05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

138. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Tómas Árnason):

Virðulegi forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 67 frá 1976 um löggilta endurskoðendur. Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess.

Hv. þm. Stefán Benediktsson var viðstaddur fund n. og er hann samþykkur nál. þessu. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hv. 11. þm. Reykv., var fjarverandi en er samþykk nál.

Virðulegi forseti. Ég skal hafa um þetta stutt mál. Nefndin sendi frv. Félagi löggiltra endurskoðenda til umsagnar og fékk til baka álitsgerð frá svokallaðri álitsnefnd félagsins sem hefur fjallað um frv. Er nefndin sammála frv. og fellst á þau sjónarmið sem koma fram í aths. við frv. Það var einnig leitað umsagnar prófnefndar löggiltra endurskoðenda og hefur prófnefndin fjallað um málið og mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt, enda er frv. raunar flutt að frumkvæði hennar.

Núgildandi lög um löggilta endurskoðendur eru frá árinu 1976. Tilgangur þeirra er að tryggja að til sé í landinu á hverjum tíma stétt manna sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum til notkunar í viðskiptum. Ég held að það sé samdóma álit manna að mikil þörf sé á að hafa trausta og vel menntaða stétt endurskoðenda. Sannleikurinn er sá að nútíma bókhald, skattalög og annað sem lýtur að endurskoðun er það flókið mál að í ákaflega mörgum tilfellum má segja að endurskoðendurnir viti miklu meira um raunverulegan gang t.d. fyrirtækja og jafnvel hag einstaklinga en þeir sjálfir með tilliti til þeirra flóknu reglna og laga sem gilda í þessum efnum og veit ég að hv. þm. er þetta mætavel ljóst.

Í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um endurskoðendur er að finna það ákvæði að engum sé heimilt að endurtaka próf, sem þarf að standast til að fá löggildingu, nema einu sinni. Efni þessa frv. er að lagt er til að þessi grein falli niður sem þýðir efnislega að þá geta þeir sem hafa þreytt prófið t.d. tvisvar sinnum fengið færi á því að þreyta það oftar. Ráðh. setur reglugerð um þessi mál og það er fjmrh. sem þetta heyrir undir. Í lögunum segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um framkvæmd prófs, skipan prófnefndar og störf prófnefndarmanna.“

Ég vildi leyfa mér í þessu sambandi að beina dálítilli ábendingu til hæstv. fjmrh. Mér er kunnugt um að það hefur orðið töluverður misbrestur á framkvæmd þessara prófmála að því leyti að próf hafa verið þreytt t.d. síðast í októbermánuði og síðan hefur prófunum ekki verið skilað. Þeir sem prófin þreyttu fengu ekki einkunnir fyrr en 4–5 mánuðum síðar. Venjulega er það svo að um helmingur þeirra sem þreyta prófin falla og þeir verða því að bíða í 4–5 mánuði skjálfandi á beinunum eftir því að prófnefndarmönnum þóknist að skila sinu skylduverki. Ég álit að þetta sé gersamlega óviðunandi og raunar ekki sæmandi svo að ég noti ekki sterkari orð. Vildi ég leyfa mér að vísa því til hæstv. fjmrh. hvort hann tæki ekki til athugunar þessa reglugerð og setti t.d. tímamörk að gefnu tilefni í þessu efni. Auðvitað veit ég að hann getur hæglega kynnt sér hvernig þetta hefur gengið til. Það er kannske misjafnt, en ég veit t.d. að í fyrra liðu margir mánuðir frá prófi og þar til einkunnum var skilað. Ég vildi biðja hæstv. ráðh. að athuga hvort ekki væri hugsandi að setja eðlileg tímamörk í þessum efnum að gefnu tilefni, ég nefni t.d. tvo mánuði, þannig að þeir sem þreyta próf fengju sínar einkunnir og úrslit prófa ekki síðar en tveimur mánuðum eftir að þau væru þreytt. Það er kannske of langur tími. En segjum að aðstæður séu þannig að það ætti ekki undir neinum kringumstæðum að vera lengri tími. Ég sting því upp á að eðlilegt væri að hafa það mánuð. Það væri auðvitað eðlilegt eins og er yfirleitt í skólum. Það kemur inn í þetta mannlegur þáttur. Það er eðlilegt þegar menn þreyta svona próf. Menn vita ekkert um það hvort þeir standast prófið eða ekki og bíða þá í ofvæni vikum og mánuðum saman. Þetta er ekki hægt í okkar þjóðfélagi og á að vera alveg óþarfi. Ég vildi því leyfa mér að beina þessum tilmælum til hæstv. fjmrh.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, virðulegi forseti, en endurtek að n. leggur samhljóða til að frv. verði samþykki.