sem hér komu upp, að mönnum fannst þetta allt að því ósvinna. Ég get alls ekki skilið þann hugsunarhátt. Hvað er eðlilegra en að kaupandi vöru, sem jafnmikilvægt er að standist kröfur um gæði, fái að skoða framleiðslustaðina og jafnvel fylgjast með framleiðslunni? Það þarf ekki að felast í því að hann sé að rengja fullyrðingar framleiðendanna um gæði framleiðslunnar, heldur er þarna einfaldlega um það að ræða sem kallað er sannprófun.

Við vitum t.d. að í viðskiptum við Japan er mjög algengt að Japanir sendi hingað menn til að fylgjast með að framleiðslan fari fram eins og þeirra menning gerir kröfur til. Þeir eru ekki tilbúnir að taka við vöru öðruvísi en að hún uppfylli þær kröfur sem þeir eru vanir að gera til hennar.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði þessa till. ekki út í hött og benti á að Farmanna- og fiskimannasambandið hafi beinlínis lagt það til að ferskfiskmatið verði lagt niður. Ég vissi reyndar ekki að slík tillaga hefði komið frá Farmanna- og fiskimannasambandinu og var ánægður með að heyra það.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson talaði um að nauðsynlegt yrði kannske að ríkið ræki einhvers konar „hæstarétt“ sem úrskurðaraðila milli kaupenda og seljenda. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki allt of mikla trú á þess háttar fyrirkomulagi, einfaldlega vegna þess að ég tel að smátt og smátt í tímans rás mundi slíkur úrskurðaraðili verða að matsaðila á svipaðan hátt og við þekkjum hvað snertir yfirnefnd Verðlagsráðs þar sem eini aðilinn sem raunverulega stendur að verðákvörðun er fulltrúi ríkisvaldsins. Hv. 5. þm. Norðurl. e. fullyrti reyndar eins og fleiri að ekki yrði komist hjá kröfum Sovétmanna og annarra austantjaldsþjóða um ábyrgð á vörum til þeirra og það kann vel að vera, en þá verður að reyna að bregðast við því með þeim hætti sem talist gæti skynsamlegur og með sem minnstum tilkostnaði.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að framleiðendur hefðu lýst áhuga sínum á því að fá meira eftirlit sjálfir á hendur inn á vinnslustöðvarnar. Það verð ég líka að telja ánægjulegt og tel að það styðji þessa hugmynd. Og hann nefndi þann möguleika að kanna hvort sölusamtökin gætu tekið þetta hlutverk að sér. Hann hefur sjálfsagt hugsað til þess að sambandsfiskiðjurnar reka nokkurs konar eigið gæðaeftirlit og það hefur skilað árangri. Allavega segja sambandsmenn sjálfir að verð á afurðum þeirra sé betra en frá stærsta samkeppnisaðilanum. Nú þori ég ekki að fullyrða hversu satt og rétt það er. Ég hef þetta eftir fulltrúa fræðslu- og kaupfélagsdeildar Sambandsins sem ég hitti á fundi fyrir stuttu. (Gripið fram í: Sölumiðstöðin rekur þetta líka.) Já, ég fékk reyndar allgóða lýsingu á því hver væri munurinn á vígstöðunni hjá Sambandinu og sölusamtökunum og þar sem þarna var um einhliða upplýsingar að ræða þori ég ekki að leggja allt of mikið upp úr þeim.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að nefndin sem fjallaði um frv. í fyrra hefði fallist á ferskfiskmatið til að fyrirbyggja árekstra kaupenda og seljenda. Sama atriði kom reyndar fram í máli 3. þm. Vestf., þ.e. að ferskfiskmatið væri áríðandi þáttur í samskiptum sjómanna og fiskkaupenda. 3. þm. Vestf. taldi að nauðsynlegt væri að hafa þarna ventil og nauðsynlegt væri að fyrirbyggja árekstra. Hérna er um mjög bein afskipti ríkisvaldsins af kjörum sjómanna að ræða, fyrst í gegnum verðákvörðunina en síðan í gegnum matið. Samningsréttur sjómanna er við þessar aðstæður í raun orðinn mjög lítils virði. Við þurfum ekki annað en horfa til löggjafar alls konar, sem fór hér í gegn um þingið í fyrra, þar sem reynt var að bæta útgerðaraðilum upp verð á fiski eða skort á tekjum með tilfærslum úr sjóðum og þá yfirleitt á þann veginn að það fór fram hjá sjómönnum, þ.e. það kom ekki til skipta. Öll þessi afskipti ríkisvaldsins af kjörum sjómanna tel ég vera óheilbrigð og óheillavænleg.

