05.12.1984
Neðri deild: 20. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1618 í B-deild Alþingistíðinda. (1107)

153. mál, heilbrigðisþjónusta

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög á móti þessu frv. og mun ekki geta fallist á það. Í meðferð málsins í Ed. kom fram brtt. um að frestur sá sem gert er ráð fyrir að standi til ársloka 1985 í 1. gr. frv. verði í Reykjavíkurhéraði og heilsugæsluumdæmum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði ekki lengri en til 1. maí. Mun ég freista þess að endurflytja þá till. hér, en hún náði ekki fram að ganga í hv. Ed.

Ég tel afar óheppilegt að hæstv. ráðh. standi að því að fresta uppbyggingu heilsugæslustöðva. Sérstaklega kemur þetta hart niður á Reykjavík þar sem mikið verk hafði verið unnið að skipulegri uppbyggingu heilsugæslukerfisins. En það hefur verið ljóst í tíð núverandi borgarstjórnar að allt hefur verið gert til að tefja það mál, sem er auðvitað í blóra við alla fyrri stefnu yfirvalda í heilbrigðismálum. Ég mun þess vegna freista þess við 2. umr. að bera fram brtt. í þá veru að þessi frestur standi ekki lengur en til 1. maí 1985.

Ég vil einnig lýsa undrun minni á því að fulltrúar Framsfl. í heilbr.- og trn. Ed. skuli samþykkja þetta frv. óbreytt vegna þess að í borgarstjórn Reykjavíkur hafa þeir verið mjög gagnrýnir á stefnu núverandi borgaryfirvalda í heilsugæslumálum. En það er eins og oft áður erfitt að átta sig á hver stefna þess flokks er í hinum ýmsu málaflokkum.

En sem sagt, herra forseti, við 2. umr. munum við Alþb.-menn leggja fram brtt. í svipaða veru og var lögð fram í hv. Ed.