05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1082)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Frsm. minni hl. (Skúli Alexandersson):

Virðulegi forseti. Frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Landssmiðjuna var til umr. á fundum iðnn. á þrem fundum, og eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., formanni iðnn., var málið sent nokkrum aðilum til umsagnar auk þess sem stjórnendur hins nýja fyrirtækis, sem áformað er að kaupi Landssmiðjuna, komu á fund nefndarinnar. Nefndin fékk ekki svör frá nema tveimur af þeim aðilum, sem hún sendi málið til umsagnar, þ.e. frá Félagi járniðnaðarmanna og Landhelgisgæslunni, og eins og kom fram í ræðu hv. formanns n. voru engar aths. frá hendi Landhelgisgæslunnar, en Félag járniðnaðarmanna lagði til að frv. yrði fellt.

Ég geri ráð fyrir því að aðaltilgangur þessa frv. hafi komið fram í lokaorðum hv. frsm. meiri hl., þ.e. að verið sé að vinna að því að koma fram vilja og stefnu ríkisstj. með því að selja þetta ríkisfyrirtæki svo og önnur sem eru á þeim óskalista. Ég lét þá skoðun mína í ljós við 1. umr. málsins að það væru náttúrlega fráleit vinnubrögð að núv. ríkisstjórn eða hver sú ríkisstjórn sem að völdum situr, oftast nær er það nú ekki mjög langur tími, undantekningar eru þó, að þær skuli taka sig til og breyta eignarráðum yfir fyrirtækjum á stuttum valdaferli. Ég vil undirstrika það að ég lít svo á að hér sé verið að ráðstafa ríkiseign án þess að nokkurt eðlilegt rekstrarsjónarmið liggi þar á bak við, heldur aðeins þessi eina ósk um eignatilfærslu.

Það hefur einnig verið undirstrikað í sambandi við umr. um þetta mál að hér sé verið að afhenda starfsmönnum fyrirtækisins þessa eign. Segja má að það sé góðra gjalda vert í upphafi umræðna um söluna að starfsmönnum fyrirtækisins hafi verið boðið fyrirtækið til kaups. En útkoman úr því varð sú að af 76 starfsmönnum eru aðeins 22 sem óska eftir að gerast kaupendur. Og málið stóð þannig um mánaðamótin nóv. — des. að ekki hafði verið innheimt hlutafjárframlag til þessa fyrirtækis þannig að ekki er fullkomlega í ljós komið hvort starfsmennirnir halda þessari tölu þó að það megi líklegt teljast.

Í stofnsamningi þess fyrirtækis sem starfsmennirnir stofnuðu til þess að kaupa eignir Landssmiðjunnar er ekkert sem gefur væntanlegum starfsmönnum tækifæri til að gerast eigendur að fyrirtækinu fram yfir hvern annan, sem vildi kaupa hlutabréf ef þau losnuðu, þó í því skerðingarhlutfalli sem hlutabréfalög ætlast til. Ég sé því ekki að sá þáttur að starfsmönnum hafi verið gefið tækifæri til að eignast fyrirtæki og stjórna því sé tryggður þegar upp er staðið. Hvort tveggja er að ekki eru eftir nema 22 af upp undir 80 starfsmönnum og væntanlegir starfsmenn fyrirtækisins hafa ekki möguleika til að gerast eigendur eða stjórnendur fyrirtækisins eftir því eignarformi sem upp er sett. Og nákvæmlega á sama máta má búast við því að þeir 22 eignaraðilar, sem standa að stofnun fyrirtækisins, verði eftir stuttan tíma einhvers staðar annars staðar að starfi en í Landssmiðjunni. Hlutafjáreign þeirra bindur þá í engu fyrirtækinu.

Í ágúst 1983 mun hafa komið álitsgerð frá nefnd sem athugaði rekstur og framtíðarmöguleika Landssmiðjunnar. Þar var lagt til að rekstri fyrirtækisins yrði breytt og haldið áfram þeirri uppbyggingu sem áformuð var, þó á nokkuð öðrum grunni en fyrst var áformað, ekki í eins stórum byggingum. Þessa áætlun mun iðnrn. hafa að vissu leyti samþykkt eða lýst stuðningi við en horfið svo frá eftir einhverja frekari athugun, eða þá að það hefur verið talið eðlilegra að fylgja eftir þeirri hörðu stefnu ríkisstj. að selja fyrirtækin en að kanna þann möguleika hvort rekstur fyrirtækisins gæti haldið áfram og verið arðbær. Með því að halda rekstri fyrirtækisins áfram á þeim grunni sem þessi áætlun í ágúst 1983 gerði ráð fyrir var talið að fyrirtækið gæti staðið undir fjármagnskostnaði vegna nýbyggingar fyrirtækisins við Skútuvog og þannig tryggt eignir ríkissjóðs og gert þær arðbærar. Hins vegar blasir nú við að þessar eignir verði verðlitlar eins og hæstv. fjmrh. skýrði hér frá við 1. umr., jafnvel talið gott ef 15% af verðgildi þeirri eigna næðist út úr þeim.

Á það var bent hér við 1. umr. málsins að við það að hugað var að því að starfsmenn yfirtækju fyrirtækið hefði þegar í stað farið fram viss endurskipulagning og það hefði leitt til þess að unnt hefði verið að fækka starfsmönnum um 10–15, minnir mig. Sagt var að það væri vegna þess að tekin hefði verið í gagnið ný tölva og endurskipulagður lager fyrirtækisins, færðir saman tveir lagerar og önnur endurskipulagning átt sér stað hjá fyrirtækinu. Forustumenn hins nýja fyrirtækis, sem mættu á fund hjá okkur, undirstrikuðu hins vegar að þetta hefði alls ekki verið í neinum tengslum við yfirtöku starfsmannanna. Þessar breytingar hefðu verið komnar í gang undir fullri forsjá framkvæmdastjórnar Landssmiðjunnar áður en kom til beinnar umræðu um eigendaskiptin.

Eins og ég hef áður sagt sýnist mér þetta mál fyrst og fremst byggt á þeirri stefnu að selja án þess að nokkur hagkvæmnissjónarmið liggi þar bak við. Ég lít svo á að ef átti að selja hefði átt að tryggja stöðu ríkissjóðs betur en raun ber vitni og málið sé ekki það vel unnið að það hefði átt að leggja það fyrir Alþingi í þeirri mynd sem það er, bæði gagnvart rekstrargrundvelli og eignasölu svo og uppbyggingu þess eignarfyrirtækis sem við fyrirtækinu tekur. Ég tel að það hefði verið miklu eðlilegra að stofnað hefði verið félag, sem hefði tryggt væntanlegum starfsmönnum fullan stjórnunar- og eignarrétt að fyrirtækinu, heldur en að búið væri til sérstakt hlutafélag sem er ekki í neinu frábrugðið þeim hlutafélögum sem við búum við í almennum eignarrekstri. Ég lít svo á að hér sé í mjög litlum mæli verið að afhenda starfsmönnum fyrirtækið, í mjög litlum mæli og þáttur starfsmanna muni fara minnkandi í eign fyrirtækisins þegar fram líða stundir.

Ég legg því til að þetta frv. verði fellt.