Það má spyrja t.d. í þessu sambandi hvers vegna íslenskir sjómenn yfir höfuð þora að sigla á Grimsby og Hull og Cuxhaven og Bremerhaven til að selja fisk þar sem ekki er um neitt ríkismat sjávarafurða eða yfirnefnd Verðlagsráðs að ræða, heldur bara einhvern karl sem lyktar upp úr körfum og ákveður hvað fiskurinn eigi að kosta. Staðreyndin er samt sem áður að þeir fá miklu hærra fyrir þennan fisk eftir langan flutning og léleg veðurskilyrði en þeir fengju hér heima. (Gripið fram í: Þeir hafa svona markað á Sauðárkróki.) Ha? (Gripið fram í: Þeir hafa svoleiðis markað á Sauðárkróki.) Ég er ekki að tala um að hægt sé að koma upp markaði eins og í þessum höfnum sem að ég nefndi. Ég er eingöngu að tala um að auðvitað hlýtur það að vera hollt að sjómenn séu raunverulegir aðilar að þessari verðákvörðun, að hún sé ekki tekin frá þeim og þeir eigi enga aðild að þessu máli og hafi þar af leiðandi mjög lítil áhrif á kjör sín.

Hv. 3. þm. Vestf. nefndi að það vantaði úrskurðaraðila. Það getur vel verið, en ég sé ekki hvers vegna hann þarf að vera ríkisstarfsmaður. Úrskurðaraðili getur verið hver sá aðili sem menn kalla til sem sáttasemjara í slíkum málum. Þessu er nú þannig komið í dag, þegar nánar er að gáð, að íslenskir sjómenn eru nánast orðnir ríkisstarfsmenn vegna þess að kjör þeirra eru þannig ákveðin og áhrif þeirra á launin eru það lítil að þeim eru skömmtuð þau eins og ríkisstarfsmönnum.

Verðákvörðun vefst fyrir mönnum. Auðvitað fer verðákvörðun alltaf fram samkvæmt einhverri viðmiðun. Karlinn í Cuxhaven er búinn að stunda þetta um áraraðir og hann miðar við ákveðin atriði sem hann fylgir við sína verðákvörðun. Alveg eins eru til hérna ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að meta fisk. Menn telja orma, menn lykta, menn mæla og menn skoða lit og annað slíkt. Þetta eru atriði sem farið er eftir. Það getur orðið ágreiningsefni milli aðila hvernig eigi að meta hvert atriði, en ágreining verða menn að fá að jafna sín á milli með samningum. Það kallast á fagmáli frjálsir samningar.

Einhver hélt því fram, það var 4. þm. Vesturl., að sölusamtökin væru í raun og veru eign þjóðarinnar og því eðlilegt að samfélagið hefði eftirlit með framleiðslu þeirra. Ég get ekki alveg tekið undir að sölusamtökin séu eign þjóðarinnar því þjóðin hefur ekki allt of mikið um það að segja hvernig rekstri þeirra er hagað. Ég verð því að andmæla hv. 4. þm. Vesturl. í þessu efni. Ég sé ekki að þetta séu haldbær rök til þess að mæla með gildi þessarar starfsemi.

Einhver áleit að ekki væri hægt að fella þessa starfsemi niður með öllu og einhverja ríkislöggildingu þyrfti á viðskipti við sérstaklega austantjaldslöndin og hugsanlega mætti flytja það sem út af stæði af þessari starfsemi í einhverja aðra stofnun. Það kann vel að vera. Eins og ég sagði í upphafi er mín hugmynd að aðferð í verðákvörðunum einfaldlega sú að ríkið taki ekki ábyrgð á þeim. Ríkið tekur ábyrgð á verðákvörðun þegar um austantjaldsviðskipti er að ræða með þeim hætti að þar eru gerðir vöruskiptasamningar aðallega. Því verður kannske að segja að ekki verði undan því komist að ríkið hafi eftirlit með gæðum framleiðslunnar þegar um þau viðskipti er að ræða.

Hvers vegna er þessi till. flutt? spyrja menn kannske. Þá get ég ekki annað en endurtekið það að nokkru leyti, sem ég hef sagt hér áður, að hún er flutt til að varpa fram og fá umræðu um ákveðin grundvallaratriði að mati BJ. Við teljum ekki að hægt sé að sanna að þetta fyrirkomulag hafi nein jákvæð þjóðhagsleg áhrif umfram annað fyrirkomulag á þessum málum og horfum þá, eins og kannske fleiri, til samanburðar við fyrirkomulag hjá öðrum þjóðum. Við teljum að kjör manna séu beint háð gæðum þeirrar vöru sem hér um ræðir og því verði þeir sjálfir að fá að bera ábyrgð á gæðunum. Við teljum líka að rekstrargrundvöllur útgerðarinnar verði að vera óháður afskiptum ríkisvaldsins. Við teljum að ríkið eigi ekki að hafa afskipti af samningum um kaup og kjör og ríkið eigi ekki að bera ábyrgð á gæðum framleiðslunnar. Þess vegna er þessi till. til komin.