05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1081)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Hv. iðnn. hefur tekið til meðferðar það mál sem nú er hér til umr., frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Landssmiðjuna.

Nefndin leitaði umsagnar nokkurra aðila og fékk svör frá tveim aðilum, frá Landhelgisgæslunni þar sem segir að Landhelgisgæslan geri engar aths. við frv. og frá Félagi járniðnaðarmanna sem mælir gegn samþykkt frv.

Þá fékk nefndin á sinn fund forustumenn þess fyrirtækis sem ætlað er að taki við rekstri Landssmiðjunnar skv. frv. þessu.

Meiri hl. iðnn., sex nm., mælir með að frv. verði samþykkt óbreytt, en einn nm., Skúli Alexandersson, skilar séráliti.

Við 1. umr. gerði hæstv. iðnrh. ítarlega grein fyrir efni frv. og er ekki ástæða til þess hér að fara að endurtaka það sem þar kom fram. Þetta frv. hefur haft sinn aðdraganda svo sem eðlilegt er. Í febr. s.l. var hafist handa um það að gera forkönnun á rekstri og rekstrargrundvelli Landssmiðjunnar. Því verki var lokið í júnímánuði s.l. En í tengslum við þessa úttekt og samhliða endurskipulagningu á rekstri Landssmiðjunnar hófust óformlegar viðræður milli fulltrúa starfsmanna og iðnrh. um möguleika á sölu fyrirtækisins til starfsmanna.

Í marsmánuði s.l. stofnuðu 52 af starfsmönnum Landssmiðjunnar félag til þess að kanna grundvöll að samkomulagi við iðnrh. um kaup á Landssmiðjunni og kanna rekstrargrundvöll hins nýja fyrirtækis. Þetta félag fól stjórn sinni umboð til viðræðna og samningagerðar við iðnrh. Þessum samningum var lokið í júlímánuði s.l.

Í sept. var svo stofnað hlutafélagið Landssmiðjan hf. sem gert var ráð fyrir að yrði kaupandi að Landssmiðjunni. Þetta félag gerði síðan kaupsamning við ríkisstj. um kaup á Landssmiðjunni og gerðist það í sept. s.l. Skv. þessum samningi er gert ráð fyrir að ríkissjóður selji hlutafélaginu Landssmiðjunni hf. ríkisfyrirtækið Landssmiðjuna í fullum rekstri. Það er miðað við það að yfirtaka hins nýja félags á Landssmiðjunni fari fram í byrjun næsta árs. Þetta er meginaðdragandi að því frv. sem hér liggur fyrir. En eins og hv. þm. vita, þá fylgir frv. þessu kaupsamningur milli Landssmiðjunnar hf. og ríkisstj.

Það má segja að frv. þetta sé í eðli sínu til þess gert að koma fram vilja og stefnu ríkisstj. í þessum efnum, þ.e. að selja Landssmiðjuna, og svo að koma í framkvæmd vilja starfsmanna Landssmiðjunnar sem hafa sameinast í því fyrirtæki sem gert er ráð fyrir að kaupi Landssmiðjuna.