05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1611 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr., en þegar maður heyrir yfirlýsingar á borð við þær sem komu frá hv. 4. þm. Vesturl. hér áðan og sem betur fer eru nú fáheyrðar hér í þingsölum, þá þyrmir alveg yfir mann. Hann segir: Ég er ekki kreddumaðurinn. Það eru hinir sex í nefndinni sem eru kreddubókarmennirnir og hanga í trú á eitthvað. Hann vitnaði hér til þess að Alþfl. hefði átt að því nokkurn hlut að Landssmiðjan komst á laggirnar á sínum tíma. Það er rétt og Alþfl. getur verið stoltur af því. En það eru breyttir tímar, hv. þm. Skúli Alexandersson. Það eru aðrir tímar nú en voru þá og önnur sjónarmið giltu þá en gilda nú. En það eru til stjórnmálaflokkar sem hafa staðnað í gömlum kreddum og þeir eru stundum býsna áberandi.

Allar aðstæður og öll rök hafa breyst. Það hefur verið rakið hér mjög ítarlega í þessum umr., m.a. af hv. 6. landsk þm. Þess vegna erum við Alþfl.-menn þeirrar skoðunar að ekkert sé við það að athuga að ríkið selji starfsmönnum þetta fyrirtæki og raunar ástæðulaust með öllu að ríkið sé í þessum rekstri eins og nú háttar til. Ég veit ekki hvað það getur kallast annað en að hengja sig í gamlar trúarkreddur að halda fram hinu gagnstæða, eins og hv. þm. Skúli Alexandersson hefur hér gert og segir svo: Sjáið þið hina sex. (SkA: Þeir eru sjö núna.) Jæja eða sjö. Þeir eru sjálfsagt fleiri hér í Ed. sem hafa til að bera þá víðsýni og það frjálslyndi sem felst í því að geta skipt um skoðun. Þó svo að flokkur hafi einhvern tíma haft eina skoðun, þá geta þeir tímar runnið upp að fyllilega sé réttlætanlegt og eðlilegt að hafa aðra skoðun. Þá eiga menn að hafa hugrekki til að skipta um skoðun, hv. þm. Skúli Alexandersson. Þeir eiga ekki að hengja sig í gömlu kreddurnar. Það fer illa að lokum.