05.12.1984
Efri deild: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1100)

186. mál, frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða kunnugt mál sem var samþykkt hér í fyrra. Er raunar aðeins um smábreytingu og framlengingu að ræða. Ég vil leyfa mér fyrir hönd minni hl. n. að mæla fyrir nál. sem er á þskj. 223 og hljóðar svo, með leyfiforseta:

„Við undirritaðir nefndarmenn erum andvígir þessu frv. og leggjum til að það verði fellt.

Einstakir nm., sem skipa minni hl., munu gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum við 2. umr. málsins.“ Undir þetta rita Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð. Þegar þetta frv. var hér til umr. á fyrra þingi bentum við Alþfl.-menn á að það væri að mörgu leyti gallað. Í fyrsta lagi opnaði það á einu sviði nýjar gáttir til löglegs „undandráttar“ undan skatti í formi gervifyrirtækja. Í öðru lagi mismunaði það fólki og fyrirtækjum eftir byggðarlögum öllum hinum fámennari byggðum í óhag. Það er í þriðja lagi hinum fáu og frumkvæðisríku í óhag og það er hinum stóru fyrirtækjum í fjórða lagi í hag á kostnað hinna smáu og meðalstóru. Eins og þetta frv. var fram lagt og er lögfest töldum við það fela í sér mjög mikla mismunun.

Tilgangurinn sem sagður var vaka fyrir ríkisstj. með því að leggja þetta frv. fram og knýja það í lagaform var sagður sá að treysta atvinnulífið með þátttöku almennings með fjárfestingu í atvinnurekstri. Þetta á vitaskuld rétt á sér og er mjög mikilvægt viðfangsefni. En við erum þeirrar skoðunar að í þeirri gerð frv. sem varð að lögum og í þeim lögum sem hér er verið að fjalla um nú hafi ekki tekist að finna þeim tilgangi nægilega skynsamlegt form. Við erum m.ö.o. ekki andvígir þessari grundvallarhugsun heldur aðeins því í hvern búning hún hefur verið færð í þessum lögum. Við lögðum því til þegar málið var hér til umr. á sínum tíma að því yrði vísað til ríkisstj. til þess að hún gæti endurskoðað það og reynt að færa þessar reglur um þátttöku almennings í atvinnulífinu til skynsamlegra horfs, þannig að e.t.v. mætti ná breiðari samstöðu um málið. Þess vegna lögðum við til að því yrði vísað aftur til ríkisstj. til athugunar. Á það var ekki fallist. Málið var knúið fram í þeirri mynd sem það var lagt fram og þess vegna munum við nú greiða atkv. gegn því vegna þess að við teljum að þetta sé ekki í þeirri mynd sem vera ætti.

Einn þeirra nm. sem skipaði minni hl., hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hefur tilkynnt veikindaforföll þannig að hún mun ekki gera grein fyrir sínum sjónarmiðum hér. En þetta eru ástæðurnar fyrir því að við Alþfl.-menn greiðum atkv. gegn þessu frv. og tel ég óþarft að hafa um það að sinni fleiri orð.